26. febrúar 2013

Ómissandi karlmenn

„Þegar Boris fer frá Míu eftir þrjátíu ára hjónaband missir hún vitið - þó aðeins tímabundið.“ Þetta er fyrsta setningin í káputexta á bók Siri Hustvedt, Sumar án karlmanna, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Nönnu Þórsdóttur.

Mía Fredriksen er fimmtíu og fimm ára skáld og einhvers konar amatör-taugalífeðlisfræðingur sem hefur verið gift og búið í New York með raunvísindamanninum og tréhestinum Boris í áratugi. Saman eiga þau dóttur sem er leikkona og fegurðardís. Boris nær sér í nýja (yngri, gáfaða og franska) konu og Mía fær það sem kallað er taugaáfall (það orð er notað nokkrum sinnum í bókinni en ég hef reyndar aldrei áttað mig almennilega á hvað taugaáfall er) en líka er talað um skammvinna geðröskun og áfallastreituröskun. Hún er lögð inn á geðdeild um tíma og í kjölfarið fer hún á æskuslóðirnar í Minnesota til að jafna sig og halda ljóðanámskeið fyrir unglingsstúlkur. Þar býr háöldruð mamma hennar í þjónustuíbúð og Mía kynnist vinkonum hennar og fleira fólki.Sagan um eldri manninn sem verður ástfanginn af yngri konu og fer frá þeirri gömlu er vægast sagt margtuggin. Þetta veit sögupersónan Mía en sögur sem endurtaka sig geta auðvitað alveg verið mjög áhugaverðar. Siri Hustvedt hefur stundum náð mér þokkalega í skáldsögunum sínum og ég hef líka lesið eftir hana aðrar bækur, t.d. þessa sem ég skrifaði um. En Siri Hustvedt er oft ansi fleikí og froðuksnakkandi í rassvasataugalífeðlisfræði sinni og hún er býsna sjálfhverf. Þess má geta í framhjáhlaupi að þegar ég horfði á hjónin Hustvedt/Auster um daginn í settinu hjá sjónvarpsmanninum Skavlan beið ég á nálum eftir því að Siri færi að ræða innviði móðurlífsins í sér og æðahnúta eiginmannsins. Hún gekk ekki alveg svo langt en þegar hún lýsti hjónabandi þeirra minnti það mig mjög, mjög mikið á lýsingarnar á hjónabandi Borisar og Míu.

En já, jæja, og hvernig er bókin? Mér finnst þetta ekki sérlega góð skáldsaga. Mía er að jafna sig og byggja upp sjálfsmynd án eiginmannsins og hún fer út á land, hugsar um líf sitt, veltir vöngum, setur hlutina niður fyrir sér og umgengst konur. Hún umgengst ungar stelpur á ljóðanámskeiðinu, unga móður sem er nágranni og gamlar konur, mömmu sína og vinkonur hennar. Og svo situr hún auðvitað uppi með sjálfa sig. Þarna eru sem sagt konur á öllum æviskeiðum. En bókin nær aldrei að verða „saga kvenna“ á einhvern svipaðan hátt og feminískar skáldsögur á borð við t.d. Praxis og Kvennaklósettið, til þess er persónusköpunin ekki nógu vel unnin og sagan ekki nógu áhugaverð. Og Mía og lesandinn eru nú aldeilis ekki laus við karlmenn. Boris er eins og draugur í sögunni, Mía á í einkennilegum tölvupóstsamskiptum við einhvern (karlmann?) sem hún veit ekki hver er og svo kallar hún til liðs við sig fjölda geðbilaðra skálda (á bls. 27 eru eitthvað um þrjátíu talin upp) flest eru þau karlkyns, fyrir utan þekkta vísinda- og fræðikarla sem stundum eru nefndir margir á einni síðu. Ég fletti hratt og pikkaði nokkur nöfn: Karl Jaspers, Kant, Merleu-Ponty, Husserl, Hegel, Hume, Theodore Roethke, William James, Frances Burton, Alan F. Dixon, Kierkegaard, Aristóteles, Renaldus Kólumbus, Gabriel Fallopius, Gould, Lewontin, Montaigne, Edward O. Wilson, Thomas Laqueur, Paul-Victor de Sèze, George Béard, Edward Clarke, Robert Bennet Bean, Dr. Renato Sabbatini, Bishop, Walsten, Winnicott, Vygosky, Freud, Plátus og Derrida ...

Mía hefur á köflum skemmtilega kaldhæðna sýn á sjálfa sig og bókin á þokkalega spretti, stundum fyndna og fallega. Mér finnst Siri Hustvedt líka alveg mega eiga það að hún kann að enda söguna trúverðuglega svo ég lokaði henni ekki beint ósátt. En að flestu leyti er þetta klisjukennd skáldsaga sem skortir áhugaverða dýpt.

Engin ummæli: