12. júní 2010

Önnur góð bókabúð: St. George´s Bookshop í Berlín

Grein Þórdísar um bókabúðina Lello í Porto minnti mig á hvers konar vanræksla það er gagnvart lesendum þessarar bloggsíðu að vera ekki búin að koma á framfæri annarri frábærri bókabúð í annarri frábærri borg. Rétt eins og Berlín er ekki næstum jafn snoppufríð og Porto er enska bókabúðin St. George´s Bookshop ekki næstum jafn glæsileg og Lello af myndunum að dæma, en þangað ætti hver bókmenntaunnandi sem heimsækir Berlín að vera skyldaður til að fara.

St. George´s lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en þegar inn er komið er hún ótrúlega rúmgóð. Hún býður sem fyrr segir upp á enskt lesmál, notað og nýtt, og eitthvað smávegis af tvítyngdu efni á ensku og þýsku. Þarna er til dæmis hægt að nálgast mikið af enskum þýðingum á þýskum skáldskap. Úrval fagurbókmennta svokallaðra er mjög gott. Úrval fræðibóka fer sennilega eftir flokkum, mér fannst kynjafræðideildin frekar rýr og komin við aldur, en sagnfræðideildin er mjög fín, sérstaklega um þýska sögu og sögu Berlínar. Á miðju gólfi er svartur leðursófi sem er miklu auðveldara að setjast í en standa upp úr og þar er hægt að gleyma sér í marga klukkutíma ef þannig stendur á. Starfsfólkið er hvert öðru elskulegra og hjálpsamara, ef maður kemur í lopapeysu spyr það hvort maður sé frá Íslandi og svari maður játandi spyr það hvort maður þekki Hildi (alltaf að segja já, hún er svo vel liðin í búðinni). Ef bók sem maður girnist er ekki til er lítið mál að panta hana, hafi maður tíma til að bíða eftir henni. Það er yfirleitt ekki dýrt, og verðlagið í búðinni yfirhöfuð mjög sanngjarnt.

Þessi draumastaður bókaperrans er staðsettur á Wörther Strasse 27 í Prenzlauer Berg-hverfinu í Berlín og er, sem fyrr segir, algjör skylduheimsókn. Hverfið er heldur ekki leiðinlegt að heimsækja, hafi maður hæfilega þolinmæði fyrir hippsterum og barnafjölskyldum. Ef hungrið sverfur að mæli ég til dæmis með jalapeñohamborgara á Marienburger á Marienburger Strasse, sé stemmningin sveitt, eða rússneskri rauðrófusúpu og bjór á Chagall á Senefelder Platz, sem er þægilegri til langrar setu. Báðir staðir eru steinsnar frá St. George´s.

Að lokum má nefna að St. George´s er með heimasíðu: http://www.saintgeorgesbookshop.com/

og á feisbúkk: http://www.facebook.com/#!/pages/Saint-Georges-English-Bookshop-Berlin/344780388150?v=info

Hún er opin á virkum dögum frá ellefu til átta og á laugardögum frá ellefu til sjö.
Bókaköttur
Bókaköttur

St. George´s

Kristín Svava

4 ummæli:

Þórdís sagði...

Frábært, ég kíki pottþétt í þessa búð þegar ég fer næst til Berlínar. Hvers vegna er engin svona skemmtileg bókabúð með ketti í Reykjavík?

Erna sagði...

Ooohhh, ég vildi að ég væri í Berlín. Þarf nauðsynlega að kanna þessa bókabúð næst þegar ég fer þangað. Það eru annars dýr í fleiri bókabúðum í Berlín, t.d. hundurinn Polly í krimmabókabúðinni Hammett í Kreuzberg: http://www.flickr.com/photos/ernae/4061746723/in/set-72157600323677347/

Guðrún Elsa sagði...

Yndisleg búð!

Skarpi sagði...

Það er gamall hundur í dodgy fornbókasölunni á móti Þjóðleikhúsinu, veit því miður ekki hvað hann heitir. Er annars merkilegur andi í þeirri búð, mun sveittari og andlausari en hjá feðgunum ofar í götunni.