Fólk sem býr í heilsueflandi sveitarfélagi
þar sem börnin eru með eplakinnar,
morgunfrúr blómstra í kerjum
og bæjarskáldið skokkar á göngustíg,
fær stundum tómleikatilfinningu
og langar að stíga svo þungt til jarðar
að gangstéttarhellur molni.
Druslubækur og doðrantar seilast ekki langt yfir skammt í ljóðskáldaviðtali vikunnar: viðmælandinn er okkar eigin Þórdís Gísladóttir. Hún gaf út sína þriðju ljóðabók, Tilfinningarök, síðastliðið haust, en áður hafa komið út eftir hana ljóðabækurnar Leyndarmál annarra (2010) og Velúr (2014). Viðtalið hefst á broti úr síðasta hluta nýjustu bókarinnar, ljóðinu Til huggunar.
Hæ, Þórdís, velkomin í þetta hreinræktaða druslubókaviðtal!
Takk og hæ, er ekki næs hjá þér þarna undir Eyjafjöllum?
Jú, það er prýðilegt, takk. Búin með Reisubók séra Ólafs Egilssonar og Önnu á Stóru-Borg og byrjuð á Fjósakona fer út í heim (það hefur nú aldeilis verið týpa) – ætli það séu einhver ljóð úr sveitinni sem maður þarf að kanna?
Þorsteinn Erlingsson fæddist á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Þú þarft að lúslesa hann, já og raula „Fyrr var oft í koti kátt“ fyrir túristana sem koma til þín á safnið.
Já, við erum einmitt með Þorsteinsstofu hér á Skógasafni, og svakalega brjóstmynd af skáldinu, hann er eins og grískur guð nema stæltari og skeggjaðri. En að nýju bókinni, hinu eiginlega umfjöllunarefni viðtalsins. Mig langaði til að byrja að spyrja þig hvaðan titillinn kemur – Tilfinningarök?
Tilfinningarök er hugtak sem er búið að hringla í hausnum á mér mjög lengi. Ég held að ég hafi kynnst því í kjallaragrein eftir Vilmund Gylfason og þar kom íslensk landbúnaðarstefna við sögu. Orðið tilfinningarök er örugglega mjög ungt, á timarit.is finnast bara örfá dæmi um það fram til 1980, það eru miklu fleiri og eldri dæmi um meinta andstæðu þess; skynsemisrök. Sumir slá gjarnan hugmyndir út af borðinu með því að segja að þær byggi á tilfinningarökum og ef manneskjan sem á smá sprett í Tilfinningarökum og geymir pökkuðu íþróttatöskuna undir rúmi færi í hugræna atferlismeðferð þá yrði henni mögulega leitt fyrir sjónir að hún væri með hugsanaskekkju sem byggir á tilfinningarökum og kennt að losa sig við þessa tilfinningu og töskuna með. En svo eru margir sem segja að tilfinningarök séu góð og gild rök og að ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningarökum séu ekki verri en hinar sem byggja á svokölluðum skynsemisrökum. Að nota Tilfinningarök sem titil á þessa bók má segja að sé leikur við lesandann og um leið vísun í sögupersónur bókarinnar. Svo má alveg leika sér með orðið, við verðum mörg rök þegar tilfinningar eru í spilinu ...