16. ágúst 2011

Vilja karlmenn helst lesa um morð og stríð?

Fyrir nokkrum dögum kannaði Erna kynjahlutföllin á vinasíðu Druslubóka og doðranta á facebook. Þá kom í ljós að 80% „vinanna“ eru konur. Það er spurning hvernig á að túlka kynjaslagsíðuna en vinirnir koma væntanlega flestir úr röðum okkar facebook-vina, við sem skrifum erum allar kvenkyns og kannski skrifum við frekar um bækur sem höfða til kvenna. Nema karlmenn almennt hafi hreinlega lítinn áhuga á bókmenntum eða að þeir nenni ekki að lesa það sem konur skrifa um bækur, hvað veit ég?

Í vefútgáfu Dagens nyheter er grein þar sem komið er inn á hvaða bækur höfði helst til karlmanna. Þar er fullyrt að karlmenn vilji helst lesa um glæpi, stríð og karla á framabraut. En í greininni kemur líka fram að karlmenn hafi miklu minni áhuga á bókmenntum en konur. Næstum fjórðungur sænskra karlmanna les aldrei bók og aðeins 28% þeirra líta í bók vikulega. Samkvæmt greininni eru sænsk forlög mjög meðvituð um bóklestraráhugaleysi karlmanna og þar af leiðandi leggja þau sig auðvitað frekar eftir að gefa út bækur sem eiga að höfða til kvenna. Undantekningar eru auðvitað á þessu, forlagið Ordfront er með einskonar karlaátak í gangi og ætlar í haust að gefa út bækur sem gert er ráð fyrir að karlmenn langi að lesa, bækurnar fjalla m.a. um fjöldamorðingjann Thomas Qvick, hermenn í Afghanistan og um karlakórinn Adonis. Fleiri sænsk forlög verða með titla sem eiga að lokka karlmenn að lestri, Norstedt gefur út bók um hryðjuverkaárásirnar 11. septeber 2001 og á sænskum bensínstöðvum (þar sem karlmenn kaupa gjarna bækur – ef þeir kaupa þær) leggja útgefendur sig eftir að hafa glæpasögur með karlmönnum í aðalhlutverki, bækur um mafíósa og bækur með sagnfræðilegu ívafi. Hér er krækja á greinina ef einhver vill forvitnast meira um þetta.

Ég hef oft heyrt fullyrt að íslenskar konur kaupi fleiri bækur og lesi miklu fleiri bækur en karlmenn (og trúi því svosem alveg) en mig blóðlangar að gera alvöru könnun á lestraráhuga og lestrarvenjum Íslendinga haustið 2011 og býð mig hér með fram ef einhver vill borga mér hóflega þóknun fyrir.

17 ummæli:

Finnbogi sagði...

Já, hvernig væri nú að koma til móts við okkur karlkyns lesendur síðunnar og fjalla um bækur eftir Sven Hassel og Alistair MacLean?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það er kannski tilraunarinnar virði að gera það og athuga hvort karlkynslesendafjöldi síðunnar rýkur upp?

Auður sagði...

Bókasafnsstarfsmaður sagði mér einu sinni að karlmenn tækju mikið Steinar Braga. Og teiknimyndasögur fyrir fullorðna. Ég þekki þó bæði karla sem eru alætur á bækur og karla sem lesa aldrei staf.

Nafnlaus sagði...

Ég get svo svarið að ég held að ég hafi bara skrifað bókablogg um bækur eftir karlmenn...

Og bækur um glæpi - ekki reyfara semsagt? Af því að þeir hafa nú verið ágætlega koveraðir hér, þótt það hafi kannski minnkað í seinni tíð...

-Kristín Svava

Erna Erlingsdóttir sagði...

Það vantar svo tilfinninganlega rannsóknir á lestrarvenjum fullorðinna Íslendinga, ég tuða reglulega yfir þessu.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Kannski maður fari að starta framhaldsseríu um bækur um seinni heimsstyrjöldina.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef nú skrifað um ævisögu Hitlers: http://bokvit.blogspot.com/2009/06/hinn-margumrddi-adolf.html

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já og það vantar alvöru rannsókn á lestrarvenjum, ég endurtek að ég skal gera hana ef kapítalistar eða forvitnir hugsjónamenn borga mér lágt kaup.

Elísabet sagði...

Við Guðmundur Kristmundsson rannsökuðum lestrarvenjur hér um árið og um það er til skýrsla: "Læsi fullorðinna, lesiðni og ritvenjur." Skal ég með glöðu geði gefa áhugasömum eintak:)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, ég heyrði einhverntíma af henni (og þigg eintak) og svo er líka til stór rannsókn á bók sem Ólafur Jónsson gerði á sínum tíma. En ég held að það vanti nýja rannsókn því tímarnir breytast svo ört.

Elísabet sagði...

Að sjálfsögðu þarf nýja rannsókn og ætla ég rétt að vona að einhver drífi í að vinna það þarfa verk! Þú færð eintak hjá mér þegar þú vilt (upplagt lesefni fyrir svefninn, sérstaklega ef þú átt erfitt með að sofna).

Erna Erlingsdóttir sagði...

Má ég líka fá eintak?

Elísabet sagði...

Audda!

Elísabet sagði...

Ef aðrir hafa áhuga má senda mér póst í betabaun@gmail.com

Nafnlaus sagði...

Það mætti líka gjarnan skrifa um þessa skýrslu hérna, ef þið farið að lesa þetta fyrir svefninn!

-Kristín Svava

Erna Erlingsdóttir sagði...

Var að reka augun í að ég hef skrifað "tilfinninganlega" hérna að ofan í staðinn fyrir "tilfinnanlega" og er við það að deyja úr skömm. En ég hlakka til að fá skýrsluna frá Betu og sæki um sem aðstoðarmaður Þórdísar í nýrri rannsókn ef styrktaraðilar finnast!

Garún sagði...

Þessi tölfræði um lestrarvenjur eftir kynjum rímar amk ekki við hlutföllin í Kiljunni. Þar er karlmaður þáttastjórnandi, og viðmælendur í miklum meirihluta karlar. Auk þess hef ég á tilfinningunni að höfundar sem fjallað er um séu líka í meirihluta karlar.

Áhugavert rannsóknarefni. Ég skal leggja í púkk fyrir laun rannsakanda :-)