Hrímland, fyrsta bók Alexanders Dans Vilhjálmssonar, er dystópísk fantasíu- og furðusaga sem sækir efnivið m.a. í íslenskan þjóðsagna- og menningararf. Eins og allar góðar dystópíu- og fantasíusögur hefur hún beitta samtímaskírskotun með pólitískum undirtónum, en hrímlenskt samfélag er staðsett í einhverskonar hliðarveruleika við okkar íslenska. Sögusviðið, að mestu í Reykjavík og nágrenni, er gamalkunnugt öðrum þræði en úrvinnslan um leið nýstárleg og fersk. Ég vil ekki fara náið út í sögusviðið eða -þráðinn, enda felst hluti lestraránægjunnar í að kynnast aðstæðum frá fyrstu hendi í lýsingu höfundar, en sagan er vel upp byggð, þétt og spennandi. Persónur eru margslungnar, mannlegar og sympatískar – einkum aðalpersónurnar tvær; Sæmundur óði, ungur og metnaðargjarn galdramaður og Garún, uppreisnargjörn blendingsstúlka á jaðri samfélagsins.
Alexander Dan Vilhjálmsson |
Hrímlandi var vel tekið þegar bókin kom út fyrir jólin 2014. Frumsamin tónlist Árna Bergs Zoëga, sem fylgir bókinni á geisladiski, er ómstríð og hæglátlega áleitin og hæfir sögunni vel. Þetta er í stuttu máli spennandi furðusaga sem alls konar lesendur ættu að geta haft gaman af, hvort sem þeir eru þegar aðdáendur furðusagna eða ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli