Ég lauk umfjöllun minni um Piparkökuhúsið, fyrstu bók Carin Gerhardsen, á orðunum „Ég er til í að lesa aðra bók eftir Carin! Bring it!“ (dóminn í heild má lesa hér) og ári síðar er ég komin með næstu bók í hendur. Mamma, pabbi, barn olli svo sannarlega ekki vonbrigðum. Þriggja ára stúlka lokast inni í blokkaríbúð – móðir hennar myrt og ungabarnið bróðir hennar berst fyrir lífi sínu á spítala – faðirinn í Japan. Aðrir, ekki síður hrottalegir glæpir eru framdir og spennan er í hámarki alla bókina en það er erfitt að toppa þriggja ára barn eitt að dansa við dauðann lokað inni í lítilli íbúð í stórborg. Eins og vinkona mín sagði – þetta fær þig til að íhuga alvarlega að skrúfa allar hurðir af hjörunum heima hjá þér.
Þessa bók kláraði ég þrjú um nótt – og vart þarf að taka fram að ég lagði ekki kollinn mjúklega á koddann og sveif inn í draumalandið með friðsælan svip. Ég veit ekki einu sinni hvenær ég sofnaði – en þá var ég bæði búin að lesa nokkra kafla í Shakespeare's Local (sexhundruð ára saga kráar sem Shakespeare vandi komur sínar á og ljómandi dæmi um bók sem ekki heldur fyrir manni vöku) og leysa tvær krossgátur. Með öðrum orðum er Mamma, pabbi, barn gríðarlega spennandi reyfari en eins og sá síðasti sem ég las ekki fyrir viðkvæmar sálir – og skyldi ekki lesinn seint að kvöldi.
Carin Gerhardsen var stærðfræðingur áður en hún sneri sér að skrifum og samkvæmt wikipediu og fleiri síðum má greina talnakunnáttu hennar við lestur bókanna – en eins og þegar ég las fyrri bók hennar fann ég lítið fyrir því. Mögulega er ég hreinlega ekki nógu talnaglögg til að nema þetta. Hins vegar er Carin ansi flink í að halda mörgum þráðum á lofti í einu og þótt bókin hverfist um tvö stór glæpamál þá eru önnur dularfull mál sem teygja sig yfir allan bókaflokkinn (sem telur átta bækur) sem tengjast lögreglufólkinu persónulega og eru ekki síður æsispennandi. Í Mamma, pabbi, barn hittum við aftur lögreglufólkið á Hammarbystöðinni í suðurhluta Stokkhólms og sem fyrr eru persónurnar fjölbreytilegar og skemmtilegar. Sjöberg, Sandén, Petra og Jamal eru upp til hópa almennilegir og hæfir starfsmenn – ekki þunglynd eða drykkfelld, ekki í ruglinu – nema þá bara þessu venjulega, hversdagslega fjölskyldurugli sem allir standa í. Að því sögðu þá eru greinilega einhverjir draugar í fortíð Connie Sjöberg sem lesendur fá væntanlega meira að heyra um næstu bókum. En þetta eru trúverðugar persónur- þau eru ekki snillingar eða ofurhetjur – þau eru vinnusöm og dugleg og stundum heppin – en stundum óheppin líka. Lesandinn veit iðullega meira en rannsóknarteymið og fær því að naga á sér handabökin svikalaust þegar þau eyða tíma í vísbendingar sem ekki leiða neitt á meðan klukkan tifar og líf hanga á bláþræði. Þetta er vel gert hjá Carin og henni tekst að hámarka spennuna.
Það eru dálítið margar persónur í bókinni og í mestu spennuköflunum – þegar ég las kannski örlítið of hratt - kom fyrir að ég ruglaði persónum aðeins saman. Mögulega spilar þarna líka inn í að persónur eru til skiptis nefndar eftir eiginnafni og eftirnafni; t.d. væri talað um að Petra sæti á skrifstofunni sinni en svo á næstu blaðsíðu er það Westman sem svarar áhyggjufull í símann. Á sama tíma eltir Jamal hættulegan glæpamann um götur Stokkhólms en það er svo Hamad sem nær honum við strætóskýlið. (Þetta eru ekki raunveruleg dæmi - heldur lýsandi). Í því fjölmenna lögregluliði sem Hammbarbystöðin hefur yfir að ráða getur þetta orðið dálítið flókið. Ef ég á að vera smámunasöm þá velti ég líka fyrir mér föður stúlkunnar sem læstist inni í upphafi frásagnar. Samkvæmt bókinni er hann í Japan en svo líða einhverjir dagar og mín (nærtæka) reynsla af föður sem er í Japan meðan veikindi herja á ungabarn og þreytt móðir reynir að halda heimilinu saman er ekki sú að ekkert heyrist í honum í marga daga. Kannski er hér verið að draga upp mynd af fjarlægum, kaldlyndum föður en það litla sem sagt er um hann bendir ekki til slíks. En þetta er nú svo sem tittlingaskítur og ekki raunverulegur galli á bókinni.
Eins og áður sagði eru mörg mál í gangi og þótt stóru glæpirnir séu leystir er mörgum spurningum ósvarað í bókarlok og óhætt að segja að sagan endi á sannkölluðum „cliffhanger“ (er til gott íslenskt orð yfir það? Á ystu nöf?). Svoleiðis endalok hugnast ekki öllum – sérstaklega ekki fólki sem sér fram á að þurfa að bíða til næsta sumars eftir framhaldinu. Það eru eins og áður sagði komnar átta sögur í flokknum svo nú má útgefandi spýta í lófana og henda í fleiri! Nema maður taki sig saman í andlitinu og lufsist til að fara að lesa sænsku?
Þar sem ég hef nú lesið þrjá reyfara í röð þar sem glæpirnir beinast gegn börnum spyr ég sjálfa mig hvort hér séu komin skil í skandinavískum glæpasögum – hvort mansal og ofbeldi gegn konum (sem var ráðandi fyrir nokkrum árum) sé orðið þreytt og hvort nú sé ekkert almennilega krassandi nema börnum sé misþyrmt og þau drepin? Carin Gerhardsen til varnar þá virðist hún nú ekki vera að draga fram börnin til þess eins að níðast á þeim – þótt þau verði fyrir barðinu á skelfilegum glæpamönnum eða ófyrirgefanlegri vanrækslu þá er henni sjónarhorn barnsins greinilega hugleikið og hún sýnir oft heilmikla næmni í að draga það fram. Í fyrri bókinni, Piparkökuhúsinu, skoðaði hún grimmd barna og áhrif eineltis á börn og byggði það að eigin sögn á persónulegri reynslu. Hér skoðar hún annars vegar hugarheim þriggja ára gamallar stúlku sem verður vissulega fórnarlamb aðstæðna en reynist úrræðagóð og dugleg í aðstæðum sem ekkert barn ætti að lenda í. Hins vegar beinir hún sjónum að tveimur unglingsstúlkum frá óregluheimili og þar tekst henni líka ágætlega að draga upp sannfærandi mynd af baráttu manneskjunnar (þótt ekki sé hún há í loftinu) fyrir eigin tilveru. Mögulega má því færa rök fyrir því að aðstæður barna í óbærilegum aðstæðum séu Gerhardsen hugleiknar – en ekki af því það sé nýjasta trendið og með sláandi heldur af því þar hefur hún eitthvað fram að færa.
Sumri hallar, hausta fer - en ef einhver á eins og eina sumarbústaðaferð eftir þá mæli ég hiklaust með Mamma, pabbi, barn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli