30. apríl 2016

Að rannsaka það hvernig við komumst í gegnum dagana: Viðtal við Evu Rún Snorradóttur

Stundum, sérstaklega ef ég hef verið að hjálpa Dagnýju, haldið á henni, þurrkað af henni gubbið, huggað hana, er ég hrædd um að verða skrumskæling á þessari prúðu stúlku. Að ég missi sjónar á handritinu, eða það vanti í það kafla. Ég óttast að það sjáist í gegnum mig. Að ég líkist meira og meria Hrefnu leikfimikennara. Í skærbleikum krumpugalla og pinnaskóm, alltaf að skamma okkur fyrir að reykja, allar, líka þær sem reykja ekki, hún sjálf eitt þykkt lyktandi reykský og allir hafa séð hana, bleika klessu bak við skúrinn á skólalóðinni, reykjandi af losta. Hún býr í raðhúsunum og veit sennilega ekki hversu langt sést frá svölum blokkanna. Við nennum ekki lengur að svara henni, það vita allir að þetta er leikrit sem hún virðist þurfa að leika. Kannski var þetta hlutverk eitt sinn mikilvægt skálkaskjól fyrir hana gegn veðrum og vindum lífsins, sem hætti svo að virka, en nú kemst hún ekki út úr því.

Þetta er brot úr ljóðinu Leikritin sem við leikum úr splunkunýrri ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur, Tappi á himninum, sem kom út hjá Bjarti um síðustu helgi. Ljóðaviðtalafulltrúi Druslubóka og doðranta mætti í útgáfuhófið, fjárfesti í bókinni, las hana í einum rykk – og tók viðtal við höfundinn.

Ég var mjög glöð að sjá Tappa á himninum titlaða sem ljóðabók – það þýddi að ég gat kippt þér inn í þessa viðtalaseríu! – en það er alls ekki sjálfsögð flokkun. Þetta eru stuttir textar sem eru töluvert efnislega tengdir og hefði allt eins verið hægt að kalla örsögur, smásögur, sagnasveig, jafnvel nóvellu eða skáldsögu. Hvers vegna ljóðabók?

Sko, ég skrifaði þetta bara alveg eins og það kom til mín. Ég vissi svo ekkert hvað þetta var. Sendi þetta til útgefandans og þeim þótti þetta vera ljóðabók. Og ég var bara sátt við þá sýn. Ég vildi bara að bókin fengi rými til að vera til á sínum forsendum. Mér þykir alveg ferlegt hvað form geta verið afmarkandi og skemmt upplifunirnar og umræður á verkum. Stundum eru til dæmis alveg frábærar skáldsögur sem fá mikið umtal fyrir að vera of stuttar. Ef að sviðsverk er skráð sem leiksýning er það oft metið út frá mjög ströngum ramma, þó hann eigi alls ekki við. Ég upplifi ljóðið vera opnasta formið. Þú ferð með minnstu afmarkanirnar með þér þegar þú byrjar að lesa ljóð. Ég tala annars bara um þetta sem bók.

Fyrsta bókin þín, Heimsendir fylgir þér alla ævi, var ljóðabók sem kom út fyrir þremur árum, og það er töluverður svipur með henni og nýju bókinni – sögusviðið er í báðum bókum Breiðholtið og þú skrifar um bernsku- og unglingsár frá sjónarhorni stelpu sem hefur meiri áhuga á stelpum en strákum (og heitir, allavega í nýju bókinni, Eva). Án þess að ég vilji fara út í of ævisögulegan lestur geri ég ráð fyrir að þessar bækur séu að einhverju leyti byggðar á þinni eigin reynslu. Hvað er það við þetta efni, æskuna í Breiðholtinu, sem kallar á ljóðræna úrvinnslu? 

Já, báðar bækurnar eru byggðar á æsku minni, þessi þó meira, því mörg ljóðin í fyrri bókinni voru svona fullorðna Eva að koma aftur í hverfið. Það er eitthvað við það að sextán ár ævi þinnar hafi farið fram á afmörkuðu svæði sem þú slítur svo algjörlega tengslin við þegar þú fullorðnast. Þetta verða eitthvað svo aðskildir heimar. Allir draumar mínir fara enn fram í fortíðinni. Á stöðum sem ég hef ekki komið á í fimmtán-tuttugu ár. Mér finnst alltaf jafn ferlega merkilegt að sumar vinkonur mínar hafi bara átt sín unglingsár í Vesturbænum – á götunum sem við erum alltaf að ganga núna. Ég er stundum að spurja þær skrýtinna tilfinngatengdra spurninga út í þetta. Svo er það heteronormið, það að læra á fullorðinsárum um veröldina sem þú passaðir aldrei inn í. Það býður auðvitað uppá endalausa greiningu og úrvinnslu. Ég er agalega hrifin af eigindlegum rannsóknum og nýti þær aðferðir til dæmis mikið í vinnu í sviðslistunum, og þar er hefð fyrir því að fræðifólk geri grein fyrir sér í upphafi skýrslu um rannsóknir sínar; því hvaðan þau koma, viðhorfum, gildum, forréttindum og öðru. Það var engin hugsun hjá mér í þessum bókum að gera grein fyrir mér, en mér finnst þetta heillandi og gott að tengja þetta. Að gera grein fyrir uppruna sínum og rótum er hollt. Skoða hvað mótar þig. Skrif eru einhverskonar rannsóknir á veröldinni fyrir mér. Nú hef ég gert grein fyrir mér og get farið að rýna lengra inn í veröldina eftir það.

Þú hefur talað um að eitt ljóðanna sem átti að fara í fyrri bókina hafi gleymst og endað því í seinni bókinni, svo þar er líka tenging milli þeirra – er það leyndarmál hvaða ljóð þetta er? Var það þá einhvers konar upphafspunktur í nýju bókinni, eitthvað sem þú vannst út frá? 

Já, ég uppgötvaði á útgáfudegi fyrri bókarinnar að það vantaði eitt mitt uppáhaldsljóð. Það var ferlegt sjokk, ég vildi bara hætta við þetta. Ég fékk aðstoð við að sjá að þetta væri ekki þungamiðja heldur bara mér sjálfri ákaflega kært. En fljótlega sá ég að þetta væri frjókorn að öðru verki, það varð alveg skýrt. Svo sirka ári síðar skrifaði ég fyrst niður söguna Stjörnuþokan, sem sprettur beint úr týnda ljóðinu, og þá bunaðist öll bókin út á u.þ.b. einum mánuði. Svo var ég um tvö ár á vinna í textanum.

Í báðum bókunum kemur mikið fyrir ógnin bak við hversdaginn, það óhugnanlega sem marar undir. Mér finnst þessi myrki tónn enn sterkari í nýju bókinni, það er meiri tilvistarangist, samanber titilljóðið Það er tappi á himninum þar sem ljóðmælanda dreymir baðtappa í svörtum himni sem hún gæti einhverja nóttina tekið úr og „hvolft yfir mig öllu myrkri veraldar“. Mjög víða í bókinni eru áhrifaríkar lýsingar á „þessu tómi, þessu gegndarlausa innra víðfeðmi sem stundum gín við og þú stendur bjargarlaus gagnvart“, eins og segir í öðru ljóði. Er þetta eitthvað sem er smám saman að verða meira áberandi í skrifunum þínum, er það formið – lengri textar, meira narratív – sem ræður þessu, eða stendur þetta frekar í tengslum við þessa skýru stöðu ljóðmælandans á krossgötum bernsku og fullorðinsára, þar sem hún er að uppgötva einhverja aðra vídd í veröldinni og sjálfri sér? (Mér varð hugsað til ákveðinna kafla í Táningabók Sigurðar Pálssonar.) 

Ég er ansi hrædd um að þetta sé eitthvað sem mun fylgja mér áfram, þessi tónn. Ég er sólgin í bækur um myrkrið, dauðann, áföll og harma og er mikið að rannsaka það hvernig við komumst í gegnum dagana. Og þetta að fara inn í sársaukann. Lengri texti fannst mér bjóða uppá góða útfærslu á þessu. Það er auðveldara að gera verkið blæbrigðaríkara og hafa fleiri víddir. (Ég hef nú lesið Táningabókina, það er bara ægilega langt síðan, ég man bara að ég var mjög hrifin af henni).

Það skal samt tekið fram að bókin er ekki beinlínis þunglyndisleg og það er margt mjög fyndið í þessari erfiðu sambúð unglingsins og heimsins – eins og þegar mamman fer að tala um gildnandi mjaðmirnar á dóttur sinni yfir alla búðina þegar sú síðarnefnda er að máta buxur. Það er líka ákveðin von fólgin í lokatextanum, um að ljóðmælandi hafi allavega ekki endanlega „horfið frá sjálfri sér“, eins og hún var hrædd um að gæti gerst, heldur „fundið sig“ eða jafnvel „ákveðið sig“ (er ég farin að tala of mikið eins og inspirational poster hérna?). Og væntanlega er einmitt einhver von fólgin í því að hér er fullorðið skáld að færa unglingsangistina í orð, að vinna úr henni? Eða er angistin óaldursbundin?

Já, það er von þarna í lokin, tímabundin von. Það er gott að grípa sig tímabundið, eða að losna undan viðjum sem mér þykir þetta snúast meira um. Svo er algjörlega nauðsynlegt að týna sér aftur. Hvað er svo sem í raun að finna, við erum svo lítill fasti, og vitum svo lítið um okkur og afhverju við gerum það sem við gerum. Angistin er óaldursbundin, hún er bara lífið, verður alltaf samferða. Það var mikilvægt fyrir mig að skrifa um þessa unglingaangist, til dæmis vegna geðraskana sem komu fyrst fram hjá mér þarna og voru algjörlega falið fyrirbæri í samfélaginu, og var þar af leiðandi ómögulegt að ræða. Við þurfum að ræða meira um geðraskanir, þær eru enn í dag mjög ósýnilegar. Ég tel að það sé mikilvægt að skoða áföll og samhengi í umfjöllun um geðraskanir. Þær eru mikilvægur og spennandi gluggi inn í manneskjur, líf þeirra og fjölskyldna þeirra. Geðveikin er eins og ratleikur að einhverskonar sannleika. Það verður að hlusta vel á hana.

Á frekar stuttu tímabili hef ég lesið og séð þrjú verk sem fjalla um tilveru íslenskra unglingsstelpna á 10. áratugnum – auk bókarinnar þinnar er ég að hugsa um Hafnfirðingabrandarann eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur, en þið eruð allar fæddar 1981 eða 1982. Ljósmyndin á kápu Tappa á himninum er líka soldið næntís (eða jafnvel eldri?). Heldurðu að það séu að verða til períóðubókmenntir kvenna um 10. áratuginn – sbr. strákabækurnar alþekktu um barnæskuna á 7. áratugnum? Úr Vogunum í Breiðholt og Hafnarfjörð? 

Ég vona það, eigum við ekki bara að segja það? Við erum kynslóð sem upplifði miklar hræringar. Að upplifa komu internetsins og gsm-símans á einu bretti er nú ekkert smáræði. Og auðvitað er fagnaðarefni að bækur um reynsluheim kvenna, unglingsstúlkna séu að koma út í stórum stíl. Það er svo bara að sjá hvort að þessar bækur fái jafn mikla vigt í íslenskum bókmenntum þegar fram líða stundir. Já og myndin framan á bókinni er frá 1989, svona forskot á næntíssæluna, þetta er veisluborðið í fermingarveislu Steindórs bróður míns.

Hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? Upplifirðu þig sem hluta af eða í samræðu við einhverja kynslóð eða hóp í ljóðlist, í íslensku eða erlendu samhengi? Hvernig eða hvaða ljóðum ert þú hrifin af sjálf?

Já, ég hef verið að skrifa ljóð síðan ég var átta ára. Þá kom kennari í skólann sem var svona rosa free og lét okkur gera ljóð. Nokkrum dögum síðar gaf ég mömmu og pabba heftaða bók sem ég Hamarinn, og mjög dramatísk, sorgleg, myndskreytt ljóðabók í einriti. Fjölskyldan mín var sú eina sem vissi af ljóðaskrifunum, alveg fram að fyrri bókinni. Ég get ekki beint sagt að ég upplifi mig tilheyra neinum hópi. Ég fylgist vel með ljóðskáldunum hér heima, finnst mjög margt gott og skemmtilegt í gangi hér. En ég er aðallega að lesa annað. Ég er hrifin af fundnum ljóðum, sé ljóð allsstaðar. Miðar í lyftum og stigagöngum eru eftirlæti. Uppáhalds ljóðlínur eru meðal annars: I was sick and tired of everything when I called you last night from Glasgow – úr Abba lagi. Og frá country laginu Misery and Gin: I light a loney woman a cigarette, we start talking about what we wanna forget. Þetta veitir mér innblástur.

Þú ert einn þriggja meðlima sviðslistahópsins Kviss búmm bang og ert með gráðu í fræðum og framkvæmd frá LHÍ. Er eitthvað líkt með því að starfa í sviðslistum og að skrifa ljóð? Kviss búmm bang er „framandverkaflokkur“ og framandleikinn er einmitt áberandi þema í Tappi á himninum – ertu að fást við svipuð efni í sviðslistunum og í ljóðunum? 

Já, mér finnst það mjög líkt. Á báðum stöðum fæst ég við að skoða þennan tilbúna framreidda eðlileika. Veiða eitthvað sýnishorn uppúr honum og reiða fram. Sviðslistin og ljóðlistin eru tveir afbragðs vettvangar til að fara ofan í myrkrið innra með okkur og rannsaka það, sem og samfélagsleg myrkur. Mér hefur oft fundist við í Kviss búmm bang vera að sviðsetja ljóð. T.d. í Hótel Keflavík þegar þátttakandi dvelur einn á hótelherbergi sínu og fær skyndilega heimsókn frá þremur gömlum konum sem spurja hann látlaust risastórra spurninga um lífið og fara svo jafn skyndilega og þær komu. Eða þegar einn þátttakandi í Norm Olympics í Berlín átti að borða eftirrétt, ekki hinir og ríkja átti algjör þögn á meðan við borðið. Róma-kona í Helsinki að öskra dauðarokk í myrkri og reyk, til að hræða fólkið í salnum

Hefurðu einhverja hugmynd um í hvaða átt þú ferð næst í skriftunum – efnislega og formlega? 

Já, efnislega að minnsta kosti. Ég er að vinna í nýrri bók sem ég fékk ritlaun til að skrifa. Hún er byggð á ferð til Benidorm, þegar ég var 18 ára. Ferð sem var botninn á löngu niðurrifsskeiði og um hana hefur ekki verið rætt í fjöldamörg ár. Það sem komið er í handritið er að forminu til eins og einhverskonar blanda af báðum bókunum, en við sjáum til hvert þetta leiðir.

Druslubækur og doðrantar þakka Evu Rún kærlega fyrir spjallið og hlakka mikið til að sjá næstu bók. Í lokin birtist hér í fullri lengd ljóðið Vígslur #1 úr nýju bókinni Tappi á himninum.

Þegar Kringlan opnaði, fór ég á opnunarhátíðina með mömmu og pabba. Það sem vakti mesta undrun hjá mér var að það mátti vera á skónum inni í þessu merkilega fyrirbæri. Mamma var búin að segja mér oft frá því að bráðum væri hægt að fara í fullt af búðum inni, búðirnar væru allar innandyra. Spennandi tilhugsun að versla á sokkunum. Á opnunarhátíðinni komst ég svo að því að það var ætlast til þess að fólk væri á skónum inni. Samhengislaus að vanda, þessi veröld fullorðinna. Allar vinkonur mínar fengu að senda boðskort í fermingarveisluna sína en mamma hafði alveg út í bláinn ákveðið að ég ætti að hringja persónulega í alla gesti. Hryllilegt og óskiljanlegt.

Ég er að átta mig á því að reglurnar sem heimur fullorðinna byggist á eru álíka tilviljanakenndar og tölur í bingói. Þetta er augljóslega einhvers konar leikur en samtímis virðats reglurnar vera eins og kyndlar sem þau fálma eftir í myrkri, ringluð og óttaslegin. Það kom mér því ekki á óvart að innvígslan í þessa veröld fullorðinna væri jafn fáfengileg og innantóm og fermingarathöfnin reyndist vera. Útjöskuð og þreytt, samhengisleysið í algleymi. Og alltumlykjandi þessi undirtónn; enginn veit hvers vegna við stöndum öll hérna á spariskónum. Inngönguvígsla í heilsteypta veröld væri þýðingarmikil og stórbrotin. Margra daga persónuleg opnunarhátíð í fullorðinsár hvers og eins. Dregið yrði frá birtunni af einhverju sönnu og vitru með áhrifamikilli viðhöfn.

Ég er búin að týna öllu sem ég keypti fyrir fermingarpeningana, sem voru miðpunkturinn í þessu fúski öllu saman. Við vorum eins og kóngar í hverfinu í nokkra daga, þeytingur tvisvar, þrisvar á dag, en það leið hjá, og kannski er það hið eina sem við lærðum. En ákafir og skelfingarfullir söngvar kórsins við vígsluna munu fylgja okkur alla ævi, eins og þytur af illfyglum rétt við hnakkann á þér.

Engin ummæli: