6. apríl 2016

Að nýta alla orkuna sem hjartasárin framleiða: Viðtal við Eydísi Blöndal

í gamla daga
horfði fólk á tunglið
um stjörnubjartar nætur
og hugsaði
„kannski ert þú að horfa á það líka“

í dag
horfi ég á græna punktinn
hjá nafninu þínu
og hugsa
„kannski ert þú að horfa á hann líka“

Í október síðastliðnum fjölluðu Druslubækur og doðrantar um fyrstu ljóðabók Eydísar Blöndal, Tíst og bast, sem þá var nýkomin út, en í henni er meðal annars að finna ljóðið hér á undan, harmleikur á snjallsímaöld, nr. 2. Tíst og bast hlaut þó nokkra athygli, mokseldist á ljóðabókamælikvarða og var prentuð þrisvar, enda skemmtileg bók með Reykjavíkurljóðum úr samtímanum sem ættu að höfða til margra. Eydís Blöndal er næsti viðmælandi ljóðskáldaviðtalaseríu D&D.

Hæ, Eydís, takk fyrir að koma í viðtal! Tístið í Tíst og bast er vísun í tíst eins og í Twitter, ekki satt? Má kannski líta á 140 slög sem sjálfstætt ljóðform? Ef já, af hverju að gefa út bók – er hin efnislega útgefna bók ennþá lifandi sem form? 

Hæ, Kristín! Virkilega góð spurning. Mörg ljóðanna sem ég birti í bókinni voru ekki að líta dagsins ljós í fyrsta skiptið, heldur hafði ég tweetað þeim áður. En það var í raun þegar ég birti ljóðin á Twitter sem fólk – bæði vinir og ókunnugir – fóru að hvetja mig til þess að gefa þau út. Annars hefði það aldrei hvarflað að mér. Þá hugsaði ég einmitt: „Af hverju ég ætti að gefa þetta út, af hverju er ekki nóg að hafa þetta á Twitter?“ En eftir að hugmyndin kviknaði þá gat ég ekki slökkt á henni. Bókin er vissulega full af ljóðum sem áður voru tíst, en hún er líka full af ljóðum sem ég hefði ekki fyrir mitt litla líf viljað birta á Twitter. Mögulega vegna þess að á internetinu birtir allt fólk óneitanlega bara vissa hlið af sjálfu sér, þar sem allt er í toppstandi. Svo ég ákvað að ég vildi snúa pinku upp á þetta og gefa út bók þar sem ég er alltaf með þessa grín-grímu, þótt ég sé að skrifa um eitthvað sem ætti aldrei heima í þessum grín-veruleika.

Nú eru bæði tíst og lengri ljóð í bókinni (bast?), bæði ljóð sem skipt er í línur eftir hrynjandi og prósaljóð sem oft eru mjög talmálsleg. Hvernig hugsarðu þessar ólíku gerðir ljóða? Hvað stýrir því hvernig ljóðin verða á endanum? 

Titillinn vísar til þess að ljóðin eru öll á tvist og bast, flakka á milli viðfangsefna, tilfinninga og ljóðagerða. Ég hef aldrei sett mig í neinar stellingar þegar ég skrifa ljóð, heldur skrifa ég þau bara þegar þau poppa upp í hausnum á mér og loka svo bókinni, án þess að fínpússa þau neitt frekar. Það er minn stærsti kostur og galli, vil ég meina. Margt af því sem er í bókinni er eitthvað sem ég skrifaði í tölvupósti seint um nótt eftir djammið, eitthvað sem ég hripaði niður í símann minn í strætó eða sagði við vinkonu mína á kaffihúsi. Ætlunin var aldrei að gefa út bók þar sem hvert einasta orð væri vel ígrundað, heldur vildi ég að tilfinningarnar sem fylgja því að vera ég – og aðrar konur á þrítugsaldri í Reykjavík – fengju að skína í gegn. Og mér heyrist á flestum að það hafi tekist nokkuð vel.

Mér hefur oft fundist að þess sjái óeðlilega lítil merki í samtímaskáldskap, bæði ljóðum og prósa, hvað við lifum ótrúlega stóran hluta tilveru okkar á netinu. Það á ekki við um þína ljóðabók það er ekki bara vísun í samskiptamiðil í titlinum heldur horfir ljóðmælandi „á græna punktinn / hjá nafninu þínu“ eins og fólk horfði á tunglið í gamla daga í harmleik á snjallsímaöld, nr. 2, og svo framvegis. Finnst þér mikilvægt að hefja ljóðtextann ekki upp á stall, að rómantísera hann ekki, að tala inn í samtímann með öllu sínu, eða kemur það bara ósjálfrátt? 

Tíst og bast-faraldurinn. Mynd tekin af Twitter.
Ég vildi einmitt að þessi bók myndi algjörlega grípa þennan veruleika sem við verjum stóru hluta dagsins á. Ég auglýsti bókina bara í gegnum Facebook og Twitter og talaði reglulega um hana á Snapchattinu mínu. Þaðan spurðist hún út. Mig langaði þannig að sannreyna kraftinn sem felst í samfélagsmiðlum. Ég vil meina að hefðbundnar auglýsingar séu úreltar og virki ekki jafn vel og auglýsingar sem koma frá einstaklingum. Fólk er mikið tilbúnara til að treysta einhverri manneskju á internetinu sem segir þeim að einhver pizza sé góð frekar en auglýsingu frá pizzastaðnum sjálfum í útvarpinu. Mörg fyrirtæki hafa fattað þetta, og nýta sér samfélagsmiðla til þess að auglýsa. Það sem skiptir mestu máli til að ná vinsældum á internetinu er að skapa sér einhvern karakter, hvort sem þú ert fyrirtæki eða einstaklingur. Svo er líka mjög algengt að fyrirtæki nýti sér vinsældir einstaklinga og fái viðkomandi til að auglýsa fyrir sig, gegn því að þau fái vöruna fría eða fái jafnvel greitt fyrir auglýsinguna.

Það er líka Dominosljóð í bókinni þinni með lógó og öllu (við höfum greinilega mjög svipaðan smekk á pitsum). Var þetta listrænt auglýsingaframlag eða fékkstu eitthvað í staðinn? Peninga eða pitsur? 

Já, ég seldi þeim auglýsingu í bókinni minni, líkt og tímarit selja auglýsingapláss. Það var þrennt sem ég vildi ná fram með Dominos-auglýsingunni. Í fyrsta lagi vildi ég grípa þennan tíðaranda; unga ljóðskáldið er á fullu að skrifa ljóðabók, en tekur sér svo pásu þar sem það pantar sér eitt þriðjudagstilboð. Í öðru lagi var það þetta fyrirbæri sem ég talaði um áðan, að einstaklingar sjái um auglýsingar fyrir fyrirtæki. En í seinasta lagi var þetta náttúrulega ádeila á það hvernig ljóðabissnessinn er. Ég, sem ungt, óþekkt ljóðskáld að gefa út fyrstu bók, lét mér ekki detta það í hug að senda handritið mitt á stóru forlögin, og einhvernveginn þurfti ég nú að fjármagna útgáfuna – mögulega á kostnað heilagleika ljóðlistarinnar.

Finnst þér þessi samruni bissnissins og ljóðlistarinnar, fyrirtækja og einstaklinga, ekkert próblematískur? Er ljóðskáldið bara brand? Skiptir það einhverju máli? 

Það er vissulega varhugavert, og mikilvægt að staldra við og setja spurningamerki við það. En á meðan listin er eitthvað algjörlega sérstætt, þá er listin á sama tíma líka tól til að endurspegla samfélagið og tíðarandann, og það var einmitt það sem ég vildi ná fram með auglýsingunni.

Ég skrifaði um ljóðabókina þína hérna á druslubókavefnum og af því að ég kvartaði yfir því hvað það væri mikið af ástarljóðum í bókinni verð ég að spyrja: Af hverju ást? Er það af því að hún er svo fyrirferðarmikil í lífinu eða af því að ljóðformið sérstaklega kallar á hana?

Ég held að það sé ekki ljóðformið sem kalli á ástina, heldur ástin sem kalli á ljóðið. Ástin – eða ástarleysið öllu að heldur – ýtir á rofa í fólki sem opnar fyrir þetta ljóðræna í þeim. Ég hef séð hið gráasta fólk spýta úr sér regnbogum þegar það er í ástarsorg. Allt í einu verður allt táknrænt. Svo er biturð líka svona helvíti góður efniviður í ljóðasmíð, og biturðin fylgir oft ástarsorg. Og ég tel að það sé um að gera að nýta alla þessa orku sem hjartasárin framleiða.

Ég held að við eigum það sameiginlegt að hafa báðar gefið út fyrstu ljóðabókina 21 árs, passar það ekki? Þeir sem voru virkir í ljóðasenunni þegar ég gaf út mína fyrstu bók voru allir að minnsta kosti tveimur, þremur, fjórum árum eldri en ég, þannig að lengi vel var ég vön því að vera alltaf yngst á upplestrum, en það hefur sem betur fer breyst og nú er fullt af fólki um og upp úr tvítugu að lesa upp og gefa út bækur. Upplifir þú þig sem hluta af einhverri kynslóð eða hópi í íslenskri ljóðagerð? Finnst þér vera eitthvað einkennandi fyrir þá sem eru að skrifa á þínum aldri og þá sem eru eldri?

Í vor, þegar ég skrifaði bókina, þekkti ég ekkert fólk í þessum bransa. Ég hafði aldrei tekið þátt í umræðu um ljóðagerð eða útgáfur, hafði aldrei mætt á ljóðaupplestur og aldrei pælt neitt sérstaklega í þessu. Ég æddi sem sagt blind út í þennan bisness, og það var ekki fyrr en ég var orðin eitthvað vinsæl sem ég fór að kynnast fólki og sá hvað þetta er stór og áhugaverður heimur. Það er svo ótrúlega margt fólk að skrifa alveg brilliant ljóð, og ég vildi óska að ég hefði heyrt af þeim fyrr. Öll þau ljóðakvöld sem ég hef mætt á síðan ég gaf út bókina hafa verið svo ótrúlega fjölbreytt og mismunandi að ég myndi ekki segja að það væri eitthvað eitt „thing“ ríkjandi. En ég er nokkuð viss um að það sé mikill uppgangur. Eða kannski finnst mér það bara því ég hef aldrei orðið vör við þennan heim áður. En það er akkúrat þess vegna sem mér finnst mikilvægt að vera sem mest áberandi og aðgengileg þegar kemur að mínum störfum sem ljóðskáld, því ég vil virkja sem flesta til þess að skrifa ljóð og mæta á viðburði.

Hvernig ljóð fílar þú sjálf? Áttu þér einhver uppáhaldsskáld, íslensk eða útlensk? 

Ég fíla hispursleysi, einlægni og húmor. Og fallegar myndlíkingar og persónugervingar. En það er ekkert eitthvað eitt skáld sem ég fíla umfram önnur. Ég vil bara að ljóðin sem ég les séu „keeping it real“. Algjörlega óháð því hvort það sé Taylor Swift eða Sjón sem skrifar þau.

Heldurðu áfram að skrifa? Er önnur bók í pípunum? 

Það er mér svo ótrúlega eðlislægt að skrifa að ég sé ekki fram á að hætta núna. Er að reyna að loka augunum fyrir væntingum lesandans svo ég haldi í einlægnina. Annars er ég í fimmta gír (samt í belti).

Druslubækur og doðrantar þakka Eydísi kærlega fyrir að sitja fyrir svörum og birta að lokum eitt ljóð í viðbót úr Tíst og bast, amen. nr 2. Áfram í fimmta gír!

guð gefi mér

æðruleysi
til að bera virðingu fyrir náunganum

kjark
til að hringja inn á Útvarp Sögu

og vit
til að greina þar á milli 

Engin ummæli: