Fyrir síðustu jól kom út lítil bók eftir einn af fremstu höfundum þjóðarinnar, sem þó fór ekki hátt. Það er Bögglapóststofan eftir Braga Ólafsson, nóvella í ellefu þáttum sem sögumaður segir að hafi upphaflega verið ætluð fyrir svið en ekki sé líklegt að verði að leikriti sem stendur „því ég hef sjálfur sem höfundur fremur misjafna reynslu af leikhúsi“ (10).
Bögglapóststofan gerist í hádeginu einn októberdag árið 1982, á bögglapóststofunni sálugu í Tryggvagötu. Samstarfsfólkið Gústaf, Ágústa, Herbert og Aðalsteinn eru aðalpersónur leiksins, en einnig kemur við sögu heimspekingurinn og sjónvarpsstjarnan Jódís Ósk, viðskiptavinur póststofunnar. Yfirmaður starfsfólksins á bögglapóststofunni hefur brugðið sér í hádegismat á Naustinu. Á meðan hefur Aðalsteinn verið lokaður ofan í póstpoka í refsingarskyni fyrir óviðurkvæmilega hegðun við samstarfskonu sína um morguninn.
Stórir atburðir eiga sér ekki stað í sögunni þótt frásögnin sé á sinn hátt hröð; samræðum persónanna er lýst nákvæmlega, þær eru hlaðnar spennu og óútskýrðri merkingu og jafnvel í smæstu tilsvörum hefur lesandinn á tilfinningunni að meira búi undir. Gústaf og Herbert sérstaklega eru eftirminnilegar persónur í hversdagslegum ógeðfelldleika sínum. Frásögnin er hlaðin kunnuglegum húmor. Þetta er semsagt mjög Braga Ólafssonarleg bók, sem aðdáendur hans væru ekki sviknir af.
Enn sem komið er hafa hins vegar fáir aðdáendur Braga aðgang að bókinni - sem er kannski ekki einu sinni bók, heldur markpóstur. Hún var allavega tilnefnd sem slík til Íslensku auglýsingaverðlaunanna í flokknum „Bein markaðssetning“. Það er líka vafaatriði hvort hægt sé að tala um útgáfu í tilviki Bögglapóststofunnar því hún finnst ekki í gagnagrunni bókasafnanna og því virðist skilaskyldu til Landsbókasafns ekki hafa verið sinnt. Það er fjármálafyrirtækið GAMMA sem prentaði Bögglapóststofuna í 300 tölusettum eintökum „nákvæmlega fyrir viðskiptavini GAMMA og enga aðra“, til þess að þakka þeim fyrir samstarfið á liðnu ári. GAMMA hyggur á frekari landvinninga á þessu sviði því Bögglapóststofan er fyrsta verkið í fyrirhugaðri ritröð, en hönnunin minnir óneitanlega á aðra ritröð sem komið hefur út um árabil.
Druslubækur og doðrantar eru ekki svo stórtækar í fjármálalífinu að þær teljist til viðskiptavina GAMMA. Við komumst þó um tíma yfir eintak af Bögglapóststofunni (enda margar okkar slíkir aðdáendur Braga Ólafssonar að við megum ekki til þess hugsa að hafa ekki kynnt okkur allt höfundarverk hans) gegnum sambönd okkar í undirheimunum, þar sem hún gengur manna á milli. Í Sovétríkjunum, sem eins og bögglapóststofan í Tryggvagötu eru liðin undir lok og koma nokkuð við sögu í Bögglapóststofunni, var slík neðanjarðardreifing á efni sem ekki átti að vera í almannahöndum kölluð samizdat. Það er ánægjulegt að geta lagt okkar af mörkum til hins íslenska samizdat anno 2015.