13. maí 2012

Leggðu þig á diskinn. Bíddu

Kæru lesendur, ég bara veit að þið hafið verið að spyrja ykkur: hvernig lítur bókamarkaðurinn í Perlunni út annars staðar? Og nú get ég sagt ykkur – og sýnt ykkur – hvernig hann lítur út í Lissabon, því ég fór þangað um síðustu helgi. Og tók MYNDIR. Bókamarkaðurinn í Lissabon er ekki haldinn í Perlunni heldur í almenningsgarðinum Parque Eduardo VII. Sem almenningsgarður er hann ekki alveg að mínu skapi - of mikið af gangstéttum - en það fer ágætlega á því að halda bókamarkað þar. Ekki er markaðurinn einungis úti undir beru lofti, sem er huggulegt hér þar sem vorhretin eru sjaldgæfari, heldur er hægt að kaupa sér bæði kebab og bjór meðan maður röltir milli bása – nokkuð sem vantar sárlega á bókamarkaðinn í Perlunni.
Í Parque Eduardo VII.

Bók bókanna þarf auðvitað sérstakan bás.
Ég staldraði ekki mjög lengi við á markaðnum í þetta sinn því ég var á leiðinni í bíó og þurfti að koma við í eina stórmarkaðinum í borginni sem selur salsasósu. Ég notaði hins vegar tækifærið til að kaupa mér á afsláttarverði bók sem ég hef haft augastað á um hríð; safn ljóða frá 8. áratugnum eftir Alexandre O´Neill, Anos 70. Poemas dispersos. Ég keypti mér reyndar heildarsafnið hans um daginn, þessi ljóð eru bastarðar sem komust ekki í heildarsafnið, en bókin var samt eitthvað svo aðlaðandi og í hvert sinn sem ég opnaði hana af handahófi lenti ég á einhverju skemmtilegu, þannig að ég ákvað að kaupa hana bara líka. Báðar eru bækurnar gefnar út af forlaginu Assírio & Alvim, sem hafa sent frá sér töluvert af bókum eftir merk portúgölsk ljóðskáld í mjög fallegum útgáfum.


Alexandre O´Neill var semsagt portúgalskt ljóðskáld, þrátt fyrir þetta óportúgalska eftirnafn (hann var kominn af Írum), fæddist árið 1924 og dó 1986. Hann var einn af framámönnum súrrealista í Portúgal og var pólitískt skáld sem tók afstöðu gegn einræði Salazar og lenti oftar en einu sinni í útistöðum við ríkislögreglunni PIDE. Það eru sex ljóð eftir hann í portúgölsku ljóðaþýðingasafni Guðbergs Bergssonar, Öll dagsins glóð, en eitt þeirra man ég mjög skýrt eftir að hafa lesið einhvers staðar þegar ég var í menntaskóla og fundist algjörlega stórkostlegt. Það er örstutt:

Jorge 

Nú máttu koma,
mamma er loksins dáin.

Það er annars varla heiglum hent að þýða O´Neill. Ég finn mjög fyrir ófullkomnum tökum mínum á portúgalskri tungu þegar ég les hann, þótt hann sé nógu skemmtilegur til að það hvetji mig stöðugt áfram. Hann er gríðarlegur orðaleikjamaður, getur varla látið frá sér orð án þess að snúa upp á það, en þess á milli ryður hann út úr sér löngum, rímuðum kvæðum, jafnvel fadotextum. Hann er fyndinn, íronískur og léttúðugur; hann á það sameiginlegt með höfundinum sem ég skrifaði um seinast, Reinaldo Arenas, að mótmæla kúgunarvaldinu af ástríðu en gera sér samt engar rómantískar grillur um sína kúguðu meðbræður. Hann orti líka myndljóð og ljóð við ljósmyndir; dæmi um hvort tveggja er að finna í þessu safni frá 8. áratugnum. Hér er til dæmis myndljóðið Opressão (Kúgun):



Hér er annað stutt og einfalt sem ég snaraði sjálf:

Einlífi 

Stingdu í þig gafflinum.
Skerðu þig með hnífnum.
Leggðu þig á diskinn.
Bíddu.

Ég hlakka til að geta gengið að þessu skáldi í bókahillunni minni um ókomin ár. Eins og áður segir eru sex ljóð eftir hann á íslensku í Öll dagsins glóð. Nokkur ljóð og texta í enskri þýðingu má finna hér, hér, hér og hér.

Engin ummæli: