14. desember 2010

Enginn heldur utan um ljósið eftir Vésteinn Lúðvíksson, Zéní

EnginnheldurFenginn strengjalaus gítar
Tekur því vel, raddlítill munkur
Og railway station sem rímar
á móti destination - nokkuð glúrið

Vésteinn Lúðvíksson gaf út fyrstu ljóðabókina sína, Úr hljóðveri augans, árið 2003, þá rétt tæplega sextugur. Síðan þá hafa birst þrjár ljóðabækur til viðbótar - Svona er að eiga fjall að vini (2004), Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk (2006) og nú Enginn heldur utan um ljósið. Auk þess hefur hann þýtt ljóð Po, Chü-i, sem birtust í bókinni Brjálsemiskækir á fjöllum. Einu sinni var Vésteinn Lúðvíksson leikskáld - en það var held ég í einhverjum öðrum heimi. Áður en ég fæddist.

Hafa ekki verið viðstaddur
þegar ísaldarjökullinn snyrti þetta hulda berg

tylla sér á árangurinn margsinnis og vera
viðstaddur þessi tignarlegu fjöll –

(Í djúpið, s. 13)

Vésteinn Lúðvíksson er íslenskt náttúruskáld og ég er með ofnæmi fyrir náttúruljóðum. Nema náttúruljóðum Vésteins Lúðvíkssonar. Ég hef það á tilfinningunni – og get varla fært nein frekari rök fyrir þessari tilfinningu – að náttúran í ljóðum Vésteins standi á jörðinni, hún sé ekki „íslensk“ fyrir það eitt að vera á Íslandi – hún sé ekki staðgengill fyrir þjóðrembing, eða sjálfsupphafningu – heldur sé hún veraldarinnar, útgeima og eilífðarinnar, nái niður í rætur og tengist öllu. Og allt í einu get ég dáðst að íslenskri náttúru, ég sem get varla hlustað á Sigur Rós eða lesið atómskáld án þess að fá útbrot.

Vésteinn er auðvitað meira en náttúruskáld - ég á ekki við að þetta séu bara einhverjar lækjarsprænur. Ljóð hans eru kannski tilraun til þess að samþætta hugsun, eðli, anda, líkama og náttúru.

Þegar þú hlærð er stóll sem hlær
þegar þú hlærð er húsið alelda
Réttu mér nú höndina og haltu
fast í allt hitt með hinni, verandi funinn
og hermdu mér svo hvaða eldingar nái
að tvístra slíkum trekant

(Hlátur s. 24)

Það er einhver austurlensk kerskni í ljóðum Vésteins - sem er augljóslega undir áhrifum tönkusmiða og hækugerðarmanna – einhver hrokalaus kerskni,full af vinalegri kímni (en ekki þó saklausri). Mér líður vel í þessum félagsskap. Einsog hann skapi mér hugarró – ef ekki hreinlega réttlæti (ég biðst velvirðingar á þessum tilfinningaáherslum; en bókin vekur með mér tilfinningar).

að sitja gagntekinn
á bakkanum, horfa
á eftir því sem flýtur
með straumnum

uns það hverfur
að lokum í fjarskann
einsog fljótið, einsog
bakkinn og augun

og enginn til að líkja
neinu við neitt

Humar sem telur sig humar
og rækja sem telur sig rækju
Eikarbátur frá Ísafirði
á alltaf síðasta upphafsorðið

--

Hvergi fugl, aðeins
fjöður að hringa sig til jarðar
Ekkert að loftinu hvaðþá
orsök og afleiðing

(Bara, s.18-19)

Í bókum Vésteins er að finna allar stjörnur himinsins – og því varla á það bætandi og engar stjörnur hvort eð er til í búinu, en væru hér stjörnur myndum við splæsa og splæsa, sulla í hann stjörnum þar til engar væru lengar eftir (þetta er ekki kennslustund í heimilishagfræði). „Þegar fara saman / þakklæti og undrun / á fyrsta atkvæðið ekki / alltaf heimangengt".

Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

5 ummæli:

Guðríður Magnúsdóttir sagði...

Takk fyrir þetta Eiríkur Örn. Ég fatta núna hvers vegna ég læt Vésteinn eða þessa bók hans fara svolítið í taugarnar á mér. Hann er ekkert sérstaklega íslenskur. Hugarheimurin er einhvers staðar þar sem ég er ekki mjög mikið.

Sigfríður sagði...

Ég held ég verði að lesa ljóðin hans Vésteins eftir þetta. Hef eiginlega ekkert lesið eftir hann er verið haldin verulegum fordómum, ég meina bækur með nöfnum sem innihalda orðið pípulögn - say no more. Hlakka til að lesa náttúruljóð og landslagslýsingar án þess að hafa áhyggjur af að þetta sé allt um eitthvað sérstaklega þjóðlegt íslenskt fjall sem ég á að vita allt um og á toppi hverst ég ætti helst að vilja veifa sautjándajúnífána eftir að hafa prílað þangað upp í séríslensku fjallgöngufári.

Þórdís sagði...

Auðvitað áttu að lesa þessa bók. Og pípulögn er einmitt orð sem fengi mig jafnvel til að langa að lesa bók. Enda las ég einu sinni Átta raddir út pípulögn - en hún var reyndar skrifuð í öðrum heimi, eins og Eiríkur Örn segir.

En þetta með náttúruljóðin og ofnæmið? Eru ekki miklu fleiri með slíkt óþol en við Eiríkur Örn?

H. Lilliendahl sagði...

Ég skil ekki hvernig er hægt að hafa fordóma gagnvart fólki sem skrifar bækur sem heita Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk. Ég elska Véstein.
http://kaninka.net/snilldur/?p=1504

Sigfríður sagði...

Sumir eru bara óforbetranlegir í sínum fordómum ....