9. ágúst 2011

Erum við öll vond?


Mannvonska, illmennska, ofbeldi og voðaverk taka engan enda og eru því endalaus umræðuefni. Anders Breivik, Josef Fritzl, Hitler, Priklopil, Dutroux, strákarnir í Columbine, Ted Bundy … um þessa menn verða skrifaðar bækur og gerðar bíómyndir á meðan heimurinn verður til og fleiri eiga eftir að bætast við. Mannvonsk
u segja flestir óskiljanlega en hvers vegna eru glæpir og illmennska þá svona stór vandamál?

Svo virðist vera að flestir séu færir um að fremja óhæfuverk, svokallað venjulegt fólk sem enginn hefur verið vondur við á það til undir ákveðnum kringumstæðum, eins og dæmin sanna, að fremja skelfilega glæpi. Það er ekki endilega auðvelt að skilgreina mannvonsku en í bókinni En liten bok om ondska, sem kom út í fyrra, reynir Ann Heberlein að gera það. Þrátt fyrir heitið er bókin ekkert sérlega lítil, hún er um 300 blaðsíður og fæti drepið niður mjög víða, mörg dæmi tínd til og lagt út af þeim á ýmsa vegu.


Ann Heberlein, sem er með doktorspróf í siðfræði og guðfræði og starfar við háskólann í Lundi, kallar til liðs við sig fjölda fræðimanna, t.d. Kant, Nietzsche, Hönnuh Arendt, Elisabeth Anscombe, Bauman og marga fleiri og notar skáldsögur, allt frá Dostojevskí til Stiegs Larsson, til að reyna að komast til botns í illskunni. Spurningar Heberlein eru margar: Eru til vondar manneskjur eða eru bara illvirkin sjálf vond? Getur vont fólk valið að vera gott eða er það beinlínis vont í eðli sínu? Ef svo er, ber það þá ábyrgð á gerðum sínum eða er það veikt? Eru til vond börn og eru karlar verri en konur? Erum við kannski öll vond? Hún vísar í klassískar rannsóknir á borð við þær sem Stanley Milgram gerði, þar sem venjulegir stúdentar voru reiðubúnir að gefa fólki raflost, og fangelsisrannsókn Philips Zimbardos, þar sem stúdentum var skipt upp í fanga og fangaverði, en þá rannsókn þurfti að stöðva eftir örfáa daga vegna þess að þeir sem léku fangaverðina umhverfðust í sadista.

Ofantaldar, og fleiri sálfræðirannsóknir, sýna að flestir virðast færir um að gera öðrum illt undir ákveðnum kringumstæðum. Í þessu samhengi vitnar Heberlein í norska afbrotafræðinginn Nils Christie sem skrifaði um fangaverði í útrýmingarbúðum nasista og sagði: „Þeir voru eins og við. Og við hefðum komið fram eins og þeir.“ Skýringuna á þessu segir Heberlein að sé að finna í því að menn fylgja yfirvaldinu, laga sig að ríkjandi viðhorfum, eru hreinlega hræddir, sýna heigulshátt og mótmæla ekki. Þannig getur rétt og rangt bjagast illilega við vissar aðstæður. En þetta segir náttúrlega ekki allt, hver sem er verður ekki fjöldamorðingi og hver sem er gæti ekki orðið eins og Priklopil og læst stúlku ofan í kjallara árum saman. Þegar kemur að svona „einstaklingsillsku“ eða sadisma (eða hvað þetta nú er) þá er Heberlein dálítið vaklandi sem von er. Illmennska er oft skýrð með því að einstaklingur hafi átt erfiða æsku, verið lagður í einelti, beittur ofbeldi o.s.frv. og slíkar skýringar geta átt við en samt er hæpið að segja að fólk beri ekki ábyrgð á gerðum sínum. Hún ræðir glæpasögur Sjöwall og Wahlöö og Hennings Mankells, þar sem glæpamaðurinn er oftast fórnarlamb slæmra félagslegra aðstæðna og hnykkt á að samfélagið ber ábyrgð, en hún gagnrýnir þessar skýringar þó að hún mótmæli þeim ekki beint; suma sadista hefur enginn verið vondur við og margir hafa búið við skelfilegar aðstæður án þess að verða hefnigjörn illmenni eða siðblindingjar. Félagslegt umhverfi getur tæpast skýrt hvers vegna Jósef Fritzl lokaði dóttur sína inni í 24 ár og kom fram við hana eins og við höfum öll heyrt af. Hegðun svoleiðis illmenna er gjarna skýrð með psykópatíu og sósíópatíu en svoleiðis merkimiðar eru alltaf umdeilanlegir.

Í En liten bok om ondska er bent á mismunandi viðhorf og fjölmiðlaumræðu milli landa. Annika Östberg er sænsk kona sem nýlega slapp úr áratugalangri fangelsisvist í Bandaríkjunum þar sem hún var meðsek um tvö morð. Í Svíþjóð var hún gerð að algjöru fórnarlambi, bæði í fjölmiðlum og bók sem skrifuð var um hana. Hún flutti sem barn að aldri til Bandaríkjanna, mamma hennar giftist manni með fullkomnunaráráttu, Annika laðaðist að illmennum, lenti í dópi og vændi og tók að lokum þátt í ráni með kærastanum sínum þar sem tveir menn voru skotnir. Barist var fyrir því að fá Anniku lausa svo hún gæti flutt til Svíþjóðar, hún er fórnarlamb, góð kona sem lenti í ógæfu. Heberlein bendir hins vegar á að Annika hafi verið með langa sakaskrá áður en hún hlóð byssu morðingjans og að varla hafi verið minnst á það í Svíþjóð að annar mannanna sem var drepinn hafi átt tvö lítil börn, en hins vegar er gjarna minnst á son Anniku í tengslum við hennar ógæfu. Í Bandaríkjunum var hins vegar mikið fjallað um fjölskyldur hinna myrtu og hvað það fólk hefði mátt þola.

Heberlein ræðir líka töluvert um stríð og stríðshegðun. Hannah Arendt lýsti réttarhöldunum yfir Adolf Eichmann og sagði hann, manninn sem var einn af hugsuðunum að baki fjöldamorðunum, þannig að hann hafi í raun verið hugmyndasnauð skrifstofublók. Slavenka Drakulic sem fylgdist með stríðsglæparéttarhöldunum í Haag eftir stríðin í fyrrum Júgóslavíu komst að svipaðri niðurstöðu um þá sem þar var réttað yfir, hún sagði að þeir væru ekki svokölluð mannleg skrímsli.

Af þessum og fleiri dæmum eru líkur leiddar að því að allir – eða allavega mjög margir – séu færir um að fremja voðaverk þó að ekki sé hægt að skilgreina allt fólk sem vont. Það er erfitt að stöðva hreinræktaða sadista sem eru einir í sínu horni og ekki endilega fyrirsjáanlegir en hins vegar má berjast gegn ákveðinni hugmyndafræði, það sést að sagan endurtekur sig og þar kemur bókin inn á mjög aktúellt mál, það þarf nefnilega að andæfa markvisst mönnum sem deila skoðunum með Anders Breivik (þeir skrifa t.d. nokkrir á Moggabloggið) því þeir eru hættulegir.

Þó að Ann Heberlein segi þegar í upphafi bókar að hún sé sammála Zygmunt Bauman um að það sé ekki hægt að svara spurningunni „hvað er hið illa?“ þá kemst hún að niðurstöðu sem má segja að sé tvíþætt. Annars vegar tekur hún undir með Philip Zimbardo sem talar um „vond kerfi“ en líkt og Hannah Arendt benti á þá er hættulegt að hlýða í blindni eða láta eitthvert yfirvald hafa skoðanir fyrir sig. Manneskja sem bara hlýðir skipunum að ofan hættir að vera manneskja. Gagnrýni og sjálfstæð hugsun er grundvallaratriði. Hins vegar álítur Ann Heberlein að þær gjörðir sem orsakast af mannvonsku eigi sér rætur í ójöfnuði sem aftur orsakar ótta, angist og vonleysi. Það mætti skrifa mun meira og betur um þessa bók en ég enda þetta á lauslega snaraðri klausu úr lokakafla bókarinnar:

„Fjöldi rannsókna sýnir að sterkt og ákveðið samband er á milli ójafnaðar og ofbeldis. Á ólíkum tímum og í mismunandi umhverfi er sambandið jafn greinilegt: Þegar ójöfnuðurinn minnkar þá minnkar líka ofbeldið. Hvers vegna? Vegna þess að ójöfnuður elur af sér skömm og örvæntingu. Því að ójöfnuður veldur þeirri tilfinningu að sumt fólk sé óæðra og menn finna fyrir hefndarþörf. Því að ójöfnuður leiðir til þess að samfélagið verður lagskipt, samfélag ólíkra hópa sem standa hver gegn öðrum, hópa sem líta á hvern annan frá sjónarhorni sem oft er kallað „við og þeir“. Ójöfnuður veldur vantrausti í samfélaginu og hann veldur ótta sem gerir fólk að auðveldum fórnarlömbum fjandsamlegrar og hættulegrar hugmyndafræði, ofstækis og einföldunar.“ (bls. 293)

4 ummæli:

guðrún elsa sagði...

Hljómar eins og mjög áhugaverð bók! Hefur hún verið þýdd á ensku?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Nú veit ég ekki en efast um það. Hún kom bara út fyrir ári síðan.

Kristín í París sagði...

Mjög áhugaverðar pælingar. Vaxandi glæpatíðni undanfarin ár á Íslandi (er það ekki annars staðreynd? Alla vega eru allir farnir að læsa bæði húsum og bílum og voða mikið verið að stela úr sumarbústöðum og svona, skilst mér) er sumsé kannski frekar afleiðing af vaxandi ójöfnuði heldur en fjölgun nýbúa eins og svo margir vilja halda? Og ein athugasemd: Illi Belginn heitir Dutroux.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Glæpum held ég að fækki, ef marka má fréttir :) Búin að laga Belgann!