26. apríl 2012

Myrkrið, brjóstamjólk sagnanna

Stella er er „lítil og sæt bókaútgáfa sem elskar ljóð og annan skáldskap“ og gaf fyrir síðustu jól út bókina Við tilheyrum sama myrkrinu – Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo eftir Kristínu Ómarsdóttur. (Hér er nýlegt viðtal Subbukallanna við Kristínu um bókina.) Mér barst þessi bók eins og fleiri með ferðum druslubókadama yfir hafið og kláraði hana í einum rykk í sófanum eitt kvöldið eftir að hafa verið að basla við að lesa hana í rúminu og á ströndinni en ekki gengið nógu vel; hún er nefnilega fullstór í brotinu til að þægilegt sé fyrir nærsýna manneskju að lesa hana liggjandi á bakinu án góðs hliðarstuðnings.

Meðan ég var að bíða eftir að fá bókina í hendurnar rifjaði ég upp gömul og hálfgleymd kynni af bókum Kristínar Ómarsdóttur. Þegar ég var krakki átti ég það nefnilega til að taka bækur af handahófi úr bókahillum foreldra minna og gleypa þær í mig fremur umhugsunarlaust – þetta er lesmál eins og annað – svona eins og Hómer Simpson étur það sem verður fyrir honum í eldhússkápnum, hvort sem það er samloka, kartöflumjöl eða niðursoðinn aspas. Þannig las ég alls konar skringilegheit eins og handbókina Vínin í ríkinu 1992 sem gefin var út af ÁTVR, Teningunum er kastað eftir Jean-Paul Sartre og fleira ósamstætt í þeim dúr. Ég hugsa að ég hljóti að hafa innbyrt texta á einhvern annan og lýðræðislegri hátt en ég geri í dag. En það kom fyrir að ég rambaði á safaríkara efni. Í hillunum heima voru til tvær skáldsögur eftir Kristínu Ómarsdóttur: Elskan mín ég dey og Dyrnar þröngu. Ég man ekki til þess að hafa lagt á þær sérstaklega íhugult fagurfræðilegt mat frekar en aðrar bækur sem ég las á þessum tíma, en ég man að mér fundust þær bæði skemmtilegar og mjög öðruvísi - maður vissi aldrei hvað kom næst - og ég las þær spjaldanna á milli. (Um daginn opnaði ég Dyrnar þröngu aftur og gat ekki annað en flissað yfir að hafa verið að lesa af athygli þessa súrrealísku erótík tólf, þrettán ára gömul.)

Ég er ekki frá því að það megi lýsa Við tilheyrum sama myrkrinu með sömu orðum, sem skemmtilegri og mjög öðruvísi, og vissulega með erótískum undirtóni. Aðalsöguhetjurnar eru, eins og undirtitillinn gefur til kynna, vinkonurnar Marilyn Monroe og Greta Garbo. Sögunum í bókinni fylgja teikningar eftir Kristínu af þeim stöllum, sem og ljóðið „Amerísk móðir“ eftir Marilyn Monroe, sem er eiginlega uppáhaldsparturinn minn:

„Ástin mín, móðir sona minna
hegrinn sem sýgur himininn
           eins og röri stungið ofan í dall
           bensíntankur sem vistar mjólkurhristinginn
þú sem flytur mér undur náttúrunnar
í morgunbollanum
á friðartímum fer ég ekki fet
frá þér og sonum mínum.“ (16)

„Hjá glugganum í húsinu við Helenugötu í Brentwood.“
Eins og stundum gerist þegar maður hefur heyrt skáld lesa upp úr verkum sínum heyri ég rödd Kristínar alltaf fyrir mér þegar ég les þetta ljóð.

Á heimasíðu Stellu sá ég fyrirsögnina á ritdómi Kristjönu Guðbrandsdóttur í DV: „Beitt skvísubók“. Það er vel til fundið að kalla þetta skvísubók, enda bók um skvísur, en ekki skvísurnar Marilyn og Gretu sem þær stjörnur eða kyntákn sem þær eru í dægurmenningarsögunni (ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég las þessa bók hvað orðið kyntákn er merkingarhlaðið) heldur tvær slæðum vafðar vinkonur sem flatmaga á ströndinni eða uppi í rúmi, fjarri auga myndavélarinnar (þótt hún sé þeim oft í huga, og þær máti sig við hana), strjúka hvor annarri um hárið, prjóna sokka, drekka hvítvín og segja sögur af kínverskum stúlkum sem þjóna frú Maó með því að horfa á bíómyndir allan daginn og stelpum sem eru svo ljótar að þær eru lokaðar inni í húsi og félagsþjónustan verður að senda blinda konu til að aðstoða þær. Marilyn snerti sérstaklega við mér, kannski af því að hún er enn meira tákn en Greta; hér er hún ljúf en tragísk persóna sem finnur meiri nánd á krám en í kynlífi (mér svelgdist þess vegna á þegar ég sá hana kallaða „kynlífskettling“ í öðrum ritdómi) og vill helst ekki dvelja um of í raunveruleikanum þótt geðlæknirinn hennar segi henni að gera það:

„„Fríið,“ byrjaði Marilyn á að segja og skerpti á silfurskuggum augnlokanna, „sem drykkjufólk og eiturlyfjaneytendur gefa aðstandendum skyldi ekki vanmetið.“ Marilyn litaði varir sínar í myrkrinu. „Á meðan ég drekk geta elskhugar mínir lesið bækur, horft á sjónvarp eða sinnt öðrum góðum störfum í friði frá hnýsnum glyrnum sem vilja allt sjá og flest vita.“ Hún púðraði vangana, höku og háls. „Þess vegna gef ég öðrum frí og sjálfri mér frí frá öðrum þegar ég sest að drykkju sem varir í nokkra daga. Ég er ekki að flýja af vettvangi, Greta, innri heimar mínir eru jafn miklir vettvangar raunveruleikans og þessi hér,“ sagði hún og baðaði út höndunum.“ (51)

Þetta er ein af þessum bókum sem mann langar helst að lesa úr upphátt og tilfæra margar, langar tilvitnanir eins og þá sem fer hér á undan, um löngun Gretu Garbo til að vera innan um tannlaust fólk, um þann samruna sem Marilyn veit að fer fram milli drykkjufélaga, um munka sem æsast kynferðislega af runnum, og svo framvegis. Þetta er falleg bók, bæði utan á og inni í. Samt er undirtónninn ekki bara erótískur heldur líka drungalegur, eins og í sögunum af ljótu stelpunum sem þrátt fyrir allt þurfa að þola innrás hlæjandi, drýgindalegra drengja í húsið sitt og stúlkunni sem endar á að vera leidd fyrir aftökusveit af því að hún er of skapandi fyrir alþýðulýðveldið. Það er líka myrkur í bókinni, en eins og þar segir er myrkrið „brjóstamjólk sagnanna“.

3 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Jess. Kristín Ómarsdóttir er svo frábær höfundur.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já og svo er líka svo gaman að vinna með henni í garðyrkju í Hafnarfirði.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Kristín Ómars er æði!

Og mikið finnst mér þessi bókaloftbrú druslubókadama til Portúgals fallegt fyrirbæri.