28. ágúst 2011

Bókabúðablæti II: ennþá í Berlín

Ég má til með að bæta við fyrri færslu mína um góðar bókabúðir í Berlín eftir að hafa farið í búðina Another Country í fyrsta sinn núna í vikunni. Það er bókabúð, bókasafn og samkomustaður (quiz, vídjókvöld o.fl. reglulega í boði) sem bókhneigðir Berlínarbúar (nú eða ferðamenn) ættu endilega að tékka á.


Ef við hugsum aðeins um bókabúðir eins og fólk, má segja að Another Country sé drykkfellda, kjaftfora og óskipulagða systir St. George's bókabúðarinnar í Prenzlauerberg (henni myndi eflaust finnast bróðir sinn ógeðslega heterónormatífur og smáborgaralegur eitthvað). Búðin er á Riemannstrasse í Kreuzberg, hún er á tveimur hæðum og fremur kaótísk, þannig að það er best að kíkja við þegar maður hefur nógan tíma. Þetta er fyrsta bókabúðin sem ég kem í sem hefur bjór og rauðvín til sölu. (Svo er líka hægt að fá óáfenga drykki, þeir eru á neðri hæðinni. Það er mjög skrítin lykt á neðri hæðinni).


Drykkir eru ódýrir og það er nóg af stólum í boði, þannig að þetta er afskaplega hentugur staður til að slaka á og lesa. Þarna eru mjög margar bækur sem maður hefur ekki heyrt um áður, en þegar maður rekst á þekkt bókmenntaverk er gjarnan miði inni í því sem á stendur að maður megi bara fá það að láni. Á neðri hæðinni eru eiginlega bara fantasíu- og vísindaskáldsögur (ég hef ekki séð svo mikið úrval í öðrum sambærilegum búðum í Berlín - það er þó heil búð helguð slíkum bókum stutt frá, á Bergmannstrasse).


Sumstaðar er bókunum raðað fremur tilviljunarkennt eða samkvæmt sannfæringum bókabúðareiganda. Uppáhaldshillan mín hefur að geyma bækur sem eru flokkaðar „illar“ - en þar má til dæmis finna eintak af Men are from Mars, Women are from Venus og bækur um það að fólk geti ekki orðið hamingjusamt nema það setji sér markmið í lífinu. Mikið fannst mér gaman að sjá svona bækur rétt flokkaðar.

5 ummæli:

Fraülein Nannie Foucault sagði...

jiiii...hvernig fór maður að því að missa af þessari í Berlín!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ættum við ekki að stofna bókabúð í þessum anda í Reykjavík?

Erna Erlingsdóttir sagði...

Vá, hvað mér líst vel á þennan stað. Hillan með "illu bókunum" er unaðsleg hugmynd!

Hildur Knútsdóttir sagði...

Oh ég elska þessa búð og ég var alltaf í henni þegar ég bjó í Berlín! Ég held breski karlinn sem á hana (og er alltaf þarna sjálfur að vinna) eldi einusinni í mánuði kvöldmat handa hverjum sem vill koma í mat. Ég naga mig ennþá í handarbökin yfir því að hafa aldrei farið og borðað hjá honum. (Kannski var það samt afþví hann virkaði ekkert með neitt rosa hreinar hendur)

Kristín Svava sagði...

Oh geðveikt! Við skulum klárlega stofna svona í Reykjavík!