2. mars 2010

Þrýst á brennandi sár



I

Það er svo sem ekkert sem segir að maður þurfi að geta samsamað sig röddunum í bókmenntaverki persónulega til að kunna að meta það. Ýmislegt annað getur gert lesturinn að mikilli upplifun, tæknileg færni höfundarins, áhrifaríkar hugmyndir, grípandi saga... Samt held ég að það hafi kannski fleiri óviðbjargandi trúleysingjar en ég óttast það á liðnum árum að Ísak Harðarson væri kominn eitthvert sem við gætum ekki fylgt honum, það er að segja á upplýsta slóð trúarinnar – í stað reiðinnar og tilvistarangistarinnar væri komin sátt sem við gætum ekki fundið til með honum, jafnvel þótt færni hans í ljóðrænni tjáningu alls þessa væri enn til staðar.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvernig á þessu stendur – hefur það einfaldlega að gera með fyrri tengsl við ljóð Ísaks og væntingarnar sem fylgja? Er það viðkvæmni fyrir of sterku erindi eða mórölskum boðskap í bókmenntum? Staða trúarinnar sem slíkrar innan bókmennta og samfélags? (Ég harðneita að þetta megi skrifa á einhvers konar króníska póstmóderníska kaldhæðni mína sem lesanda, enga ódýra sálgreiningu hér, takk fyrir, en það mætti benda á bók Andra Snæs Magnasonar um trúna í ljóðum Ísaks Harðarsonar, Maður undir himni.) Þetta skiptir heldur ekki höfuðmáli, enda læknaði Rennur upp um nótt, nýja bókin hans Ísaks, mig af þessum áhyggjum: glíman heldur áfram þótt inn í hana sé kominn þáttur sem er manni meira framandi en aðrir.

II

Ég verð fyrst að koma því á framfæri að mér er uppsigað við kápuhönnun bókarinnar . Svona virðuleg málverk og glanspappír eiga að vera fyrir höfunda sem eru komnir í áskrift að tilnefningum til bókmenntaverðlaunanna og farnir að yrkja hlutfallslega mikið um kvöldgöngur í kirkjugörðum. Ísak er ekki kominn svona langan veg frá öfuga krossinum framan á Ræflatestamentinu.

Rennur upp um nótt er skipt í þrjá hluta, með stöku inngangsljóði fremst. Fyrsti hluti bókarinnar ber yfirskriftina Fyrirsjáanleg blinda, en hann einkenna annars vegar trúarleg ljóð og hins vegar sú gagnrýni eða jafnvel andúð á nútímanum, hræsni hans og efnishyggju, sem var fyrirferðarmikil í fyrstu bókum Ísaks. Kaflinn verður betri eftir því sem líður á hann og í honum er að finna mörg góð ljóð, en sumt er ég ekki alls kostar sátt við. Línan milli beittrar gagnrýni og heimsósómaröfls er fín og sums staðar finnst mér eins og dregið hafi úr slagkraftinum og gagnrýnin sé orðin vélræn: myndin af Halldóri Laxness að dásama Evrópusambandið í Smáralind (32) er óþægilega Moggabloggsleg og ég er skeptísk á línur á borð við „rafljómuð grafhýsi með ofurflatskjám / sem opinbera okkur, álhúðuðum múmíum, gervallan heiminn“ (15) – þetta er ekki illa orðað, en frekar auðvelt. Í gegnum tíðina hefur það ekki síst verið innblásinn leikur Ísaks með tungumálið sem ljær þessum ljóðum bitið, en leikurinn er minni hér en oft áður og endurtekningasamari: „í sjónvatninu“ hefði verið ásættanlegur snúningur í einu ljóði en þegar hann dúkkar upp í þremur er hann orðinn fremur hallærislegur.

Ég var dauðfegin því að sjónvarpið fékk að halda sínu rétta nafni í ljóðinu Eyðimarkaðurinn (25-26), sem mér finnst með þeim bestu í fyrsta hlutanum. Það er ryþmískt og reglulega uppbyggt, erindin þrjú hefjast hvert um sig á tilbrigði við sama stef. Slík bygging finnst mér yfirleitt heppnast mjög vel hjá Ísaki, mér dettur í hug ljóðið Maður án höfundar úr Hvítum ísbirni, en það má líka nefna (reyndar aðeins síðra) ljóð úr þriðja hluta þessarar bókar, Morgnar og eilífð. Hún virðist falla vel að blátt áfram ljóðmáli Ísaks.

Trúarlegu ljóðin í fyrsta kaflanum höfða mismikið til mín, en tvö af þeim síðustu finnst mér sérlega fallega skrifuð þótt myrk séu: Þungt til himins þar sem við, í smæð okkar gagnvart Guði, „sogumst / viðnámslaus í dragsjúgandi kjölfar hans“ (37) og Óhagganlegt, sem er það sem maðurinn heldur að líf hans sé, „hjarta þitt slær jafn taktfast og fótatak póstsins“ (40) segir Ísak hæðnislega – en: „Ó! hagganlegt er fjallið, líf og draumur / og sólin sem skrikar dansinn og hrapar af himni“ (41). Ég hef komist að því að fyrir mig sem sannfærðan trúleysingja sem á erfitt með að kyngja hinni trúarlegu auðmýkt er auðveldast að nálgast þessi ljóð efnislega með augum sagnfræðinemans: þar er tilfinning fyrir svipaðri smæð, og kannski einhver vottur af auðmýkt.

III

Annar hluti bókarinnar kallast Verði myrkur! (Á vit hins undursamlega) og sker sig úr í bókinni, jafnvel í höfundarverki Ísaks. Kaflinn er einnig sá heildstæðasti í bókinni; hann samanstendur af prósaljóðum sem lýsa lífi miðaldra karlmanns í skítugum kjallara. Hann tekur svefnpillur, kreistir hvítvín úr belju, klórar sér í rassinum, meltingarfærin í honum eru farin að bila. Hálft ljóð fjallar um draslið á skrifborðinu hans eftir að hafa hafist á orðunum „Um hvað á ég nú að skrifa?“ (49) Og í næsta ljóði: „Hlýt að viðurkenna að líf mitt er innantómt – annars myndi ég ekki semja ljóð um draslið á skrifborðinu mínu“ (50).

Þetta er riskí bissniss og það fer um mig hrollur við tilhugsunina um hversu illa hefði verið hægt að klúðra þessu – en Ísak púllar þetta, svo ég klári nú allar sletturnar í einni setningu. Ég er stórhrifin af þessum kafla og hef velt honum mikið fyrir mér. Í augnablikinu er hann fyrir mér eitthvað í ætt við tragikómedíu: „Kate Bush á spilaranum, hvað ég vildi að hún væri mamma mín – trúi að augu hennar myndu spegla mig með skilyrðislausri elsku.“ (50) Maður brosir sársaukafullt út í annað af tómri samkennd og skilningi: „Víst eru þetta dapurleg ljóð um ryk og hrörnun, einsemd og upplausn, en enginn skyldi tala illa um dapurleikann því hann er traustur lífsgrundvöllur.“ (56) Það er helst að ég finni að því að Ólafur Ragnar Grímsson sé of fyrirferðarmikill í kaflanum, nefndur tvisvar, mér finnst ljóðin allt of góð til að hann sé að þvælast þar.

Það er alltaf gæðamerki á skáldskap þegar mann þrýtur athugasemdir, vill bara hafa hann orðréttan yfir fyrir sem flesta – ég tilfæri stutt brot úr síðasta ljóði kaflans, ljóðmælandi er kominn til útlanda: „Svo skellur myrkrið á, hlýrra og skilningsríkara en heima, og ég blandast mergðinni og leyfi henni að stýra mér til og frá eins og korktappa í ólgandi sjávariðu.“ (61)

IV

Þriðji kafli bókarinnar er henni samnefndur, Rennur upp um nótt. Í honum er tónninn bjartari en í fyrri köflum og flest ljóðin í honum af trúarlegum rótum, oft kunnuglegum: skaparinn yrkir beinin í fuglsungana, himinninn er sífelldur félagi mannsins. Sum ljóðin eru fullpredikandi og exklúsív fyrir minn smekk, einkum í seinni hluta kaflans. Lífsfetar (89) kemur mér fyrir sjónir sem augljós speki í anda Paulo Coelho og þrátt fyrir sterkt myndmál í Bróðir Júdas (90) hefur það svipuð áhrif á mig og ef „félagi Kastró“ kæmi fyrir í titli; ljóðið þarf að vera mun óvæntara til að kikna ekki undan þessum gildishlaðna bagga.

Tvö ljóð í kaflanum finnst mér sérlega skemmtileg. Tilraunum með uppsetningu, sem hjá Ísaki náðu hámarki sínu í Veggfóðruðum óendanleika, bregður rétt aðeins fyrir í N 1 blús til hins óþekkta. Beint á eftir því kemur fyndinn absúrdhúmor í ljóðinu Skáld-pabbi, um pabbann sem fer út að veiða ljóð á kvöldin og yrkir sig að lokum í fótinn „þótt sá fótur yrði reyndar / söluhæsti fóturinn þau jólin“ (70). Ég hefði verið kát með meira af þessum leik, eða eins og ættmæður mínar myndu orða það, dette glimt i øjet.

En það eru önnur tvö ljóð úr trúarlega sarpinum sem ég vil nefna að lokum. Annars vegar er það ljóðið Kría, ekki síst vegna þess að mér finnst áhrifaríkustu línurnar í því tjá svo vel þá tilfinningu sem ég hef fyrir einhverju undirliggjandi í ljóðagerð Ísaks, og raunar margra annarra frábærra skálda: „Mitt kvein ber í sér / hæga skelfingarglötun heimsins / eins og / þrýst sé á brennandi sár...“ (73) Lesist ítrekað.

Hins vegar er ég mjög hrifin af ljóðinu Náðin, 21 öld síðar sem er of heildstætt til að ég geti klippt úr því bút, þannig að ég stelst til að smeygja því í heilu lagi aftan við þennan greinarkafla (vegna vesens með inndregnar línur sker ljóðið sig aðeins úr textanum):

Isak

V

Ég ætla ekki að draga neinar niðurstöður saman hér, ég vil helst ekki skrifa neitt sem gæti hentað þeim sem vantar hnitmiðuð auglýsingaslagorð. Ég er búin að skrifa þrjár blaðsíður um ljóðabókina hans Ísaks Harðarsonar vegna þess að hún hefur blásið mér þremur blaðsíðum hið minnsta í brjóst. (Þessu fylgir tilgerðarlaus ljósmynd af íslenskum rithöfundi, mjög sjaldgæft fyrirbæri.) Það eina sem ég á eftir er að votta skáldinu þakklæti mitt fyrir að gefa okkur þessa bók, og allar hinar.

Kristín Svava

6 ummæli:

Tóti sagði...

Frábært að þið (þú) minnist á Ísak.

Þar fer gæða skáld sem alltof líðið hefur verið fjallað um síðustu ár. Hef lesið hann síðan ég keypti 3 stafa nafn (sem var reyndar léleg og hét hún það?) árið 1990 eða eitthvað. Ekki alltaf verið sáttur við höfund en aldrei hent bókum hans frá mér í reiði (eins og verða stundum örlög ljóðabóka í þessu húsi)...

Trúarstefinu tek ég sem hverri annarri fötlun. Eins og París Sigurðar Pálssonar. Þeir virðast stundum halda að bara einn maður hafi fundið guð og bara einn maður hafi fundið París...

Og ég ætla að taka undir: rafljómuð grafhýsi með ofurflatskjám / sem opinbera okkur, álhúðuðum múmíum, gervallan heiminn...

Er lélegt en stundum falla meira að segja bestu skáld í bloggstemningu. En er það bara ekki eitthvað sem fylgir tíðarandanum?

Nú ætla ég að hætta að vinna og hlaupa út í bókabúð (ég meina helvítis gjafavörukaffihúsatúristaverslun) og kaupa rennur upp um nótt (og kannski hvítvíns belju eins og ljóðmælandi) og þakka enn og aftur fyrir besta bókabloggið í þeirri ruslgátt sem netið er!

Þið gerið næstum miðaldra mann með rusl á skrifborðinu happy!

Dagurh sagði...

Þriggja orða nafn heitir fyrsta bókin og er ekki léleg...

En vel að verki staðið, Kristín Svava. Þetta er mjög sanngjörn greinargerð á ljóðabók þessa vanmetna skálds. Gaman að það nenni einhver ennþá að skrifa um ljóðabækur.

"höfunda sem eru komnir í áskrift að tilnefningum til bókmenntaverðlaunanna og farnir að yrkja hlutfallslega mikið um kvöldgöngur í kirkjugörðum." Er þessu beint að Gyrði? Ef svo er, er það ekki alveg jafn sanngjarnt.

Kristín Svava sagði...

Iss, ég var nú bara að fíflast, held að Gyrðir hafi bara gott af því í miðri slefbununni frá gagnrýnendum. Glansandi málverkakápur fara honum víst betur!

Ég myndi heldur ekki kalla Þriggja orða nafn lélega, hún er síðri en þær sem á eftir komu en þær eru líka frábærar.

Tóti sagði...

Bið forláts hef ekki lesið hana í 15-20 ár. En fannst hún ekki eftirtektarverð. Hún var leiðinleg og það mega bækur ekki vera.

Kannski ég grafi hana upp og lesi aftur. Takk enn og aftur fyrir pistilinn.

Sigfríður sagði...

Takk fyrir þetta - frábær pistill. Þarf að fara að endurnýja kynnin af ljóðum Ísaks. Fyrir margt löngu höfðaði "Tilkynning frá alheimssambandi Palla" alveg sérstaklega til mín - segi ekki að maður sé kominn á það stig að vilja helst lesa um "kvöldgöngur í kirkjugörðum" en þetta með prógressjón yfir í trúarljóð hljómar samt alveg ljómandi vel...

Fía sagði...

Takk! Ég hef verið á leiðinni útí sjoppu að fá mér þessa og held ég láti barasta verða að því á þessum þungbúna sunnudegi. Já já.