14. nóvember 2015

Münchenarblús: Þórdís og Kristín Svava spjalla um skáldævisöguna Sjóveikur í München

Hallgrímur Helgason hefur söðlað
um síðan hann gagnrýndi svo harðlega
hið eintóna misgengi jazz-músíkurinnar
sem náði dáleiðandi heljartökum á fjöldanum.
KST: Jæja, Þórdís, þá höfum við tekið okkur fyrir hendur að blogga um bók sem hlýtur að vera sú umtalaðasta í jólabókaflóðinu so far, Sjóveikur í München eftir (ekki dr.) Hallgrím Helgason - sjálfsævisögulega bók um einn vetur í lífi höfundarins, þegar hann var við listnám í München 1981-1982. Og þú búin að tala um hana í útvarpið og allt. Hvaða ægilegi æsingur er þetta?

ÞG: Já, maður spyr sig! Ég ímynda mér að margir höfundar sem eiga bækur sem mara í hálfu kafi eða virðast vera að sökkva til botns í jólabókaflóðinu séu afbrýðisamir yfir að þessi bók hafi verið bók vikunnar þegar hún var bara rétt komin út. En Hallgrímur er auðvitað einn helsti höfundur Íslands í dag. Hann hefur skrifað verk sem hafa orðið klassík um leið og koma jafnvel út samtímis á Íslandi og í útlöndum (Sjóveikur í München er komin út í Þýskalandi), en svo er hann líka býsna umdeildur höfundur. Ég hef að minnsta kosti tekið eftir að allir sem á annað borð hafa bókmenntaáhuga hafa skoðun á honum. Nú og svo kom margumrædda innleggið frá skáldinu úr Grindavík og í kjölfarið status frá háfleygum bókmenntamanni um mögulegan dauða fagurfræðinnar, við komum nú aðeins inn á það í spjallinu í bók vikunnar á RÚV um daginn.

KST: Já, ég verð að taka undir það sem þú sagðir þar, að það sé nokkuð djúpt í árinni tekið að fagurfræðin sé dauð þótt fólk sé ekki til í að samþykkja að skrif Guðbergs Bergssonar á DV.is séu einhvers konar helsúrt en hárbeitt konseptlistaverk - hann sé jú að „vinna með rausið“. Ég trúi því varla að þeir sem saka Hallgrím um að vera að hoppa á einhvern undarlegan vinsældavagn með því að skrifa um kynferðisofbeldið sem hann varð fyrir þennan vetur séu búnir að lesa bókina - þessari umtöluðu nauðgun er lýst á einni blaðsíðu af 325 og þótt þetta sé áhrifaríkur og mikilvægur þáttur í frásögninni fer því fjarri að höfundurinn sé eitthvað að velta lesendum upp úr ofbeldinu né einu sinni að úttala sig neitt sérstaklega um það. Umfjöllun fjölmiðla stýrist náttúrulega oft af vænlegum klikkbeitum og það getur vissulega verið óþolandi og yfirborðskennt en mér finnst mjög ómaklegt að gera ráð fyrir því að höfundurinn hljóti þar af leiðandi að vera haldinn athyglissýki á háu stigi. Það verður að vera hægt að skrifa um kynferðisofbeldi í bókmenntum rétt eins og aðra lífreynslu, hvort sem um er að ræða ævisöguleg skrif eða ekki, án þess að melódramatískar tilhneigingar fjölmiðla (sem DV, svona sem dæmi, hefur aldeilis ekki verið laust við gegnum tíðina) stýri viðtökum þeirra. 

Mér finnst reyndar líka ólíklegt að Guðbergur Bergsson hafi verið búinn að lesa Sjóveikur í München þegar hann skrifaði fyrrnefndan pistil - ég held að ekki einu sinni þessi vieillard terrible sé svo laus við hégóma - því Hallgrímur fer þar mjög fögrum orðum um verk hans og stillir þeim raunar upp sem andstæðu þess húmors- og andlausa karlakúltúrs sem hafi verið ríkjandi. Og hér erum við á 21. öldinni og höfundur Tómasar Jónssonar virðist leggja allan metnað í að halda uppi merkjum ársins 1981 í samfélagsumræðunni. Svona fara hlutirnir í hringi, maður verður bara sjóveikur í Reykjavík. 

ÞG: Guðbergur var örugglega ekki búinn að lesa. Hann veit sennilega ekki enn að ein sympatískasta kvenpersóna bókar Hallgríms er einmitt skemmtileg því hún rifjar upp kafla úr Tómasi Jónssyni Ungum Manni til skemmtunar. En varðandi andlausan karlakúltúr níunda áratugarins þá man ég hann svo sannarlega, jafnvel betur en ég kæri mig um.

Hallgrímur Helgason og Einar Benediktsson hafa nýlega
leitt saman hesta sína í framleiðslu vinsælla T-bola.
KST: Bækur Hallgríms hafa höfðað mjög mismikið til mín í gegnum tíðina. Ég veit að við erum til dæmis báðar gríðarlegir aðdáendur Þetta er allt að koma - og höfum í hyggju að gefa sem fyrst út ljóðasafnið Ógeð hugsana vorra, til heiðurs ljóðskáldinu Gíxla sem þar kom nokkuð við sögu. Mér hefur hingað til fundist hinn sniðugi og orðmargi orðaleikjastíll Hallgríms, sem er ekki mjög svona afslappaður eða blátt áfram, virka best þegar höfundurinn hefur fjarlæga og jafnvel kaldhæðnislega afstöðu til viðfangsefnisins, en verða próblematískari þegar umfjöllunarefnið er viðkvæmara og á að vera meiri nánd við persónurnar, þá finnst mér stíllinn stundum verða of stórkarlalegur fyrir efnið.

En mér finnst annar tónn og önnur stemmning í þessari bók en öðrum bókum sem ég hef lesið eftir Hallgrím og nándin við Ungan Mann mjög sannfærandi. Kannski er það af því að hann er að skrifa um sjálfan sig, ég veit það ekki. Ungur Maður er krítískur og kaldhæðinn gagnvart umhverfinu en samt er hann svo órólegur í sjálfum sér og þetta er eitthvað svo miklu sannari lýsing á þessum ungdómsárum sem er alltaf verið að upphefja: „Ó, hvað það er vont að vera ungur!“ Allt þetta stórkostlega vonleysi og misheppnuðu áform - að ætla til Berlínar en enda í München (þvílík örlög!), að reyna af veikum mætti að eignast einhvers konar ástalíf en klúðra því alltaf, að vera ungur og eiga samkvæmt öllum hefðum að vera að skemmta sér en eyða laugardagskvöldunum í staðinn starandi á vegginn uppi í rúmi eða á einhverjum fáránlega þýskum krám á Stammtisch með uppskrúfuðum íslenskum dólgabesserwisserum sem hljóta að vera mest óþolandi skáldsögupersónur síðari ára. Ég hefði ekki ímyndað mér það að óreyndu að ég ætti eftir að lesa bók eftir Hallgrím sem mér þætti (í jákvæðum skilningi) bæði sorgleg og angurvær en þessi bók er það.

Þetta ólöglega afrit af blaðsíðunni
ómótstæðilegu um listrónann gerði KST og
deildi með ÞG og öðrum félögum
Druslubóka og doðranta á samskiptamiðlum.
Já, sue me!
ÞG: Ég segi það sama og þú, bækur Hallgríms hafa sumar ekki náð til mín en aðrar eru í miklu uppáhaldi. Mér finnst honum oft takast frábærlega að lýsa tíðaranda, finna einhverja núansa á tímanum sem hann lýsir sem hitta beint í mark. Og svo kann hann að skapa einstaklega eftirminnilegar aukapersónur. Kaldhæðni og frumlegir orðaleikir eru líka mínir tebollar og svo höfðar líklega orðmargur stíll oft til mín. Mér finnst „meitlaður texti“ ekkert endilega betri en agressívt málæði, svona ef málæðið er skemmtilegt og frumlegt og vel skrifað. Hallgrímur hefur ákveðna og oft ágenga höfundarrödd, sem nær oft mjög vel til mín. En já, þessi bók er einmitt töluvert öðruvísi en til dæmis Þetta er allt að koma, sem gerist að hluta á sama tíma, Sjóveikisbókin er fókuseraðri og þéttari. Já og blúsaðri.

KST: Nákvæmlega, það er gott orð. Münchenarblús.

ÞG: En hann er samt voða „vondur“ við sumar persónurnar alveg eins og í Þetta er allt að koma. Það eru ansi margir drepleiðinlegir gaurar þarna sem fá illa útreið. Ég er samt ekkert að segja að ég sé að vorkenna þessum hrokagikkjum.

KST: Já, það eru örugglega skiptar skoðanir um réttmæti þess, þótt hann nafngreini svo sem engan. Hallgrímur er náttúrulega frekar blygðunarlaus höfundur. En svo er það líka þessi kaldastríðslega afstaða ungdómsins, hlutirnir eru annað hvort stórkostlegir eða ömurlegir.

Myndin tengist efni
greinarinnar ekki beint.
ÞG: Já, og þar nær Hallgrímur einmitt að láta tímabil sögunnar og einkenni unglingsáranna spegla hvort annað. Mér fannst nú á vissan hátt þægilegt að vera unglingur á níunda áratugnum, þó að ýmislegt á þessum tíma hafi verið frekar skelfilegt. Á menntaskólaárum er maður að reyna að ákveða hvað manni á að finnast, hvað er rétt og hvað rangt, og það var býsna auðvelt á þessum tíma. Fólk rann auðveldlega inn á einhverja hardkor línu. Menn lásu dagblöð og bækur eftir flokkslínum, hlustuðu á tónlist eftir flokkslínum, sóttu skemmtistaði eftir flokkslínum og klæddu sig eftir flokkslínum. Svo sannarlega rúðustrikað og gat verið ansi lítið gefandi, en ég „sakna" samt einhvers frá þessum tíma. Mér fannst margt fínt að gerast þarna sem Ungur Maður tók ekki eftir eða kunni ekki að meta. Ýmislegt gott var að fæðast í tónlist og öðru listalífi og pólitísk umræða og menningarumræða á þessu tímabili fannst mér oft dýpri og meira gefandi en yfirborðslegt þrasið eða upphróparnirnar sem maður heyrir oft í dag.

KST: Ein af þeim sem eru að gefa út sjálfsævisögulegar bækur núna í haust er Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sem hefur áður skrifað um ömmu sína í Stúlka með fingur og mömmu sína í Stúlka með maga og skrifar nú um sjálfa sig í Stúlka með höfuð, sem ég hlakka til að lesa. Hingað til hef ég ekki séð Stúlku með höfuð nefnda til sögunnar sem hluta af því „játningabókaflóði“ sem sumir vilja meina að standi nú yfir, og þó hefur Þórunn beinlínis talað um skriftahefðir og tjáningarþerapíu í samhengi við bókina. Þórunn leggur líka áherslu á mikilvægi hinna líkamlegu og tilfinningalegu þátta ævisögunnar, eða svo ég vitni í hana sjálfa: „það er engin leið að greina mannskepnuna með öllum göllum, sársauka og rugli öðruvísi en að þekkja dýrið berrassað og gangast við því“ - en eins og Friðrika Benónýs nefnir í tilvitnuðu viðtali leggja karlhöfundar iðulega meira pláss í sínum endurminningum undir umræðu um vitræna áhrifavalda sína og grundvöll (og sporna þannig við dauða fagurfræðinnar, geri ég ráð fyrir).

Á höfundakvöldi í Gunnarshúsi í síðustu viku benti spyrillinn, Soffía Auður Birgisdóttir, á að titillinn á bók Þórunnar - Stúlka með höfuð - bæri vott um ákveðna ögrun við þessa tvíhyggju, og ég velti fyrir mér hvort það eigi ekki líka við um sjóveikisöguna hans Hallgríms. Hann er að segja söguna af því hvernig hann verður til sem listamaður, hvernig hann reynir að staðsetja sig meðal hugsandi og skapandi fólks, liggjandi yfir Duchamp á bókasafninu og veltandi fyrir sér hugmyndalegum grundvelli listarinnar, en þessi listræna og vitsmunalega leit Ungs Manns er alltaf nátengd líkamlegu og tilfinningalegu ástandi hans og hvort hefur áhrif á hitt. Er það þess vegna sem sumir vilja tala um bókina í neikvæðum tóni sem játningabókmenntir - er hún of líkamleg, of tilfinningaleg, of kvenleg? Og kannski er það þess vegna sem ég tengi meira við Ungan Mann og hans pínlega bras allt saman en margar hefðbundnari endurminningar karlkyns listamanna um ungdómsár sín, þar sem maður hefur alltaf á tilfinningunni að verið sé að þegja um eitthvað sem ekki þyki nógu fínt til að vera hluti af sjálfi Listamannsins.

2 ummæli:

Kristín sagði...

Ó, hvað það er gaman að lesa þetta. Ég ætla að lesa þetta aftur á morgun.

Nafnlaus sagði...

Sammála, æði skemmtilegt, það á greinilega að spjalla bækur en ekki rýna í þær eins og geirfugl.