13. október 2009

Snaran – tímalaus snilld

Sumar bækur eru þannig gerðar að þær gera nær alla lesendur æsta, fylla suma eldmóði en reita aðra til reiði. Ein þeirra er Snaran eftir Jakobínu Sigurðardóttur, sem kom fyrst út árið 1968, hefur verið ófáanleg um langt skeið en er nú nýkomin út í klassíska kiljuklúbbnum hjá Forlaginu.

Snaran er framtíðarsaga og birtist lesandanum sem önnur hliðin á samtali tveggja sópara í verksmiðju á 9. áratug 20. aldar, um tuttugu árum eftir ritunartíma bókarinnar. Þetta frásagnarform hefur verið kallað dramatískt eintal og er vel þekkt í ljóðlist og leikritun en mjög sjaldgæft er að heilar skáldsögur séu dramatísk eintöl frá upphafi til enda. Raunar þekki ég enga aðra slíka skáldsögu á íslensku og auglýsi hér með eftir ábendingum frá lesendum.

Mörgum finnst formið erfitt í lestri og Snörunni var örugglega aldrei ætlað að vera skemmtilesning því Jakobína sagði sjálf að hún vildi virkja lesendur og hafa áhrif á þá. Form sögunnar gerir hana í raun að einni stórri persónulýsingu. Sögumaðurinn segir oft eitt en meinar annað, lýgur vísvitandi, er orðljótur og réttlætir sjálfan sig og gerðir sínar í sífellu. Hann er bleyða sem metur peninga meira en hugsjónir og hagar seglum eftir vindi hverju sinni. Lesendur kynnast þessum bjána eins og þegar maður hlustar (óvart) á ókunnugan mann tala í símann í biðröð. Það eina sem byggir upp mynd okkar af þessum karakter er hvað hann segir og gerir þennan stutta tíma meðan samtalið varir – og ég held að fáir myndu vilja adda honum sem vini á Facebook. En af hverju í ósköpunum ætti höfundur að skrifa heila skáldsögu um svona óaðlaðandi persónu?

Svört samfélagsmynd sögunnar var gjarnan talin óraunsæishjal þegar bókin kom út. Nú 40 árum síðar sjáum við að auðvitað „rættist“ framtíðarspáin ekki í þeim skilningi að í bókinni sé raunsæ lýsing á íslensku samfélagi á 9. áratugnum en ef að er gáð má sjá ýmislegt áhugavert. Í Snörunni er straumur erlends vinnuafls inn í landið vandamál og þótt verkamenn frá Póllandi og Kína hafi komið í stað fagmenntaðra Þjóðverja sýnir grunnhugmyndin um að íslenskt samfélag þróist með þeim hraða að til að halda því gangandi þurfi að flytja inn erlent vinnuafl að Jakobína var ótrúlega sannspá. Ítök Bandaríkjamanna á Íslandi virðast mikil í samfélagi Snörunnar og Íslendingar eiga hvorki né reka fyrirtækið þar sem félagarnir vinna. Í þessari framtíðarsýn Jakobínu er útrás íslenskra bankamanna hvergi nærri en aftur á móti þarf ekki annað en nefna Alcoa og Alcan til að lesendur heyri bjöllur hringja.

Það sem gerir Snöruna þó tímalausa er sögumaðurinn sjálfur. Mannlýsingin er undirstaða ádeilunnar í sögunni, ekki samfélagslýsingin, Sögumaðurinn og skoðanir hans eru andstæðar Jakobínu og yfirlýstum (sumir myndu segja kommúnískum) skoðunum hennar sem birtast skýrt í greininni „Himnasendingar“ sem hún skrifaði í Þjóðviljann tveimur árum áður en Snaran kom út. Þar fjallar hún um ábyrgð hins almenna borgara á því sem fram fer í landinu og bendir á að ekki sé hægt að kenna stjórnvöldum um allt heldur verði hver einstaklingur að taka afstöðu til þess sem gerist í kringum hann. Sögumann Snörunnar skortir fyrst og fremst sjálfsvirðingu. Hann er hinn ábyrgðarlausi, almenni borgari sem Jakobína húðskammar í grein sinni, sá sem „hniprar sig saman eins og hræddur brekkusnigill og fullyrðir: Ég hef ekkert vit á þessum málum. Það eru víst bara kommúnistar, sem eru á móti þessu.“ Ég tel að ádeila Snörunnar felist fyrst og fremst í gagnrýni á þess konar hugsunarhátt og hegðun, ekki framtíðarspá eða and-kapítalískum áróðri.

Á þessi ádeila ekki við enn í dag? Getur ekki verið að í búsáhaldabyltingunni eftir bankahrunið haustið 2008 hafi sniglarnir loksins byrjað að skríða út úr skelinni? Og ef við lítum á aðra bresti sögumannsins, kannast ekki einhver við að hafa réttlætt gerðir sínar eða staðið sig að því að vera í mótsögn við sjálfan sig? Fussað og sveiað yfir siðlausum lögbrjótum og farið svo á netið og halað niður Fangavaktinni? Þess vegna held ég að Jakobína hafi skrifað heila bók um svona ömurlegan gaur – meðal annars til þess að lesendur kæmu auga á brestina í sjálfum sér. Einmitt vegna þess hve mannlýsingin í Snörunni er einstaklega vel unnin er bókin ekki bara framtíðarsaga eða ádeila sem á við ákveðinn sögulegan tíma heldur á hún alltaf við, ekki síst nú. Húrra fyrir endurútgefinni Snöru!

Ásta Kristín Benediktsdóttir

P.S. Áhugavert viðtal við Jakobínu birtist í Þjóðviljanum árið 1988.

9 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Jakobína er svo frábær höfundur og það var löngu orðið tímabært að endurútgefa bækurnar hennar. Vona bara að það verði haldið áfram, Lifandi vatnið mætti t.d. alveg koma næst.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Og svo ég haldi aðeins áfram: Ég varð ekkert smá pirruð þegar 4. og 5. bindið af Íslenskri bókmenntasögu kom út yfir því hvað Jakobína lenti á röngum stað í henni. Í staðinn fyrir að það væri fjallað um hana með öðrum módernískum (jafnvel póstmódernískum) höfundum 7. og 8. áratugarins eins og hefði verið réttast var hún í kafla um "unga, reiða fólkið" eftir seinni heimsstyrjöld.
Niðurskipan efnis í bókmenntasögubókunum er reyndar oft mjög furðuleg, höfundum virðist ansi oft raðað niður eftir því hvenær fyrsta bók þeirra kom út, ekki eftir því hvernig helstu verk þeirra eru og hvenær þau komu út.

Ásta Kristín sagði...

Íslensk bókmenntasaga I-V er einmitt ein af þeim bókum sem gera lesendur æsta :)

Erna Erlingsdóttir sagði...

Heldur betur! Og það er ekki alltaf jákvæður æsingur! Sérstaklega í IV-V.

Nafnlaus sagði...

Svo ég komi sjálfum mér og öðrum til varnar. Mikið af göllum BMM IV-V má rekja til þess að verkið varð til á löngum tíma. Ég var t.d. fenginn til að skrifa lokakaflann u.þ.b. áratug eftir að Matthías og Dagný voru búin með sína. Og ég hefði feginn viljað hafa Jakobínu með í mínum kafla.
En það er gott að bókmenntasagan "bringer sindene i kog".

Jón Yngvi

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þessu var nú ekki beint til þín, Jón Yngvi! Samt gaman að einhver skuli finna hjá sér hvöt til að bera af sér sakir! :)

Nafnlaus sagði...

Mér finnst líka pirrandi að það skuli ekki standa fyrir ofan kaflana hverjir sömdu þá. Það er bara hægt að sjá það fremst, sem er asnalegt.

George Gordon Noel, Lord Byron sagði...

Lifandi vatnið er eitt mesta snilldarverk sem skrifað hefur verið á íslenskri tungu.

Nafnlaus sagði...

Kæra Ásta
Þakka þér kærlega fyrir þennan pistil og að vekja athygli á hve frábær höfundur Jakobína var.
SigrStef