1. júlí 2016

Hælið - hægur en óþægilegur andskoti

eins og auka persóna í Emil í Kattholti


Hinn sænski Johan Theorin er óvenjulegur reyfarahöfundur að sumu leyti. Fyrri bækur hans sem þýddar hafa verið á íslensku gerast allar á Ölandi – næst stærstu eyju Svíþjóðar - sumarleyfisstað sem er afskekktur og hálf yfirgefinn nema yfir sumarmánuðina, en þaðan á höfundur sjálfur ættir að rekja. Hér má nefna Hvarfið, Náttbál, Steinblóð og Haugbúa en um einhverjar þeirra fjalla ég hérna. (Þess má til gamans geta að eins og Mons Kallentoft gerir í spennusögum sínum sem ég fjalla m.a. um hér – þá helgar Theorin hverja bók einni árstíð. Ólíkt Kallentoft reynir hann þó ekki að búa til fimmtu árstíðina heldur finnur sér nýtt viðfang eftir fjórleikinn.) Sögusviðið í Hælinu – sem Ugla gaf út nú á dögunum – er smábær á vesturströnd Svíþjóðar.

Í glæpasögum Theorin fylgjumst við ekki með lögreglumönnum eða spæjurum af nokkru tagi heldur eru óbreyttir borgarar alltaf í aðalhlutverki. Í Ölands-bókunum stakk sama fólkið oft upp kollinum – t.d. gamli skipstjórinn Gerlof Davidsson sem var í aðalhlutverki í Hvarfinu en aukapersóna í sumum hinna bókanna - en hér eru allar persónur nýjar, enda sögusviðið nýtt. Annað sem einkennir bækur Theorin er hraðinn – eða öllu heldur skortur á honum. Þeim vindur hægt fram og hugnast sjálfsagt ekki öllum spennuþyrstum lesendum en mér finnst þó höfundurinn kunna þá list að vekja manni óhug betur en margir kollegar hans. Theorin er líka nokkuð lunkinn við að skapa sannfærandi persónur sem ekki allir reyfarahöfundar geta státað af. Í öllu falli hef ég aldrei staðið mig að því að hraðlesa Theorin. Svo er Hælið líka prýðilega þýtt af Elínu Guðmundsdóttur svo ekki þarf heldur að hlaupa yfir textann af því hann sé svo slæmur!!

Sænska kápann er hrollvekjandi!!!
Í Hælinu fylgjumst við með hinum tæplega þrítuga Jan Hauger sem hefur sótt um vinnu sem afleysingamaður á litlum leikskóla í sænskum smábæ. Þetta er þó ekki hefðbundinn leikskóli – hann stendur við Sankta Patricíu öryggishælið/fangelsið sem hýsir m.a. truflaða glæpamenn og fólk sem er hættulegt sjálfur sér/umhverfinu. Í leikskólann ganga börn þessa fólks og fá að hitta foreldra sína reglulega undir eftirliti. Rjóðrið (en svo nefnist leikskólinn) virðist í fyrstu vera notalegur og nokkuð hefðbundinn leikskóli en ekki er allt sem sýnist meðal starfsmanna og er þar söguhetjan okkar, Jan, ekki undanskilinn. Ástæður þess að hann sótti um vinnu á Rjóðrinu eru svo sannarlega ekki þær sem hann gaf upp í starfsviðtalinu og ýmislegt skuggalegt leynist í fortíð hans frá því hann vann á leikskólanum Gaupunni níu árum áður þegar lítill drengur hvarf þaðan.

Það sem gerir Hælið (sem hefur raunar undirtitilinn Sankta Psyko, en svo kalla þorpsbúar geðsjúkrahúsið) sérlega óvenjulegan reyfara er að það er komið langt fram í miðja bók áður en nokkur glæpur er framinn, engu að síður byggir Theorin upp talsvert mikla spennu með því að afhjúpa hægt og rólega fortíð Jans, sýna okkur allt sem er í gangi á leikskólanum og hælinu sjálfu og undirbyggja þann glæp sem vissulega verður framinn. Það er sérlega óþægilegt og vel til fundið að láta lesandann halda með en efast um heilindi aðalsöguhetjunnar fram á síðustu blaðsíðu og það er sá skuggi sem hvílir yfir Jan sem ýtir mest undir spennuna.

Theorin veltir fyrir sér hugtökum um heilbrigði og sjúkleika – eins og yfirlæknir á Hælinu segir Jan í starfsviðtalinu í byrjun bókarinnar: „Orð á borð við móðursjúkur, galinn og vitfirrtur...Þau eru ekki lengur ásættanleg. Hér á sjúkrahúsi Patricíu tölum við ekki einu sinni um sjúkt eða heilbrigt fólk, við tölum bara um virkt og óvirkt fólk.“ Hann lítur á Jan. „Hver er alltaf heilbrigður?““(bls. 24) Þetta eru kannski ekki brjálæðislega frumlegar pælingar - en þó ágætlega útfærðar hér. Lesandinn neyðist einmitt til að taka afstöðu til andlegs heilbrigðis persónanna – eru allir starfsmenn Rjóðursins heilbrigðir? Eru allir vistmenn hælisins geðveikir? Er starfsemi Rjóðursins brautryðjandi og til eftirbreytni – að leyfa börnum (sem sum eru afskipt af umheiminum) að halda tengslum við foreldri þrátt fyrir veikindi þess? Eða er verið að ala upp nýja kynslóð truflaðra einstaklinga? Hér tekur bókin ekki afstöðu og lesandinn sveiflast óþægilega á milli vonar og ótta. Sérstaklega er áhugavert að fylgjast með litlum dreng í rjóðrinu sem kvelur dýr – þann þráð hefði að ósekju mátt spinna mun lengra. Síðast en ekki síst brennur á okkur spurningin um hvort Jan sé hæfur til að vinna með börnum – og það er sú spurning sem gerir nánast alla kafla bókarinnar – líka þá sem lýsa skemmtilegum dögum í Rjóðrinu – óþægilega og spennandi. Theorin leggur kannski ekki alveg jafn mikið á djúpið og efni standa til en þó er eins og áður segir óþægilegum spurningum varpað fram, engin þægileg svör fást og góð uppbygging spennu. Fyrir þá sem hafa lesið hinar bækur Theorins mæli ég hiklaust með þessari og aðra hvet ég til að taka sénsinn á öðruvísi og áhugaverðum glæpasagnahöfundi.


Og fyrir þá sem eru sleipir í skandinavískunni fylgir hér í kaupæti skemmtilegt viðtal við Theorin – svona er maður ekkert nema almennilegheitin!

Engin ummæli: