Sýnir færslur með efnisorðinu Hælið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hælið. Sýna allar færslur

1. júlí 2016

Hælið - hægur en óþægilegur andskoti

eins og auka persóna í Emil í Kattholti


Hinn sænski Johan Theorin er óvenjulegur reyfarahöfundur að sumu leyti. Fyrri bækur hans sem þýddar hafa verið á íslensku gerast allar á Ölandi – næst stærstu eyju Svíþjóðar - sumarleyfisstað sem er afskekktur og hálf yfirgefinn nema yfir sumarmánuðina, en þaðan á höfundur sjálfur ættir að rekja. Hér má nefna Hvarfið, Náttbál, Steinblóð og Haugbúa en um einhverjar þeirra fjalla ég hérna. (Þess má til gamans geta að eins og Mons Kallentoft gerir í spennusögum sínum sem ég fjalla m.a. um hér – þá helgar Theorin hverja bók einni árstíð. Ólíkt Kallentoft reynir hann þó ekki að búa til fimmtu árstíðina heldur finnur sér nýtt viðfang eftir fjórleikinn.) Sögusviðið í Hælinu – sem Ugla gaf út nú á dögunum – er smábær á vesturströnd Svíþjóðar.

Í glæpasögum Theorin fylgjumst við ekki með lögreglumönnum eða spæjurum af nokkru tagi heldur eru óbreyttir borgarar alltaf í aðalhlutverki. Í Ölands-bókunum stakk sama fólkið oft upp kollinum – t.d. gamli skipstjórinn Gerlof Davidsson sem var í aðalhlutverki í Hvarfinu en aukapersóna í sumum hinna bókanna - en hér eru allar persónur nýjar, enda sögusviðið nýtt. Annað sem einkennir bækur Theorin er hraðinn – eða öllu heldur skortur á honum. Þeim vindur hægt fram og hugnast sjálfsagt ekki öllum spennuþyrstum lesendum en mér finnst þó höfundurinn kunna þá list að vekja manni óhug betur en margir kollegar hans. Theorin er líka nokkuð lunkinn við að skapa sannfærandi persónur sem ekki allir reyfarahöfundar geta státað af. Í öllu falli hef ég aldrei staðið mig að því að hraðlesa Theorin. Svo er Hælið líka prýðilega þýtt af Elínu Guðmundsdóttur svo ekki þarf heldur að hlaupa yfir textann af því hann sé svo slæmur!!