12. apríl 2014

Úrgangur draumaverksmiðjunnar


Stundum les ég eitthvað og hrópa í sífellu innra með mér „Já, einmitt það sem mér finnst“ og „Af hverju hef ég ekki áttað mig á þessu fyrr?“ Þannig voru viðbrögð mín við hinni sænsku Lyckliga i alla sina dagar. Om pengars och människors värde („Hamingjusöm alla sína tíð. Um gildi peninga og manneskju“) eftir Ninu Björk. Björk vakti mikla athygli í Svíþjóð á tíunda áratugnum með hinni femínísku ádeilubók sinni Under det rosa täcket („Undir bleikri sæng“). Lyckliga i alla sina dagar kom svo út á síðasta ári. Hún einskorðast ekki við málefni kynjanna heldur er hún gagnrýni á hina ýmsu þætti neyslu- og efnishyggjusamfélags þar sem samkeppni og eiginhagsmunagæsla ráða ríkjum.

Boðskapurinn er í grófum dráttum sá að við höfum gefið upp á bátinn hugsjónir um betra samfélag og látum okkur nægja einstaklingsmiðaða drauma sem tengjast persónulegum framgangi og aukinni neyslu. Hugsjónin um betra samfélag er hins vegar óeigingjörn, hún byggir á útópíu en ekki draumi.