12. desember 2013

Bókin um píslirnar

Nú í haust sáum við nokkrar af skríbentum Druslubóka og doðranta um námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands um „uppáhaldsbækurnar okkar eftir íslenskar konur“. Við höfðum áður séð um árlegt jólabókanámskeið Endurmenntunar – og verðum aftur með það eftir jól – og það var virkilega skemmtilegt að sökkva sér ofan í bækurnar og fá ólík sjónarhorn annarra lesenda á þær. Ég hef aldrei verið í leshring þannig að þetta er mín fyrsta reynsla af því að ræða fagurbókmenntir á þennan skipulega hátt.

Fyrir mitt leyti stóð námskeiðið um „uppáhaldsbækurnar“ fyllilega undir nafni og ég á erfitt með að benda á neina eina bók sem mér finnst standa upp úr; þær voru flestar svo frábærar og myndaðist svo skemmtileg dýnamík á milli þeirra þegar maður las þær saman, skáldsögur, smásögur og ljóð. Ein þeirra er mér hins vegar efst í huga núna af því að hún var ein af síðustu bókunum sem við lásum, en það er Samastaður í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur.

Ég man eftir að hafa átt samræður við mann sem sagðist hugga sig við að José Saramago hefði verið kominn á gamals aldur þegar hann fór að skrifa – hann var 25 ára þegar fyrsta bókin hans kom út en sú næsta kom ekki út fyrr en þremur áratugum síðar. Það var árið 1977, sama ár og Samastaður í tilverunni kom út, en það var fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur og hún átti þá tvö ár í áttrætt. Uppistaðan í bókinni mun reyndar hafa verið skrifuð löngu fyrr, en rataði ekki á prent fyrr en Sigfús Daðason „hirti upp blöðin“, eins og Guðbergur Bergsson orðar það í inngangsorðum, og gaf þau út.
 
Samastaður í tilverunni er sérstök bók sem mér er ekki alls kostar auðvelt að staðsetja í skynjun minni á íslenskri bókmenntasögu. Öðrum þræði minnir hún á rammþjóðlegar torfkofaævisögur. Hún er að stórum hluta frásögn af lífi fátæks borgfirsks bændafólks á fyrri hluta 20. aldar – ættir eru raktar, þættir sagðir af einkennilegum mönnum, en hún sómir sér líka prýðilega við hliðina á módernískum bókum frá svipuðum tíma eins og Tómasi Jónssyni. Metsölubók. Fortíðin mætir nútímanum og Ísland umheiminum á eitthvað svo ómótstæðilegan hátt hjá Málfríði. Þótt umfjöllunin snúist mest um íslenskt (sveita)samfélag og menningu er viðmiðið alltaf allur heimurinn, heimsmenningin. Undirkafli tvö í kafla fimm heitir „Favelan Bæjarsveit“. Þegar Málfríður lýsir Þingnesi, bænum í þessari favelu sem hún ólst upp á, byrjar hún svona: „Landareignin, sem er á stærð við Capri...“

Bókin er sjálfsævisöguleg, og eins og titillinn gefur til kynna er Málfríður í einhvers konar leit að samastað í þessari tilveru. Sjálfslýsingar hennar eru við fyrstu sýn miskunnarlausar, hún lýsir sjálfri sér sem skrítinni, heimskri, sem algjörri utangarðsmanneskju, en það eru einhver ólíkindalæti í textanum, maður veit ekki hvað maður á að taka hana alvarlega. Hún lýsir samfélaginu og fólkinu vissulega utan frá, með kaldri fjarlægð, til dæmis þeim sem hótuðu að drekkja sér í ánni: „Enginn fór í ána, vætti ekki fót. En ógn var fólkið grátbólgið, þegar það kom vestanað, og horfði ég á þetta án hluttekningar, en líka án þess að kætast af eymdinni í því. Ég var hvorki vond í mér né heldur góð.“ (28) Sjálf á hún athvarf í bókum, sem bjarga henni bæði frá lífsleiðanum og því sambandsleysi sem virðist stundum hafa verið milli hennar og annars fólks.

Tryggvi Þórhallsson, hreystin uppmáluð
Lýsingar Málfríðar á gamla sveitasamfélaginu eru nöturlegar; á fátæktinni, vinnuhörkunni, sjúkdómunum, barnadauðanum, kuldanum og vosbúðinni, svo fólk koðnaði niður langt fyrir aldur fram bæði andlega og líkamlega. Hún skrifar um hinar þrúguðu íslensku konur, sem hafi „norpað hér í þessu hvumleiða landi án þess að eiga okkur nokkurn skóla að ganga í og fátt við að una nema helst karlmenn svo dáskemmtilegir sem þeir voru flestir“ (134). Bókhneigðar konur hafi allar dáið úr leiðindum „en hinar tórðu og fylla nú landið“. Málfríður skrifar að þegar Tryggvi Þórhallsson tók við prestsembættinu á Hesti, þá kornungur maður, hafi hún í fyrsta sinn á ævinni séð Íslending sem hafi tekið út allan þann vöxt sem honum var áskapað að ná.

Málfríður lætur ekki nægja að lýsa þeim áhrifum sem eymdin hafði á líkama fólks heldur lýsir hún jafnframt því vonlausa hugarfari sem hún skynjar hjá samferðafólki sínu, bælingunni og „ergelsinu“ sem fátæktin veldur: „Mér sem var innrætt það í æsku að best væri að vera ekki til, en úr því svo illa tókst til að maður varð til, væri best að basla sem mest sér til óhollustu, klæðast vondum klæðum, éta vondan mat, láta sér vera hálfillt alltaf.“ (196) Öll rómantík er fjarri Málfríði, hún er grimmilega raunsæ og oft fyndin, eins og þegar hún endursegir í afar litríkri frásögn bardaga fornmanna á Bæjarholtinu, þar sem þeir börðust með íborunarverkfærum sínum „í fjarska ófríðum mussum úr járnum og meiddu þá alla“. (62)

Lífsaðstæður Málfríðar sjálfrar voru ekki alltaf auðveldar. Tvíburabróðir hennar lést í fæðingunni og móðir hennar skömmu síðar, og faðir hennar var sinnulaus um hana eftir það. Hún ólst því upp án foreldra sinna í fóstri hjá ættingjum sínum. Hún var heilsulaus alla tíð, smitaðist ung af berklum og virðist einnig hafa þjáðst af þunglyndi. Það vottar oft fyrir ákveðinni biturð í frásögninni og ef til vill tilfinningu fyrir glötuðum tækifærum, ekki bara fyrir hennar eigin hönd heldur einnig til dæmis ömmu sinnar, sem hún harmar að hafi ekki fengið að lifa lífi sínu sem sú nútímakona sem hún var í eðli sínu.

Töfrar bókarinnar liggja ekki síst í stílnum, sem er svo safaríkur og ófyrirsjáanlegur, ljóðrænn og fyndinn og harmrænn. (Sigfús Daðason segir í minningargrein um Málfríði að hún hafi skrifað „beint áfram“, sem mér finnst sjarmerandi lýsing.) Ég held að fyrsta blaðsíðan í Samastað í tilverunni sé með allra fínustu fyrstu blaðsíðum sem ég hef lesið og af því að ég stóðst ekki mátið og skrifaði hana alla upp fyrir glærusýninguna um daginn ætla ég að nota tækifærið og birta hana hér. Textinn er skrifaður á ljóslækningastofu Finsens í Kaupmannahöfn árið 1951:

„Það hefur farið með versta móti um hjartað í mér undanfarið. Það hefur lamist lengi, og upp á síðkastið hefur verið þröngt um það í brjóstinu eins og brjóstið og hjartað eigi ekki saman lengur. Eitthvað er sem þrengir að rifjunum og í sambandi við þetta gína mér kolsvört leiðindi og hræðsla í allar áttir, stundum svo að mér verður flökurt. Nú er tími til að byrja á bókinni um píslirnar. Engin lifandi sál nærri, að heitið geti, fegurð heimsins fjarri mér, nema einhver ögn af fegurð himinsins. Það sem ég hef fyrir augum eru veggirnir, rúmin, konurnar í rúmunum, fólkið sem hefur þann leiðindastarfa með höndum að stjana við okkur, rytjulegir fuglar sem tína í sig mola af hvítabrauði til að gera sig heilsulausa, grimmilegir sjófuglar að hakka í sig kryddað ket og þykir vont, skima í kringum sig við hvern bita til að forða því að frá þeim verði hrifsað, ljótir veggir, ljót þök og afarljótur strompur, rytjulegar jurtir að deyja í leirkerum sínum. Samt er jörðin full af auði og allsnægtum, og jörðin er góð, vindar hennar og birta og fjöldamargt annað, og líklega einhverjar sálir til einhverstaðar, þó að þær séu vandfundnar og hittist helst í bókum –“.

Engin ummæli: