29. apríl 2012

“Við erum ekki hrafnarnir ... við erum hræin sem þeir kroppa við veginn”: Hrafnarnir eftir Vidar SundstølHrafnarnir er lokabókin í Minnesota-þríleik norðmannsins Vidars Sundstøl. Fyrri bækurnar tvær eru Land draumanna sem kom út 2010 og Hinir dauðu sem er frá 2011. Stuttar umfjallanir um þessar tvær fyrri bækur hér á Druslubókum og doðröntum má finna hér og hér.

Líkt og í fyrri bókunum er það skógarlöggan Lance Hansen sem er sögumaður og aðalpersóna. Sagan hefst tveimur mánuðum eftir að atburðunum í bók númer tvö lýkur, en það sem gerðist við hjartarveiðarnar varð Lance ofraun og hann varð að komast í burtu. Hann segir fjölskyldunni að hann sé á leið til Noregs, gamla landsins, í frí. Það sem hann hinsvegar gerir er að keyra rétt yfir landamærin til Kanada. Þar fer hann á hótel og gerir í raun ekki margt annað í tvo mánuði en að hanga í þungum þönkum inná hótelherbergi. Hann hefur hinsvegar fyrir því að fá norskan lögreglumann, sem vann með honum að því að upplýsa morðmálið sem sagan hverfist um, til að senda ættingjunum með reglulegu millibili kort sem hann var þegar búinn að skrifa á. Það er svo í upphafi bókar að hann fær skyndilega nóg og fer heim aftur. Hann veit að hann verður að upplýsa málið, segja frá því sem hann veit og takast með því á við fortíðina og allskyns þöggun og erfiðleika sem hann myndi helst vilja að hægt væri að láta eiga sig. En það er augljóslega ekki í boði, hann veit að hann fær enga ró í sín bein fyrr en hann hefur tekist á við málið.Á bókarkápunni segir að “líf Lance Hansen verður aldrei eins og áður” það er mikið rétt. Hann þarf að takast á við fjölskyldu sína og fortíð, en kannski einna helst sjálfan sig. Morðmálið sjálft verður í raun ekki annað en umgjörð um innri átök sem felast að stórum hluta í því að skoða sjálfan sig og meta sínar eigin gjörðir. Og að lokum kannski aðallega í því að horfast í augu við að hlutirnir eru kannski ekki alltaf einsog maður heði haldið og að túlkun manns sjálfs á eigin gjörðum og annarra er ekki endlilega skýr eða rétt.

Að mínu mati er þessi lokbók Minnesota-þríleiksins sú besta. Hún nær að taka andrúmsloftið og þráðinn sem lagt var upp með í fyrstu bókinni og spinna úr því sögu sem er læsileg og spennandi. Það sem best var gert í fyrstu bókinni er þróað áfram hér og gengur vel upp. Ég hefði gjarnan viljað sjá þessa sömu takta í bók númer tvö, en einsog fram kom í umfjölluninni um hana þá fannst mér höfundur ekki ná sér á strik þar nema þá helst í þeim köflum sem fjölluðu um forfeður Hansen klansins. Hrafnarnir er hinsvegar flott saga og virkar vel bæði sem spennusaga og eins sem innlit inní hugarheim persónanna og þau ótrúlega mörgu atriði sem geta komið til álita þegar samskipti innan fjölskyldna eru annars vegar.

Engin ummæli: