9. nóvember 2015

Paradísarmissir í Breiðholtinu - um ævisögu Mikaels Torfasonar

Bókaforlagið Sögur gaf nú nýverið út Týnd í paradís eftir Mikael Torfason. Á kápu er gefið upp að Mikael segi hér sögu sína, foreldra sinna og forfeðra – en þetta er ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi orðsins (eins og fæstar ævisögur eru raunar núorðið).

Í grófum dráttum segir Mikael hér söguna af því þegar hann sem ungabarn og síðar ungur drengur lá ítrekað fyrir dauðanum á Landspítalanum vegna meðfædds sjúkdóms en mátti ekki þiggja blóðgjafir þar sem fjölskyldan var innvígð í Votta Jehóva og það stríðir gegn trúarsannfæringu þeirra að fá blóð. Hann lýsir baráttu foreldra sinna – og þá sérstaklega föður síns - gegn heilbrigðiskerfinu og útlistar þær þjáningar sem hann, barnið, mátti þola í kjölfar hverrar orrustu sem faðir hans sigraði. Nú væri höfundi (og um leið lesanda) í lófa lagið að afgreiða foreldra hans með einu pennastriki en hér er kafað dýpra en svo og bókin er ekki síður saga kornungra foreldra af brotnum eða fátækum heimilum, saga alþýðufólks sem aldrei hafði ástæðu til að treysta stofnunum. Síðast en ekki síst er þetta saga Votta Jehóva – bæði hér á landi og erlendis – og er sú saga ekki síður áhugaverð en persónuleg fjölskyldusaga Mikaels.


Varðturninn kemur reglulega út á
mörgum tungumálum
Eins og komið hefur fram í viðtölum við Víðsjá og Kiljuna vann Mikael bókina eins og blaðamaður. Hann tók ógrynni af viðtölum – við foreldra sína, við lækninn sem barðist við föður hans, við ættmenni og kunningja og jafnvel við manninn sem kynnti föður hans fyrir Vottunum á sínum tíma. Að sumu leyti helgast þessi vinnuaðferð af því að stóran hluta sögunnar er höfundurinn ýmist ófæddur eða ungabarn og því ekki til frásagnar sjálfur en ekki síður hafði hann áhuga á að reyna að sjá atburðina frá sjónarhorni foreldranna. Þetta gefst vel og stækkar og dýpkar án nokkurs vafa frásögnina.

Foreldrarnir eru bæði kornung og af alþýðuheimilum. Faðir hans elst upp í mikilli fátækt og brennir sig illa á menntakerfinu sem bregst honum. Hann verður byltingarsinni – fyrst kommúnisti – svo Vottur Jehóva. Móðirin elst upp á gríðarlegu drykkjuheimili þar sem faðirinn leggur heimilið og líf heimilismanna undir fíknina. Frá barnæsku virðist hún brotin og fylgir föðurnum (fyrst föður sínum, svo eiginmanni og loks Jehóva) í einu og öllu. Kirkjan bregst líka og í raun samfélagið allt – af hverju skyldi þetta unga fólk treysta kerfinu?

Mikael með foreldrum sínum í útgáfuhófi bókarinnar
Meðfram sögu foreldranna birtist mynd af íslensku samfélagi eftir miðbik síðustu aldar og sú mynd er athygliverð og hvetur lesandann til að hinkra aðeins með áfellisdómana. Mikael bendir á að ýmislegt sem virkar eins og mannvonska eða í besta falli heimska árið 2015 þótti alls ekki í frásögu færandi fyrir 1980 – samfélagið hefur breyst töluvert á sl. 30-40 árum og margt sem betur fer til batnaðar. Þannig var sú afstaða til kvenna, barna og samkynhneigðra sem bókin sýnir svo sannarlega ekki einkaeign Vottanna upp úr 1970.

En þrátt fyrir alla þessa varnagla er erfitt að dæma ekki að einhverju leyti foreldra Mikaels – sérstaklega föður hans sem virðist halda dauðahaldi í að drengurinn fái ekki blóðgjafir þótt trú hans sé tekin að dvína. Jafnvel þegar hann er lagstur í drykkju og framhjáhald – og þannig augljóslega búin að brjóta boðorð Vottanna – hvikar hann ekki frá sannfæringu sinni varðandi blóðgjafirnar. Það er eins og þetta hafi verið orðið persónulegt einvígi hans við læknastéttina og spítalann – nema það var ekki barist upp á líf og dauða hans sjálfs heldur sonar hans.

Það kemur enda skýrt fram bæði í bókinni og viðtölum að Mikael var foreldrum sínum lengi mjög reiður. En í dag er hann líka þakklátur – m.a. fyrir hversu vel þau tóku í ritun bókarinnar sem gengur þó augljóslega mjög nærri þeim. Þau drógu hvergi af svo hann gæti skrásett söguna. Í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni segir Mikael kannski mega kalla þetta markaleysi – en líka hispursleysi og undirstrikar hversu mikilvægt sé að einnig svona sögur – sögur af alþýðufólki – séu skráðar. Bókin er hins vegar tileinkuð Guðmundi Bjarnasyni lækni – þess sem barðist fyrir lífi Mikaels við föður hans og þannig kannski við Jehóva sjálfan.

Mikael er fróður um Varðturninn (rit Vottanna) og Biblíuna og setur boðanir hennar og bönn í samhengi við fortíð og nútíð. Hér verður óumflýjanlegur samanburður við söguna af Abraham og Ísak:

Ég átti mér líka leynda leiklistardrauma og hefði viljað fá tækifæri til að leika Ísak ungan á samkomu. Senuna þegar Jehóva Guð skipar Abraham að drepa þennan elskaða son. Það hefði passað vel enda var mín eigin reynsla jafnvel sterkari en Ísaks. Guð meinti náttúrulega ekkert með þessu og var bara að prófa hversu langt Abraham væri tilbúinn til að ganga. En pabbi var ekkert að grínast. Ef Drottinn Jehóva vildi vera viss um að allir sínir þjónar væru tilbúnir að drepa syni sína fyrir engar sakir skyldi Torfi Geirmundsson vera til í tuskið. (bls. 229)

Sá guð og sá Jesú sem barnið Mikael kynnist er ansi frábrugðinn þeim milda kærleiksbrag sem Kristur Þjóðkirkjunnar ber með sér í dag. Þó er Biblían sá brunnur sem í er sótt í báðum tilvikum – enda bregður manni eiginlega við þá tilvitnun sem bókin hefst á:

„Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. Ég er kominn að gjöra son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.“ Jesús frá Nasaret (Mt. 10;34-35)

Mikael er ekki hallur undir trúarbrögð – og lái honum hver sem vill. En samhengið sem hann setur Vottana og viðhorf þeirra í er á köflum óþægilegt því stundum er munurinn milli þessara „klikkuðu“ votta og allra hinna ekki jafn skýr og maður vildi.

Sú bygging verksins að láta fjölskyldusögu Mikaels sífellt kallast á við sögu Vottanna, bæði hér á landi og erlendis, virkar mjög vel. Hún hnikar þungamiðju frásagnarinnar aðeins til. Sagan af því hvernig foreldrar fórna næstum lífi sonar síns til að þóknast guði sem þau síðar misstu trúna á er svo yfirgengileg að hún verður lesandandum nánast ofviða. En þá koma til sögulegu kaflarnir – sem eru oft ansi fyndnir að auki. Þeir hefðu getað drepið málum á dreif – en gera það ekki. Annars vegar skapa þeir þakkláta fjarlægð og hins vegar nauðsynlega yfirsýn – setja atburðina í víðara samhengi sem gefur frásögninni gildi út fyrir sjálfa sig. Eins og í raun saga foreldra hans gerir líka – hún stækkar myndina og sýnir okkur að ekkert – hversu fáránlegt sem það virðist vera – verður til úr engu.

Textinn er hrár – sem er í sjálfu sér alls ekki galli – stíll Mikaels er ekki stíll höfundar sem liggur yfir setningum og fínpússar og í því felst líka styrkur hans. Í staðinn býr textinn yfir slagkrafti og ferskleika. En hér eru kaflarnir misvel skrifaðir – sumstaðar er mikil endurtekning sem virkar ekki eins og stílbragð heldur bara hálf hroðvirknislega. Meiri yfirlega hefði mögulega skilað skýrari og enn sterkari bók. Verkið er eins og áður sagði unnið upp úr viðtölum og kannski má að einhverju leyti skrifa endurtekningarnar á það þar sem frásagnir fólks hljóta oft að skarast - en það hefði þá þurft að vinna meira með þá hluta. En þegar best lætur nær frásögnin að vera hnitmiðuð og textinn svo beittur að hann sker nánast gegnum merg og bein.

Þegar upp er staðið er Týnd í paradís merkileg bók fyrir margar sakir – hún er ótrúleg heimild um ákveðinn tíma og ákveðnar aðstæður sem eru – hvort sem okkur líkar betur eða verr – hluti af Íslandssögunni. Ekki myrkum miðöldum – heldur nýliðinni sögu sem gerist á ekki exótískari stað en Laugaveginum og Breiðholti. Þetta er spennandi og kraftmikil frásögn sem dregur upp lygilegar en þó sannfærandi myndir úr lífi fólks af holdi og blóði. Í stuttu máli – helvíti mögnuð lesning.

Engin ummæli: