21. júní 2013

Lesbískur módernismi og hermafródítur í Utrecht

Ég bjóst ekki við því þegar ég hóf að undirbúa ferðalag til Utrecht, frekar en þegar ég átti leið um Fellabæ, að þar myndi ég rekast á spennandi bókabúð. En viti menn; í Utrecht starfar fyrsta femíníska bókabúðin sem stofnuð var í Hollandi, Savannah Bay (eftir samnefndu leikriti Marguerite Duras), sem einnig sérhæfir sig í hinsegin bókmenntum og fræðum. Þessa búð leitaði ég að sjálfsögðu uppi. Hún er staðsett á Telingstraat 13, steinsnar frá framúrstefnulegu ráðhúsi Utrecht-búa.

Þarna má sjá deildirnar Homo proza og Homostudies, en einnig vídeóhornið til vinstri
Hvar er betra að sóla sig en í Virginiu Woolf-garðstól?
 Ég festi kaup á þremur bókum í Savannah Bay, tveimur fræðibókum og einni skáldsögu: Materializing Queer Desire. Oscar Wilde to Andy Warhol eftir Elisu Glick, Doubting Sex. Inscriptions, Bodies and Selves in Nighteenth-Century Hermaphrodite Case Histories eftir Geertje Mak og Nightwood eftir Djurnu Barnes.

Sú síðastnefnda er stórfræg módernísk skáldsaga sem ég hafði samt, eins og vill stundum verða, aldrei heyrt um. Kápan er þakin lofsyrðum frá ekki minni mönnum en William S. Burroughs og T.S. Eliot, en sá síðarnefndi skrifaði formála að bókinni (það er líka nýr formáli eftir Jeanette Winterson með þessari útgáfu, en mér þótti hann óttalega leiðinlegur). (Dylan Thomas lýsti Nightwood svo að hún væri „one of the three great prose books ever written by a woman“- vá, takk, Dylan.) Ég er bara hálfnuð með bókina þannig að ég vil ekki vera með of miklar yfirlýsingar ennþá. Mér líkar hún ágætlega en þetta er reyndar fyrst og fremst ástarsaga og ég er alltaf að komast betur og betur að því hvað ég hef rosalega lítinn áhuga á svoleiðis bókum, enda með hart og kalt hjarta. En hey, það tekur þó ennþá kipp þegar ég rekst á skemmtilegar bókabúðir!

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ef ég eignast einhverntíma búð ætla ég að selja svona garðstóla.

Nafnlaus sagði...

Fín færsla, en það er nauðsynlegt að vanda orð. Intersex fólk hefur hvatt til þess að nota frekar orðið Intersex í stað hermafródítu, og án þess að vera með leiðindar ritskoðun þá held ég að það sé mikilvægt að virða óskir minnihlutahópa hvað varðar skilgreiningar.
http://www.isna.org/node/16