Það er forvitnilegt að skoða ólíkar kápumyndir bókarinnar. |
GEB: Það brjálaða við þetta ágæta verk er náttúrulega það hversu íhaldssamt það er á sama tíma og það fjallar um eldfimt efni. Stíllinn er hámelódramatískur og hugmyndafræðilega er Radclyffe Hall ekki róttækasta skeiðin í skúffunni – fyrir utan viðfangsefnið sjálft hefði bókin í rauninni getað verið skrifuð löngu fyrr. Kristín, vilt þú varpa ljósi á viðfangsefni bókarinnar?
KST: Gjarnan, gjarnan. The Well of Loneliness fjallar um efri stéttar konu að nafni Stephen Gordon. Hún er einkabarn foreldra sinna - þau bjuggust allan tímann við strák og voru búin að ákveða að skíra hann í höfuðið á heilögum Stefáni - og elst upp á mjög svo ensku sveitasetri fjölskyldunnar á öndverðri 20. öld. Nafnið er ekki það eina sem greinir Stephen frá öðrum konum; frá því í frumbernsku, og jafnvel alveg frá því í móðurkviði, virðist hún fremur tilheyra heimi karla en kvenna. Frá sjónarhorni móður hennar, sem kann ekki alls kostar við dóttur sína, er henni lýst sem einhvers konar afbakaðri eða ófullkominni útgáfu af föður sínum.
Faðir Stephen, Sir Phillip, sem er vægast sagt upphafin persóna, gefur henni hins vegar rými til þess að vera eins og hún vill, svo hún ríður klofvega á hestum út um allar koppagrundir og klæðir sig upp sem Nelson flotaforingi til að ganga í augun á vinnukonunni. Þrátt fyrir verndarhönd föður hennar tekur Stephen það ekki út með sældinni að vera öðruvísi en hún á að vera. Eftir að hún fullorðnast og faðir hennar deyr neyðist hún til að yfirgefa hið ástsæla sveitasetur Morton. Þótt hún öðlist ákveðna velgengni í starfi, fyrst sem sjúkrabílstjóri í fyrri heimsstyrjöldinni og síðar sem skáldsagnahöfundur (á kápu bókarinnar stendur að hún sé „the thinly veiled autobiography of Radclyffe Hall“, hvort sem það nú er rétt eða ekki) setur mikil togstreita mark sitt á allt líf hennar, ástarsambönd og önnur sambönd á fullorðinsárunum.