21. desember 2013

Útlenskar gauksklukkur, gaddfreðnar tertur og kennaraefni sem hefðu betur sleppt því að sofa við opinn glugga

Ég varð fyrir nokkru áfalli um daginn þegar ég komst að því að Þórdís Gísladóttir ljóðskáld og barnabókahöfundur, sem ég stóð í þeirri trú að þekkti allar barnabækur sem hefðu komið út á Íslandi frá upphafi vega, hafði aldrei heyrt um Klukkuþjófinn klóka. Öfugt við margar af mínum góðu meðbloggurum er ég lítil IBBY-týpa í mér, en sumar barnabækur sitja í minninu fyrir að hafa verið skemmtilegri en aðrar. Það var lítil saga af skólastjóranum í Klukkuþjófnum klóka sem rifjaðist upp fyrir mér þegar við Þórdís vorum að fara að sofa í heimavistarlegu herbergi í Finnlandi og ræddum hvort við ættum ekki að opna glugga fyrir nóttina:

„Þegar minnst var á þá ósvinnu að opna glugga ef veðrið var gott, sagði hann ætíð sömu söguna um bekkjarfélaga sinn í Kennaraskólanum, sem hafði alltaf sofið við opinn glugga og einn morguninn fannst hann dauður í rúmi sínu með snjóskafl á brjóstinu. Það hafði fennt inn um gluggann um nóttina og á bringu hins sofandi kennaraefnis.“

(Við opnuðum nú samt.)

Höfundur Klukkuþjófsins klóka er Guðmundur Ólafsson, leikari og rithöfundur, sem alls hefur gefið út eina unglingabók og fimm barnabækur. Þekktastur er hann fyrir bækurnar um Emil og Skunda, sem kvikmyndin Skýjahöllin var gerð eftir, en þótt ég hefði ósköp gaman af þeim var það alltaf Klukkuþjófurinn sem átti hjarta mitt. Það segir kannski eitthvað um mig sem lesanda; Klukkuþjófurinn gengur mikið til út á stuð og sniðugheit, en Emil og Skundi er meiri þroskasaga. Það fór ekki sérlega vel í mig sem barn, og gerir reyndar ekki enn, þegar persónur sögunnar læra af mistökum sínum og lesandinn á helst að gera það líka.
Aðalsöguhetjur Klukkuþjófsins klóka eru frændurnir og vinirnir Svenni og Kobbi, sem búa í þorpi úti á landi. Sagan gerist eitt sumar í lífi þeirra og hefst á viðburðaríkri einkunnaafhendingu um vorið. Strákarnir reisa kofabyggð með vinum sínum og halda þar skemmtun með margvíslegum atriðum en stuttu síðar brennur kofabyggðin til grunna og bendir ýmislegt til að bruninn hafi verið af mannavöldum. Ein helsta vísbendingin er að áður hafði horfið úr einum kofanna útlensk gauksklukka úr plasti („Þessi klukka er talin til mestu gersema sem til landsins hafa verið fluttar“).

Kofabyggðin í máli og myndum
Í kjölfarið fylgir æsilegt uppgjör strákahópsins við erkióvin sinn, óskaverkefni frúnna í barnaverndarnefndinni, hinn ógurlega unglingspilt Skapta Skúlason:

„Það var ekki til það óhæfuverk sem hann hafði ekki framið:
Dýrapyntingar.
Búðaþjófnaður.
Skemmdarverk á opinberum eignum sem og eignum einstaklinga.“

Sögunni lýkur skömmu áður en skólinn byrjar aftur um haustið, að lokinni ævintýralegri afmælisveislu þar sem boðsgestir brjóta í sér tennurnar á gaddfreðnum tertum úr fyrstu frystikistu þorpsins og afmælisbarnið er rotað með hamri.

Klukkuþjófurinn klóki er semsé mikil ærslabók. Frásögnin er hröð og fyndin og strákarnir eru bæði sjarmerandi og sannfærandi persónur. Guðmundur notar hástafi af mikilli list – þetta var á þeirri tíð þegar menn kunnu enn að fara með CAPS LOCK-takkann.

Það eykur síðan mjög á skemmtigildi bókarinnar hvað myndmál og texti vinna vel saman, en bókin er myndskreytt af Gretari Reynissyni. Þetta samspil rís hæst í því ógleymanlega bragði að í kaflanum þar sem sagt er frá því þegar strákarnir handsama Skapta Skúlason að kvöldlagi og loka hann ofan í poka eru blaðsíðurnar hafðar svartar, en teikningarnar og textinn hvítur:

Sem barnungur lesandi var ég gjörsamlega heilluð af þessu uppátæki og það hefur óneitanlega veruleg áhrif á lestrarupplifunina; kvöldmyrkrið og myrkrið ofan í pokanum verður áþreifanlegt á blaðsíðunum, og ósjálfrátt á maður auðveldara með andardrátt þegar drengurinn sleppur úr pokanum og blaðsíðurnar verða aftur hvítar.

Af framansögðu er líklega augljóst hvers vegna ég varð svona æst þegar ég komst að því að Þórdís þekkti ekki bókina um klukkuþjófinn klóka – og varð öll óðamála þegar ég fór að lýsa fyrir henni svörtu blaðsíðunum og manninum sem kafnaði undir snjóskaflinum – og af hverju ég er svona áfram um að halda henni á lofti fyrir þá sem einnig gætu hafa misst af útgáfu hennar árið 1987. Ég endurlas bókina við þetta tækifæri og hló og skemmti mér engu síður en í gamla daga; Klukkuþjófurinn klóki hefur ekki tapað neinu af töfrum sínum og er tilvalið lestrarefni fyrir nýjar kynslóðir.

Talandi um nýjar kynslóðir má að endingu geta þess að Guðmundur Ólafsson er pabbi okkar eigin Sölku Guðmundsdóttur. Við Guðrún Elsa ræddum málið og vorum sammála um það að á druslubókasíðuna sárvantaði flokkinn „frábærar bækur eftir mömmu og pabba hennar Sölku“, og nú hefur fyrsta skrefið verið stigið í að bæta úr því.

Engin ummæli: