12. apríl 2011

Læðst milli trjánna með Gyrði

Hipp hipp húrra! Mikið voru það ánægjuleg tíðindi sem bárust í dag – nei, ég er ekki að tala um stórfréttina „16 þúsund tonn af fiski í flugfrakt“ sem birtist á RÚV, heldur þá gleðifregn að Gyrðir Elíasson skuli hljóta Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir smásagnasafnið Milli trjánna.

Milli trjánna, sem kom út hjá Uppheimum fyrir þarsíðustu jól, er æði magnþrungið safn 47 stuttra sagna; eins og ef til vill má segja um höfundarverk Gyrðis í heild eru þetta sögur sem láta lítið yfir sér en eru samt um leið svo stórar, þær teygja sig út fyrir blaðsíðurnar og ramma þeirrar atburðarásar sem lýst er í hverri sögu. Angurværðin er alltumlykjandi sem og óræð eftirsjá, eða kannski löngun eftir einhverju sem aldrei varð. Það er eitthvað haustlegt við stemninguna, eins og skrítna nostalgían sem hellist yfir mann með haustrigningunni, eins og eitthvað sé horfið og komi aldrei aftur.

Þótt bókin sé safarík mæli ég með því að treina sér hana, að minnsta kosti í nokkur kvöld – lesa ekki of margar sögur í einu því þrátt fyrir að þær tengi ákveðið andrúmsloft stendur hver saga sem sterk heild. Þær skilja lesandann gjarnan eftir í lausu lofti, eða öllu heldur þegar ákveðnum hápunkti hefur verið náð, og það sem eftir stendur eru hughrifin fremur en atburðarás eða efnislegt inntak. Þess vegna er vel þess virði að leyfa sér að melta hverja sögu þótt auðvitað langi mann helst að æða áfram og fá að lesa meira.

Í bókinni er mikið af því sem hægt er að kalla fallegan ljótleika, eða kannski ljóta fegurð. Sögur sem lýsa yfirþyrmandi tómleika og einsemd, sögur sem draga fram óvæntan óhugnað eða lýsa óþægilegum hlutum á afar myndrænan hátt. Sumar eru blátt áfram David Lynch-legar í afbökun sinni á hinum kunnuglega veruleika; vængjaða veran í Glerhúsi, tvöfalda tilveran í Gjörningaþoku og Dýrið úr samnefndri sögu eru þeim mun óhugnanlegri vegna þess hve stíllinn er meitlaður og allt að því varfærnislegur. Aðrar eru einfaldlega fallegar á tregablandinn máta; sagan Bókaskápurinn hlýtur að höfða til allra þeirra sem hafa lesið sig í gegnum lífið.

Milli trjánna er hins vegar líka skemmtileg bók og meinfyndin – þótt hin Gyrðislega angurværð sé aldrei langt undan er þetta engin þunglyndislesning heldur þvert á móti; hún fyllti mig að minnsta kosti löngun til að lesa meira, skrifa meira, já og lesa meira af Gyrði því ég á örugglega helminginn af bókunum hans eftir.

Til hamingju með daginn sem að kvöldi er kominn!

4 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Já! Þetta er svakalega flott bók og ég ræð mér vart af kæti yfir því að Gyrðir hafi fengið verðlaunin fyrir hana!

Alveg sammála meðmælunum um að treina sér bókina, ég er vön að lesa bækur í fáum rykkjum en tók mjög góðan tíma í þessa, las sjaldnast nema eina eða í mesta lagi tvær sögur á dag því mér fannst þær einhvern veginn þurfa að anda. Það var góður tími.

Kannski ég byrji á annarri umferð núna. Ég ætlaði alltaf að a.m.k. fletta bókinni aftur og íhuga hversu stórt hlutverk dauðinn leikur í henni; hann er veigamikill í næstum öllum sögunum, ef ekki öllum - mig minnir að í fyrstu umferð hafi þær sögur verið teljandi á fingrum annarrar handar þar sem mér fannst dauðinn ekki áberandi en ætlaði alltaf að athuga hvort hann hefði kannski bara farið framhjá mér í einstaka sögu. En ég er alveg sammála því að bókin er ekki þunglyndisleg, sem er eiginlega merkilegt í þessu samhengi við dauðann.

Mér finnst að það ætti að hafa almennan frídag þegar viðburðir á borð við þessa verðlaunaveitingu gerast þannig að allir geti farið heim og lesið! Mig langaði mest til þess í dag.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Já einmitt, það er dauðinn og svona þessi tilfinning að komið sé að leiðarlokum, að einhver óafturkræfur endanleiki sé að hellast yfir ... Margar sögurnar náttúrulega beinlínis um dauðann, ýmist yfirvofandi dauða, dauðsfall úr fortíðinni eða ástand á milli lífs og dauða/dauðastundina.

Svo var annað sem ég hjó eftir og það eru tilvísanir í aðra listamenn. Persónurnar eru mjög oft að lesa eða hugsa um eða hlusta á tiltekna listamenn. Mikil tónlist í bakgrunni og stundum í aðalhlutverki, eins og í Tónlistarbúðinni sem mér finnst stórfengleg hugmynd. Bara þegar ég fletti bókinni núna sé ég minnst á Oscar Peterson, Henry James, Eric Satie, Strindberg, Kipling og Buster Keaton.

Ég styð hugmyndina um almennan frídag! Eiginlega ætti maður að eiga inni ákveðinn fjölda lestrardaga á ári, svona eins og veikindafrí nema gott ...

Andrea sagði...

Fjórar færslur í röð um Gyrði.
Ég var farin að halda að þetta væri fan page :p

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Hér er það ekki Justin Bieber heldur Gyrðir ...