Það var svo ekki fyrr en þessi fremur sérkennilegi bókmenntasmekkur makans, margþekkt sjálfhverfni mín og eitthvað sem ég get ekki skilgreint sem neitt annað en „serendipity“ fundu sinn skurðpunkt að ég tók til við lestur á þessari bestu íslensku æfisögu allra tíma.
Þannig var, að eftir að hafa búið í Malawi í tvö ár og þar af leiðandi pakkað niður flestum vorum veraldlegum eigum fluttum við heim aftur og vorum þá þegar komin á fullt í hið séríslenska áhugamál að byggja hús í úthverfi. Vorum þessvegna á hálfgerðum „vergangi“ amk bóka- og hlutalega séð í ein tvö ár í viðbót. Þegar loks kom að því að taka rykuga bókakassana til handagagns þurfti að sjálfsögðu að vesenast aðeins og skoða og velta fyrir sér hvernig ætti nú að raða þessu og svona. Í þannig gramsi dregur eiginmaðurinn uppúr einum kassanum þessa margnefndu æfisögu. Ég hugsa með mér, jæja, nú verður þetta ekki umflúið, ég verð að sýna þessu íslenska fornmenni einhvern smá áhuga. Tek upp bókina, opna hana tilviljunarkennt og glugga í hana.
Mér hafði auðvitað oft verið sagt það að um væri að ræða æfisögu Theódórs Friðrikssonar, Í verum. En hvorki nafnið eða titillinn hafði svosem hringt neinum bjöllum hjá mér. En sem ég stend þarna innanum alla kassana og bókastaflana og les blaðsíðuna sem hafði óvart opnast blasa við mér nöfn sem mér fannst ég kannast við. Þarna var Theódór sum sé kominn til Húsavíkur og bjó hjá föðursystur sinni Dórótheu Jónsdóttur. Hann minnist síðan á son hennar og frænda sinn Sigurpál og einhverja fleiri sem mér fannst einsog ég ætti að þekkja. Ég sá strax að þarna hlytu að vera einhverjar tengingar og þóttist næsta viss að þessi umrædda Dóróthea væri langalangalangamma mín, mamma langalangömmu minnar Sigfríðar, sem var fædd í Útibæ í Flatey á Skjálfanda 1879 og bjó þar allt sitt stutta líf, en hún dó úr berklum aðeins 22 ára frá eiginmanni og dóttur á öðru ári.
Eftir að hafa fullvissað mig um að ég hefði rétt fyrir mér með þessar tengingar var það auðvitað einsog við manninn mælt að æfisagan og baslarinn Theódór fengu á sig alveg nýjan svip. Sjálfhverfu fólki þykir jú fátt skemmtilegra en að lesa um sjálft sig, jafnvel „a few generations removed“!!
Framhald síðar;)
7 ummæli:
Ég bíð æsispennt eftir framhaldi!
Ég líka.
Æi, en sætt af ykkur að nenna að lesa meira sjálfhverft raus! Fer í framhaldið ...
Ég er sökker fyrir gömlum ævisögum.
Er ekki flest sem við allar skrifum meira og minna sjálfhverft raus? Það gildir alla vega um mig.
En þetta sjálfhverfa raus er alla vega skemmtilegt.
Það er líka mjög taktískt að vera með svona framhaldssögur. Heldur manni á tánum.
-Kristín Svava
Ég las einu sinni Hákarlalegur og hákarlamenn eftir hann Theodór. Það var undir súð og ég borðaði harðfisk á meðan. Ah, hvítir streit karlar í karlmennskubisness.
- Ingó
Skrifa ummæli