21. mars 2010

Minningar tökubarns

Michael Nyqvist er kannski þekktasti sænski leikarinn um þessar mundir, enda leikur hann aðalkarlhlutverkið í bíómyndunum sem gerðar eru eftir bókum Stiegs Larssons. Nýlega kom út eftir hann endurminningabók sem heitir När barnet lagt sig (Þegar barnið er farið að sofa). Þetta er ekki beinlínis hefðbundin endurminningabók, að minnsta kosti er hún langt frá því að líkjast þeirri tegund íslenskra ævisagna sem minna á löng blaðaviðtöl. Í stuttu máli hnitast bókin í kringum það hvernig hinn ættleiddi Michael leitar foreldra sinna og finnur þá að lokum. Upphaf þess að bókin var skrifuð má rekja til þess að höfundurinn gerði þátt í sumarspjallþáttaröðinni Sommar, í sænska útvarpinu, þar sem hann sagði frá reynslu sinni. Þátturinn fékk mikla athygli og úr varð bók.

Bókin, sem ekki er sérlega þykk, snerti ýmsar taugar hjá mér og saga Nyqvists er áhugaverð. Stíllinn minnir á leikstíl hans sjálfs, tónninn er einlægur og jafnvel dálítið barnslegur (þeir sem hafa séð myndina Grabben i graven bredvid fatta örugglega hvað ég á við). Hann lýsir æsku sinni með foreldrunum sem fengu hann á barnaheimili og skildu þegar hann var krakki. Honum er sagt að hann sé ættleiddur og að pabbi hans sé Ítali og hann fer að sjálfsögðu strax að ímynda sér allt mögulegt um líffræðilegu foreldrana. Ákveðin hvörf verða síðan þegar hann sjálfur eignast dóttur og fer að hugsa um að hún sé fyrsta manneskjan sem hann hittir sem er líffræðilega skyld sér (og auðvitað hugsar hann líka um hvað geti komið foreldri til að láta barnið sitt frá sér) og hann byrjar markvisst að leita foreldranna. Í lok bókar er aðalpersónan orðinn þekktur leikari sem hefur, eftir spennandi spæjaraleik, fundið foreldra sína og eignast fjölskyldu í Flórens.

Í bókinni segir Michael Nyqvist töluvert frá starfi sínu í leikhúsinu, lífið á fjölunum speglar á vissan hátt líf hans sjálfs. Þegar hann hittir mömmu sína í fyrsta skipti minnir það á senu í leikriti. Fundurinn með ítalska pabbanum er hins vegar eins og í ævintýrunum.

När barnet lagt sig er ágætisbók, ekki beint frumleg eða ögrandi, en sagan um hvernig Michael púslar saman sjálfsmynd sinni er spennandi og skemmtileg og kreistir örugglega fram nokkur tár hjá mörgum lesendum. Bókin er til á bókasafni Norræna hússins.

Þórdís

2 ummæli:

Þórunn Hrefna sagði...

Heyrðu hvar fæ ég Grabben-bíómyndina? Bókin er svo æðisleg!

Þórdís sagði...

Hún er (nema einhver hafi stolið henni eða skemmt hana) til í Norræna húsinu. Ansi skemmtileg mynd.