21. janúar 2016

Örvænting húsmóður í Ölpunum

Hausfrau, eftir Bandaríska skáldið og bókmenntaprófessorinn Jill Alexander Essbaum, kom nýlega út í íslenskri þýðingu Guðna Kolbeinssonar með titilinn Fram hjá. Þessi bók, sem kom út á frummálinu fyrir tæpu ári síðan, hefur greinilega slegið í gegn því leitarvélin segir mér að hún hafi verið þýdd á mörg tungumál, sé tilnefnd til Pen-verðlaunanna, það er búið að skrifa mjög mikið um hana og henni er gjarna líkt við Madame Bovary og Önnu Kareninu. Ég hef aldrei lesið síðarnefndu bókina og Madame Bovary las ég fyrir tuttugu og fimm árum og hafði lítið gaman af og gleymdi henni fljótt, svo ég er ekki dómbær um hvort umtalsverð líkindi eru til staðar. En aðalpersóna Hausfrau heitir að minnsta kosti Anna eins og persóna Tolstoys og hún er að drepast úr leiðindum eins og frú Bovary.

Anna er 37 ára gömul amerísk kona sem hefur búið í næstum áratug í smábænum Dietlikon í Sviss með Bruno, hálfblóðlausum eiginmanni og bankamanni, og börnunum þremur. Svissneskar lestir eru alltaf á áætlun, Alparnir gnæfa yfir og Önnu leiðist. Hún hefur ekkert lært í tungumálunum sem töluð eru á svæðinu og er vinalaus. Anna hefur haldið framhjá eiginmanninum með amerískum manni sem átti skamma dvöl í Sviss og hann er blóðfaðir yngsta barnsins, Polly Jean. Þegar hún byrjar á þýskunámskeiði finnur hún sér skoskan elskhuga og einnig heldur hún fram hjá með fjölskylduvini.Jill Alexander Essbaum
Anna er reiðarekstýpa, hún elskar karlmenn og elskar þá ekki, hún hefur áhuga á kynlífi en samtímis hefur hún engan áhuga á því, það vantar allt framtak og spúnk í hana nema þegar kemur að því að finna sér leynilega elskhuga. Anna gengur til geðlæknis sem er lærimey Jungs, en hún notfærir sér ekki meðferðina og ráð sálgreinandans, hún lýgur aðallega að doktornum eða segir hálfar sögur og svarar út í hött. Í bókinni eru kaflar um kynlíf, ástríður, vináttu, drauma (sem Anna segir sálgreinandanum), eld og tungumál. Þetta á að vera djúpt og greinandi en verður stundum þokukennt og endurtekningasamt og það að útskýra þjóðarsál þýskumælandi fólks með skírskotun í fallbeygingar og veikar og sterkar sagnir er ansi langsótt og óspennandi, að minnsta kosti fyrir fólk sem notar tungumál sem er fullt af fallbeygingum og misreglulegum sögnum. Stundum minnti þessi greiningaraðferð höfundarins mig á bók Lenu Andersson, Í leyfisleysi. En Lena Andersson gengur miklu lengra í að hafa greininguna á ástinni og samböndum fólks tæra og skýra. Reyndar er Ester, aðalpersónan í þeirri bók, mjög markviss í sínu lífi og veit hvað hún vill á meðan Anna er í ruglinu og ráfar um eins og vofa og veit lítið hvað hún er að spá, þannig séð endurspeglar textinn í Fram hjá persónu Önnu ágætlega. Anna og Ester eiga það líka sameiginlegt að lesendum er sjálfsagt fæstum beinlínis vel við þær, mig langaði að minnsta kosti stundum að hrista þær smávegis báðar tvær.

Þýðingin truflaði mig örlítið á þann hátt að hún er á máli sem mér fannst stundum „karllægt“, þ.e.a.s. sögumaður og Anna nota stundum orð (eða Anna hugsar orð) sem ég held að konur sem ég umgengst noti varla. Þetta gæti líka hugsanlega verið kynslóðabundin orðanotkun. Nú hef ég ekki skoðað bókina á frummálinu en ég stoppaði nokkrum sinnum við lesturinn og hugsaði með mér að svona tæki kvenfólk í mínum kreðsum ekki til orða. Þýðingin á titli bókarinnar truflar mig líka. Hún heitir Hausfrau í upphaflegri útgáfu á ensku og hún heitir líka Hausfrau á dönsku og sænsku og kannski öllum málum sem hún hefur verið þýdd á (ég fullyrði það samt ekki). Það er auðvitað lítil hefð fyrir því í íslensku að nota útlenska titla, ég man í svipinn bara eftir Norwegian Wood eftir Murakami, en ef ég hefði þýtt bókina hefði ég beðið um að titillinn yrði látinn standa. Þetta er auðvitað bara smekksatriði – eins og svo margt – og kannski hefði bók með titilinn Hausfrau ekki fallið íslenskum lesendum í geð

Einhvern tíma um miðja bók var ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fá leiða á sögunni (þrátt fyrir áhugverðar kynlífslýsingar) en þá tekur hún vendingu og verður í meira lagi dramatísk og hrollvekjandi. Það gerast skelfilegir atburðir og ljóst verður smám saman að Anna er á hraðferð til glötunar. Fram hjá var ekki hressandi lestur sem fyllti mig bjartsýni, en þetta er áhugaverð bók og ég verð hissa ef menntaskólanemar jafnt sem leshringir miðaldra kvenna hafa ekki margt um Önnu að segja.

Engin ummæli: