9. maí 2012

Grafísk skáldsaga um bókmenntir og dauða

Áhugafólk um kvikmyndir og/eða femínisma ætti að kannast við nafn Alison Bechdel en við hana er kenndur svonefndur Bechdel-staðall (stundum nefndur Bechdel/Wallace-staðall), ætlaður til að mæla hvort kvikmynd standist lágmarkskröfur um frambærilega kvenkaraktera. Kröfurnar eru ekki harðari en svo að í myndinni þurfa að vera 1) minnst tvær nafngreindar kvenpersónur 2) sem eiga samskipti sín á milli 3) um eitthvað annað en karlmenn – en þó er reyndar ótrúlegt hve margar kvikmyndir af öllu tagi skítfalla á þessu þegar að er gáð. Það var reyndar ekki Bechdel sjálf sem fann upp á staðlinum heldur Liz nokkur Wallace, en Bechdel varð til þess að vekja á honum athygli í myndasögunni Dykes To Watch Out For (19832008). Hana hef ég ekki lesið en lauk nýlega við aðra myndasögu eftir Bechdel, sú er sjálfsævisöguleg og ber heitið Fun Home – A Family Tragicomic (2006). („Myndasaga“ er dálítið vandasamt orð; nær einhvernveginn ekki alveg jafn langt og graphic novel, sem mér finnst lýsa umræddum geira mjög vel. Semsagt grafísk skáldsaga. DTWOF er aftur svonefnt comic strip.)


Að vissu leyti má kalla Fun Home uppvaxtarsögu og flokka hana þannig með stelpu-coming-of-age-myndasögum á borð við Persepolis Marjane Satrapi eða Ghost World eftir Daniel Clowes (þótt sú síðastnefnda sé reyndar ekkert sjálfsævisöguleg). Bechdel segir frá æsku sinni og unglingsaldri í bandarískum smábæ, síðar námsárum og því að koma út úr skápnum. Í frásögninni nýtir hún m.a. dagbókarskrif sín úr æsku – og þarf þá oft að vera vakandi fyrir því að hafa sem barn matreitt veruleikann ritskoðaðan ofaní eigin dagbók – og rásar töluvert aftur og fram í tíma. Það sem heldur öllu saman er upplifun hennar af föður sínum og þeirra sambandi, öðrum fjölskyldumeðlimum fer aftur lítið fyrir. Almennari þemu eru helst dauðinn og bókmenntir: fyrsta heimili fjölskyldunnar var útfararstofa bæjarins, fjölskyldufyrirtæki föðurættarinnar, en „funeral home“ er gjarnan stytt í „fun‘l home“ og þaðan er bókartitillinn fenginn. Á háskólaárum Alison varð bókmenntafræðikennarinn pabbi hennar undir vörubíl við óljósar kringumstæður sem gætu jafnvel virst hafa of margar bókmenntafræðilegar vísanir til að um einbera tilviljun hafi verið að ræða. Og látnir, vomandi feður eru auðvitað sígilt minni í allskonar bókmenntum fyrr og nú – Hamlet, Dexter, Galápagos Vonneguts sem ég bloggaði um hér um daginn...

Ég hyggst ekki rekja söguþráðinn frekar hér en get alveg mælt með bókinni – sagan er skemmtileg og einlæg og bókmenntaperrarnir ættu í það minnsta að fá eitthvað fyrir sinn snúð með stöðugum bókmenntavísunum og -tilvitnunum (sem reyndar eru ca 100% í karlkynsrithöfunda – en þær eiga líka að endurspegla bókmenntasmekk pabbans...) Svo er líka svo gaman að lesa fallegar myndasögur, húrra fyrir þeim!

Engin ummæli: