16. júní 2010

Saltur sykurreyr

P1010172

Í skáldsögunni Sugarcane with Salt sem gefin var út árið 1989 segir höfundurinn, James Ng´ombe, sögu ungs malavísks læknis sem heldur “heim” til Malaví eftir átta ára námsdvöl í Englandi. Sagan er frábær lýsing á sjálfsmynd manns og þjóðar – hvernig allt breytist en þó ekki.

Ef sykurreyr er tekinn upp of snemma er af honum saltbragð. Þetta læra bræðurnir Khumbo og Billy sem litlir strákar í jólaheimsókn hjá afa sínum í þorpinu. Minningin um vonbrigðin sem þetta olli þeim kemur í huga Khumbo þegar hann er löngu síðar á leið norður til Nkhotakhota, sem er bær við strönd Malavívatns, til að heimsækja föður sinn. Þegar ferðalagið til Nkhotakhota er farið er Khumbo nýkominn aftur til Malaví eftir námsdvölina í Englandi. Hann leggur af stað til að átta sig á fortíð og nútíð – reyna að skilja hvað hefur gerst í fjölskyldunni þessi átta ár sem hann hefur verið í burtu.  Fljótlega eftir að hann kemur til landsins verður Khumbo ljóst að ekki er allt með felldu innan fjölskyldunnar. Hann kemst að því að foreldrar hans búa ekki lengur saman og faðir hans vill skilnað á þeim forsendum að konan hans eignaðist hvítt barn. Mamma Khumbos flutti í burtu og fór til stafa sem hótelstýra í Salima á hóteli í eigu hvíts barnsföður síns. Hann kemst líka að því að Billy bróðir hans er í slagtogi með ógæfulegum karakterum frá Suður Afríku sem og fólki innan malavísku stjórnsýslunnar og fæst, með þeim, við innflutning á fíkniefnum. Málin hafa meira að segja gengið svo langt að Billy fékk mömmu þeirra til liðs við sig og hún stýrir m.a. flutningabílaútgerð sem nýtt er við smyglið. Billy hefur náð að efnast vel á þessu athæfi sínu, en ekki vill betur til en svo að þegar allt uppgötvast þá verður honum strax ljóst að félagar hans víla ekki fyrir sér að svíkja hann og hann endar með því að svipta sig lífi. Til að flækja  mál enn frekar þá er stúlkan sem Billy var ástfanginn af áður en hann fór til Englands og hafði ætlað að gifast, nú gift Billy bróður hans og ófrísk að fyrsta barni þeirra. Við andlát Billys kveður hefðin á um það að Khumbo, sem bróðir hans, taki að sér ekkjuna og barnið og ali það upp sem sitt. Inn í þessa flækju miðja kemur svo Sue, ensk kærasta Khumbos, en þau höfðu búið saman í Englandi og höfðu hugsað sér að halda sambúðinni áfram í Malaví. Skiljanlega gengur það illa – Khumbo sem þó er malavískur og ætti að skilja og þekkja til siða og menningar þar – veit vart sitt rjúkandi ráð, hvað þá Sue sem finnst hún hafa verið svikin og skilur hvorki upp né niður í þeim flóknu málum sem í gangi eru innan fjölskyldunnar og í þjóðfélaginu.

Þjóðfélagið sem sagan lýsir er Malaví tuttugu árum eftir að landið fékk sjálfstæði frá bretum 1964. Á þeim tíma hafði “lífstíðarforsetinn” Hastings Kamuzu Banda ríkt 2/3 af valdatíð sinni og ekki margt sem benti til þess að stórvægilegar þjóðfélagsbreytingar væru í sigtinu.  Malaví á tímum Banda var ákaflega lokað þjóðfélag, ritskoðun var grimm, “fjandvinir” ríkisins voru miskunnarlaust fangelsaðir, sendir úr landi eða eitthvað þaðan af verra. Flokkur Banda, Malawi Congress Party, var eini flokkurinn sem leyfður var og var öllum fullorðnum Malövum skylt að vera meðlimir í flokknum. Banda setti á strangar reglur um klæðaburð og útlit sem og um hegðun fólks á almannafæri. Að einhverju marki hefur slakað á járnkló Banda á meðan á Englandsdvöl Khumbo stóð, samanber það að mamma hans var orðin umfangsmikil í viðskiptum þó svo að þau væru öll meira og minna á gráu svæði og unnin í samráði og samvinnu við barnsföður hennar og son. Þjóðfélagsaðstæður Bandatímans eru þó alltaf nálægar í sögunni – spillingin í efstu lögum stjórnsýslunnar, alræði flokksins og hið karllæga viðhorf sem ræður ríkjum.

Sagan er skemmtileg aflestrar og gefur góða innsýn inn í malavískt þjóðfélag. Mæli með að menn flykkist á netið og fái sér eintak, t.d. hjá Africa Bookcentre. Það er ef menn eru ekki svo heppnir að geta skroppið til Malaví og verslað þar!

Sigfríður

2 ummæli:

Erna sagði...

Þetta hljómar mjög spennandi. Ég sé í Gegni að eitt bókasafn á landinu virðist eiga eintak af bókinni, þ.e. bókasafnið á Selfossi. Veit einhver hvort það er hægt að fá millisafnalán milli almennra bókasafna?

Sigfríður sagði...

Frábært hjá þeim á Selfossi! Það hlýtur að vera hægt að fá millisafnalán milli landshluta, væri annað ekki brot á byggðastefnu;)