Þessi umræða tengist spurningu sem hefur verið mér hugleikin síðustu misserin; hvort persónuleiki eða skoðanir höfunda hafi, eigi að hafa eða eigi ekki að hafa áhrif á viðbrögð manns við verkum þeirra. Það er að segja, hvort hið ytra skarist við verkið sjálft. Hvort heimurinn sem er skapaður í bók geti staðið einn og sjálfur eða hvort maður lesi alltaf í stærra samhengi. Er maður að kvitta undir skoðanir sem manni þykja ógeðfelldar ef maður kaupir, les og jafnvel nýtur bóka eftir fólk sem vafasöm viðhorf? Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu líka við um annað listafólk, kvikmyndagerðarfólk (barnanauðgarinn Roman Polanski kemur strax upp í hugann), tónlistarmenn og svo framvegis.
Stundum fæla yfirlýsingar rithöfunda mann frá bókum sem maður hefur ekki lesið. Mig til dæmis langar ekki að lesa neitt eftir enska höfundinn Martin Amis því ég hef aldrei lesið svo mikið sem hálfa grein eftir hann eða viðtal við manninn án þess að langa til að sparka í vegg. Ég get ekki ímyndað mér að maður sem hefur jafnhaturs- og hrokafullar skoðanir um alla aðra en hvíta forréttindakarlmenn geti haft neitt sniðugt eða merkilegt að segja mér um mannfólkið, hvort sem það er uppskáldað eður ei. En ég hafði heldur aldrei lesið neitt eftir hann þegar ég komst að því hvað mér þykir hann hroðalegur - hvernig hefði mér liðið ef bækurnar hans hefðu verið í uppáhaldi hjá mér?
Það er nefnilega aðeins flóknara með höfunda sem maður heldur þegar upp á.