Sýnir færslur með efnisorðinu Karin Fossum. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Karin Fossum. Sýna allar færslur

11. júní 2010

Reyfarajúní ... glæpir í Skandinavíu

elsku_poona_fossumraudbrystingur0069
Fast á hæla reyfaramaí fylgir að sjálfsögðu reyfarajúní. Síðan skóla lauk um miðjan maí hef ég kastað frá mér í fússi nánast öllum bókum sem ekki innihalda alla vega eitt gróft morð – ég vil ekki sjá efnahagsbrot eða fíkniefnamisferli – morð skal það vera.

Ég hef fleygt mér skammlaust í faðm skandinavískra glæpahöfunda sem þýðir að sjálfsögðu að miklum tíma hefur verið eytt í félagsskap drykkfelldra, þunglyndra lögreglumanna sem ekki spila alltaf eftir leikreglunum og eru undantekningalítið upp á kant við yfirboðara sína.

Í maí lokaði ég með söknuði Stieg Larsson hringnum þegar ég las loksins síðustu bókina í Millennium séríunni – ég sá nú meira eftir Lisbet Salander en Michael Blomkvist en ég er varla sú eina sem þreyttist örlítið á yfirgengilegri kvenhylli hans – látum vera að þær svæfu allar hjá honum  - en að hver ein og einasta yrði líka ástfangin af honum fannst mér orðið dáldið vandræðalegt. Þegar þessi aríska útgáfa af Grace Jones úr öryggislögreglunni horfði á hann sofandi með tárvotum augum áður en hún fór í ræktina að beygja stál með berum höndum var mér eiginlega allri lokið. En samt...leiðinlegt að vera búin með þessar bækur – Salander er stórskemmtileg og sagan hörkuspennandi!

Á eftir Larsson kom Karin Fossum með Elsku Poona – afskaplega niðurdrepandi samfélagsádeila þar sem ég gat ómögulega ákveðið mig hvort væri skuggalegra – rasisminn eða kvenhatrið í þessum huggulega smábæ í Noregi. Þrátt fyrir þunglyndið var hún þó ekki gersneydd húmor og endirinn skemmtilega/óþægilega opinn.

Rasisminn og kvenhatrið halda svo áfram að blómstra í Rauðbrystingi Jo Nesbö og fullkomnast næstum í framhaldinu Nemesis. Þar er lögreglumaðurinn Harry Hole ekki bara drykkfelldur heldur blússandi alkóhólisti sem getur ekki einu sinni verið viss um að hafa ekki framið morð í blakkáti. Þorgerður sagði réttilega að plottið væri hin sterka hlið Nemesis og það sama á við um Rauðbrystinginn sem er brjálæðislega spennandi. Hins vegar varð ég næstum jafn æst yfir öllum innsláttarvillunum sem eru ekki eins mikil meðmæli – útgefendur: PRÓFARKALESA – ég bið ykkur á hnjánum! Þriðja bókin um Harry Hole er ekki væntanleg fyrr en 2011 svo ég sprakk á limminu og keypti fjórðu bókina á ensku – þriðja var ekki til. Nú er bara að vona að þessi uppstokkun eyðileggi ekki undirliggjandi auka atburðarás sem virðist ætla að halda áfram út í gegnum bækurnar...

Það er ófögur mynd sem Larsson, Fossum og Nesbö draga upp af skandinavísku samfélagi – en þó birtist vonin alltaf í formi þunglyndra og alkóhólíseraðra lögreglumanna (og stöku kvenna) sem þrátt fyrir allt eru prinsipp fólk sem leggur allt í sölurnar til þess að eitthvað réttlæti megi ná fram að ganga.

Maríanna Clara