25. september 2013

Glaðasta þjóð í heimi?

Ég kaupi oft bækur á hinni ágætu vefverslun Amazon. Raunar nota ég síðuna mjög mikið til að kaupa ýmislegt annað en bækur - allt frá möndlum til sturtuhengja. Það er tímafrekt og streituvaldandi að fara í verslunarferðir og því kærkomin lausn að nota netið til að sinna brýnustu erindum. Tæpum 48 klukkustundum eftir að ég legg inn pöntun hringir dyrabjallan og þar stendur afskaplega elskulegur maður í khakibuxum með derhúfu og pakkann minn í fanginu. Aldrei hefur borið skugga á samband mitt við vefverslunina risavöxnu – ef frá er talið atvikið um daginn þegar ég keypti tæpt kíló af gæðasúkkulaði sem var í fljótandi formi þegar það skilaði sér á tröppurnar hjá mér. En það var reyndar 34 °C úti svo það var erfitt við að eiga.

Vinir mínir á Amazon eru farnir að þekkja mig sæmilega og stinga oft upp á að ég kaupi hitt og þetta. Þar sem ég keypti nú einu sinni íranska matreiðslubók hlýtur mér að geðjast að nýrri uppskriftabók frá Tyrklandi og þar fram eftir götunum. Stundum eru þessar tillögur alveg hreint ágætar og ég læt tilleiðast og lauma einni kilju í körfuna. Það var einmitt það sem ég gerði um daginn þegar ég keypti þá bók sem hér er til umfjöllunar. Bókin ber titilinn The Jungle Effect. The Healthiest Diets from around the World – why they work and how to make them work for you. Höfundurinn, Daphne Miller, er starfandi læknir í San Francisco og kennir einnig næringarfræði og almennar lyflækningar við University of California. Ég hugsaði að þetta gæti nú ábyggilega verið ágætis lesning fyrir mig – ég hef áhuga á heilsusamlegu mataræði og ég hef mjög oft gaman af ferðabókum. Uppleggið er semsagt það að höfundurinn ferðast um framandi slóðir – hún velur sér svæði þar sem tíðni ákveðinna sjúkdóma virðist vera óvenjulega lág miðað við það sem gerist og gengur. Hún spyr heimamenn út í lífshætti þeirra með það fyrir augum að við hin getum mögulega tileinkað okkur eitthvað af þessum góðu siðum og þar með orðið heilsuhraustari. Gott og vel – ég ýtti á „panta“ hnappinn og tveimur dögum síðar lá bókin á náttborðinu hjá mér.



Það sem ég vissi ekki þegar ég lagði inn pöntunina var að eitt af þeim fimm löndum sem Miller heimsækir í bókinni er Ísland. Ég gat vitanlega ekki beðið eftir að komast að því hvað væri eftirsóknarvert við íslenskt mataræði og að hvaða leyti við Íslendingar bærum af öðrum þjóðum. Svo ég renndi í flýti yfir formálann og fór svo beint í kaflann um Ísland. Ég varð eiginlega furðu lostin þegar ég sá í hvaða sjúkdómaflokki Miller telur að Íslendingum reiði vel af og séu þar öðrum til eftirbreytni. Jú, hún telur það vera þunglyndi! Nú hef ég svosem ekki rannsakað það sérstaklega en mér finnst reglulega berast fregnir af því að Íslendingar eigi met í þunglyndislyfjanotkun og að árstíðabundið þunglyndi sé hér töluvert. Ég minnist nýlegrar rannsóknar sem sýndi nokkuð sláandi niðurstöður um lyfjanotkun eldri borgara á hjúkrunarheimilum og voru þunglyndislyf þar nokkur stór partur. Sjá hér. Handahófskennt gúgl mitt leiddi í ljós að árið 2007 var notkun þunglyndislyfja mest á Íslandi af öllum OECD ríkjunum. Sjá hér og mig minnir að ég hafi heyrt frétt fyrir ekki svo löngu um að sjálfsvígstíðni karlamanna væri sérstaklega há á Íslandi og Finnlandi miðað við hin Norðurlöndin en ég finn reyndar ekki þá rannsókn. Í ljósi þessa var ég mjög undrandi á þessu vali Miller og nokkuð forvitin að sjá hana rökstyðja það. Til að byrja með þá segist hún sjálf hafa orðið mjög hissa að sjá rannsóknir sem sýndu ótvírætt að geðheilsa Íslendinga væri svo góð:

Needless to say, I was initially surprised to learn that Iceland was such a promising cold spot for depression. Was this not the land of permafrost, cataclysmic volcanoes, endless darkness in winter, and the unsettling midnight sun in summer? Was this not the land of sagas – tales full of murder, deceit, and mayhem? How could Icelanders help but being depressed? (bls. 133)

Daphne Miller
Gott og vel – hún hafði fyrirframgefnar (og afskaplega klisjukenndar) hugmyndir um að Íslendingar væru upp til hópa þunglyndir og beygðir undan veðrinu og sínum þunga menningararfi. En svo kveðst hún hafa lesið ýmsar rannsóknir sem bendi til hins gagnstæða. Í fljótu bragði sýnist mér höfundur aðeins vísa í tvær rannsóknir sem fjalla sérstaklega um Íslendinga og þunglyndi 1 og 2. (Miller notar engar neðanmálsgreinar og setur bara allar heimildir fyrir hvern kafla í einn flokk aftast svo það er ekki alltaf gott að sjá í hvaða rannsókn hún er að vísa). Ég las aðra rannsóknina sem hún ræðir aðeins í megintextanum en hún fjallar eingöngu um þunglyndi í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldri og gögnin sem hún byggir á eru frekar gömul eða allt frá árinu 1983. Í samanburðarhópunum var seinni heimstyrjöldin líka talin geta haft afdrifaríkar afleiðingar á geðheilsu einstaklinga, enda flestir hóparnir búsettir í borgum í Evrópu sem margar hverjar urðu illa úti í stríðinu. Það fór að hvarfla að mér að höfundur hafi hreinlega lagt upp með aðra skilgreiningu á þunglyndi en hina klínísku – enda hef ég oft heyrt að Ísland skori mjög hátt í ýmsum könnunum þegar kemur að því að finna „hamingjusömustu þjóð í heimi“ og mér sýnist að það geti hreinlega verið það sem hún er að vinna með eða eins og hún segir sjálf:

There are a number of articles published in medical journals and popular magazines that speculate as to why Icelanders are generally so positive. Some propose that there is a cultural bias to the survey question and that an Icelander would never admit that he was depressed. [...] While bias is a possibility, most of the researchers whom I talked with assured me that the questionnaries are specifically design to overcome cultural differences. (bls. 133)

Hér notar hún hugtakið positive. Mér finnst þetta allt saman frekar ruglingslegt og ekki liggja ljóst fyrir hvernig hún hugsar þetta. En gott og vel – hún fer til Íslands og það er útaf fyrir sig ágætis skemmtilesning að fylgjast með samskiptum hennar við heimamenn. Dr. Jóhann Axelsson prófessor tók á móti Miller fyrsta daginn hennar í Reykjavík: „He embodies the word cherry. I would go so far as to say that the is the poster child for depression-free Iceland,“ segir Miller um Jóhann og þau fara ásamt eiginkonu hans út að borða á veitingastað í miðbænum þar sem Miller pantar sér þorsk og borðar með bestu lyst meðan Jóhann segir henni frá rannsóknum sínum á þunglyndi, erfðum og fæðuvali.

Þarna er ýmislegt ágætt, en mér finnst kaflinn fullur af undarlegum fullyrðingum og margt virðist byggt á mjög gömlum eða einfaldlega röngum upplýsingum. Bókin er reyndar fimm ára gömul og það kemur ekki fram hvenær Miller heimsótti Ísland en varla getur það verið fyrir mörgum áratugum síðan eins og manni sýnist stundum fullyrðingar hennar benda til. Á bls. 137 segir Miller t.d. „Ask an Icelander how often he eats fish in a week, and you get a blank stare. You might as well ask him how often he breathes. The answer is, “Too often to count.” Mér hefur heyrst að minnkandi fiskneysla hafi verið töluvert áhyggjuefni heima á Íslandi síðustu ár, ekki síst hjá ungu fólki og reglulega eru viðtöl um næringafræðinga þess efnis í fjölmiðlum. En það er engum blöðum um það að fletta að ýmsilegt í hinu hefðbundna, gamla íslenska mataræði stuðlar að góðri geðheilsu - ekki síst omega 3 fitusýrurnar sem við höfum í gegnum tíðina fengið úr lýsi og fiskafurðum. Lambakjötið er líka góð uppspretta þessar fitusýra því lömbin ganga jú úti og éta gras. Ég get þess í framhjáhlaupi að hér í Bandaríkjunum þarf maður að greiða „grass-fed“ kjöt afskaplega dýru verði og það telst mikil lúxusvara - enda er kjöt nær eingöngu alið á maís hér. Íslenska lambakjötið er því hollara að þessu leyti en margt annað kjöt. Hið sama má segja um mjólkina, íslenskar kýr eru aldar á heyi á veturna og grasi á sumrin þó þær fái ábyggilega korn líka án þess að ég þekki það til hlítar. Mjólkurvörur ættu því að vera nokkuð ríkar af omega 3. Hinsvegar skorti Íslendinga lengst af ferskmeti eins og Miller bendir réttilega á og það kemur henni á óvart hversu lítið grænmeti er borið fram með þeim mat sem hún fær á Íslandi:

Hrásalat
Eating my way around northern Iceland, I was struck by how few green foods were served at every meal. In my usual diet, I am used to having stewed greens, broccoli, or a big green salad with most dinners, and I was beginning to wonder why these healthy Icelanders did not eat more of these foods. When I asked a couple of locals about the notable lack of green veggies in their diet, they scoffed: “Oh those, they are not real food. They are just extras.” (bls. 146)

Þetta kannast ég reyndar vel við – grænmeti var í mesta lagi meðlæti í mínum uppvexti og ég var orðin vel fullorðin þegar ég snæddi mína fyrstu grænmetismáltíð. Undir lok Kalda stríðsins var úrvalið í Kaupfélaginu á Húsavík afskaplega fábreytt þegar kom að ávöxtum og grænmeti – það voru jú kartöflur, rófur og gulrætur. Tómatar, gúrkur og paprikur yfir sumarið. Ég er hreinlega ekki viss um að það hafi verið margt fleira á boðstólnum – jú hvítkál sem var oft keypt heima hjá mér, soðið og borið fram með kjötfarsbollum. Í mötuneytinu í skólanum mínum var stöku sinnum svokallað „hrásalat“ sem mér fannst alltaf afskaplega ólystugt. Þetta voru raspaðar rófur og gulrætur makaðar í einhverskonar sósu og stundum voru rúsínur út í. Dökkgrænt kál – spínat eða grænkál man ég ekki eftir að hafa borðað en ég man vel þegar afi minn keypti papriku í fyrsta sinn og þótti hann snuðaður þegar hann skar hana í sundur og komst að því að hún var galtóm að innan.

Miller heimsækir garðyrkjustöðina Hveravelli sem er nálægt mínum æskustöðvum og þar spjallar hún við fólk og liggur við yfirliði þegar hún fær að vita að þessi litla garðyrkjustöð sá þjóðinni fyrir um 1/8 af öllu hennar grænmeti  (þetta hefur nú líklega breyst eitthvað síðustu ár). Í lok kynningarinnar fær Miller að smakka tómat:

At the end of the tour, the greenhouse supervisor grabbed a tomato out of a crate and offered me a slice. To my dismay, it was pale pink, hard, and entirely flavorless. Certainly not the ruby red, juicy, sweet oranic fruit that I am lucky enough to get in late July in California. (bls. 146).

Já, Miller fannst íslenski tómaturinn úr gróðurhúsinu vondur. Ég lái henni það ekki, enda standast þeir engan samanburð við marga þá „heirloom“ tómata sem hægt er að kaupa á bændamörkuðum víða í Bandaríkjunum.
Það fór margt í taugarnar á mér í kaflanum – eitt af því var fullyrðing Miller um að flestir Íslendingar drekki svart te daglega eða eins og hún segir sjálf: „They love their English Breakfast og Earl Gray tea and are always boiling a pot.“ (bls. 148). Þetta fullyrði ég að er algjört kjaftæði. Ég þekki eina manneskju á Íslandi sem drekkur svart te að staðaldri í stað kaffis. Það sem angraði mig þó allra mest voru tilraunir Miller til þess að gefa uppskriftir að dæmigerðum íslenskum mat. Sú aumingja manneskja sem myndi gera tilraun til þess að elda upp úr þeim myndi lenda í miklum vandræðum og sitja uppi með hálfgert óæti leyfi ég mér að fullyrða. Tökum sem dæmi það sem hún kallar „Fish and Potato mash“ sem á líklega að vera sá ágæti réttur plokkfiskur. Í uppskriftinni er ekki bakaður upp jafningur með hveiti heldur fiski og kartöflum bara hrært saman við svolitla mjólk og smjör. Ljóst er að úr því verður ekki plokkfiskur heldur eitthvað annað.

Eins og ég sagði í upphafi þá fór ég beint í að lesa kaflann um Ísland. Hinir kaflarnir eru um Mexíkó, Krít, Kamerún og Japan. Eftir að hafa lesið íslenska kaflann þá langaði mig ekki til að lesa hina enda fannst mér hann ekki hvíla á traustum heimildum og vera fullur af rangfærslum. Bókin fær mjög góða dóma á amazon og sjálfur Michael Pollan lætur hafa eftir sér lofsamleg orð á bókakápunni og Andrew Weil, sem er mikið átorítet í heilsutengdum efnum í Bandaríkjunum, skrifar formála. Mér er skapi næst að halda að bókin þrífist á því að tiltölulega fáir þekkja matarmenningu þessara landa til hlítar (þó reyndar það ætti varla að gilda um Mexíkó og Japan) og því geti Miller sagt því næst allt sem henni dettur í hug.

Ég ætla að skila bókinni – vinir mínir á amazon taka nefnilega glaðir til baka varning sem hugnast manni ekki.

4 ummæli:

Hilma sagði...

Ég tek aftur það sem ég segi um íslenskar mjólkurvörur. Kunnugir segja mér að það sé liðin tíð að íslenskar kýr séu aldar á grasi og heyi - þær fá víst mest erfðabreytt korn að éta svo mjólkin er líklega bara mjög svipuð þeirri sem kemur úr bandarískum kúm.

Arngrímur Vídalín sagði...

Skemmtileg umfjöllun! Þetta þekkjum við líka úr norrænu fræðunum: ef það er kafli í bók um Ísland á miðöldum, þá lesum við hann fyrst og metum heimildargildi bókarinnar út frá því.

Nafnlaus sagði...

Sem slíkur netverslunarvinur, ertu þá ekki öflugur Amazon gagnrýnandi? Þú þarft að koma þessum ágæta pistli niður í 10-20 línur og líma við bókina á Amazon.

Sigríður Jónsdóttir sagði...

Kunningi þinn er greinilega ekki áreiðanleg heimild um íslenska nautgriparækt og mjólkurframleiðslu. Íslenskar kýr éta gras og hey sem aldrei fyrr, þær eru nefnilega grasbítar.