21. desember 2010

ljóðastaðir

Undanfarna daga hef ég verið að glugga í ljóðabók sem heitir Staðir og er eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Ég hef ekki lesið neitt annað eftir Guðrúnu en man þó eftir að hafa rekið augun í fyrrri ljóðabók hennar Fléttur sem kom út árið 2007. Staðir vinnur verulega á við endurtekinn lestur.  Ljóðin láta ekki mikið yfir sér, það eru engin læti eða augljós átök í gangi, ekki svona á yfirborðinu að minnsta kosti. Þarna er farið hægt og hljótt yfir, staðirnir eru af ýmsum toga, borgarlandslag, lyngi vaxnar brekkur, ísi lagður Borgarfjörður sem sagnfestuhross æða um, draumheimar og hjartastaðir.

Að mínu mati tekst Guðrúnu best upp þegar hún fjallar um einhverskonar innra landslag, þau ljóð höfða að minnst kosti mest til mín. „Egg“ finnst mér t.d. næsta gott, m.a. þessar línur:

Það komst ekki hnífurinn
á milli okkar
en að því kom
ég þreif um eggina
og þú dróst blaðið
úr greip minni

(bls 22)

Mitt uppáhaldsljóð í bókinni er þó „samastaður“.  Bæði höfðar efnið til mín og eins finnst mér Guðrúnu þar takast vel upp með að láta efni og form haldast í hendur. Það sem ég get helst fundið bókinni til foráttu er einmitt formið, eða kannski það að fyrir minn smekk þá er yfirbragð margra ljóðanna full „fornt“. Og auðvitað er það aldrei þannig að manni finnist allur efniviður í bók einsog þessari jafn áhugaverður eða endilega skemmtilegur.  En jafnvel í þeim ljóðum þar sem efni eða form hefur ekki höfðað sérstaklega til mín finn ég yndislega fallega mola einsog:

hér skal ég standa
og anda að mér stjörnum

(Ofvæni, bls. 9)

úr augum hennar flóði himinblámi
og silfrað myrkur

(í bók, bls. 19)

Sigfríður

1 ummæli:

Þórdís sagði...

Það sem vakti meðal annars athygli mína þegar ég las þessa bók var að mér fannst ég sjá hesta út um allt (kannski voru þeir samt bara í fimm ljóðum eða svo). Eitt ljóðið fjallar um hest sem Guðrún las um í bók Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp, Horfnir góðhestar, en þá bók sagðist Gerður Kristný hafa notað heilmikið þegar hún var að skrifa Blóðhófni.