Sýnir færslur með efnisorðinu Málfríður Einarsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Málfríður Einarsdóttir. Sýna allar færslur

12. desember 2013

Bókin um píslirnar

Nú í haust sáum við nokkrar af skríbentum Druslubóka og doðranta um námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands um „uppáhaldsbækurnar okkar eftir íslenskar konur“. Við höfðum áður séð um árlegt jólabókanámskeið Endurmenntunar – og verðum aftur með það eftir jól – og það var virkilega skemmtilegt að sökkva sér ofan í bækurnar og fá ólík sjónarhorn annarra lesenda á þær. Ég hef aldrei verið í leshring þannig að þetta er mín fyrsta reynsla af því að ræða fagurbókmenntir á þennan skipulega hátt.

Fyrir mitt leyti stóð námskeiðið um „uppáhaldsbækurnar“ fyllilega undir nafni og ég á erfitt með að benda á neina eina bók sem mér finnst standa upp úr; þær voru flestar svo frábærar og myndaðist svo skemmtileg dýnamík á milli þeirra þegar maður las þær saman, skáldsögur, smásögur og ljóð. Ein þeirra er mér hins vegar efst í huga núna af því að hún var ein af síðustu bókunum sem við lásum, en það er Samastaður í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur.

Ég man eftir að hafa átt samræður við mann sem sagðist hugga sig við að José Saramago hefði verið kominn á gamals aldur þegar hann fór að skrifa – hann var 25 ára þegar fyrsta bókin hans kom út en sú næsta kom ekki út fyrr en þremur áratugum síðar. Það var árið 1977, sama ár og Samastaður í tilverunni kom út, en það var fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur og hún átti þá tvö ár í áttrætt. Uppistaðan í bókinni mun reyndar hafa verið skrifuð löngu fyrr, en rataði ekki á prent fyrr en Sigfús Daðason „hirti upp blöðin“, eins og Guðbergur Bergsson orðar það í inngangsorðum, og gaf þau út.