Ég lít á það sem eitt af afrekum mínum árið 2017 að hafa í fyrsta sinn á ævinni tekist að halda skrá yfir bóklestur minn. Lykillinn að því reyndist vera að skrifa svolitla umsögn um allar bækurnar og upplifun mína af þeim, sem jók á lestraránægjuna og gerði það skemmtilegra að rifja bækurnar upp eftir á. Ég gaf stjörnur eins og sannur bókmenntagagnrýnandi – en held reyndar að ég hafi þjáðst af dálítilli stjörnuverðbólgu, sérstaklega framan af, og hyggst mæta með sveðjuna reidda til höggs í lestrardagbókinni á nýju ári. (Fyrsta bókin sem ég opnaði eftir áramót, ævisaga Patriciu Highsmith eftir Andrew Wilson, sem er búin að vera mörg ár ólesin uppi í hillu, er að reynast býsna slöpp, þannig að það ætti að auðvelda mér að sýna fulla hörku strax í upphafi.)
Samkvæmt mínum útreikningum las ég fimmtíu og eina bók á árinu sem var að líða, rétt tæplega bók á viku, sem mér sýnist mun minna en hjá mörgum af lesóðum facebookvinum mínum, en mér finnst samt bara fínt. Ég taldi bækur sem ég las utan vinnu (og ég skilgreini skrif mín um íslenska klámsögu sem vinnu, þótt lítt launuð séu, og tel því ekki með bækur á borð við Kynblendingsstúlkuna frá 1970) og sem ég kláraði. Þar af voru 33 skáldsögur, tvö smásagnasöfn, tíu ljóðabækur og fimm bækur óskáldaðs efnis. Meirihluti bókanna voru eftir íslenska höfunda, eða 27 bækur, næstu þjóðlönd voru Svíþjóð, Bandaríkin og Portúgal með 4-5 bækur hvert, en það var skammarlega lítið um bækur frá löndum utan Evrópu og Bandaríkjanna – aðeins ein eftir rússneskan höfund, ein frá Chile og ein frá Suður-Kóreu. Það hallaði nokkuð á konur í höfundahópnum; 21 bók var eftir konu en 29 eftir karla.
Það hafði einhver áhrif á fjölda íslenskra höfunda og fjölda karlhöfunda að í ár ákvað ég – einnig í fyrsta sinn – að lesa allar skáldsögur tveggja höfunda, og bækur eftir þessa tvo höfunda tróna í efstu sætum yfir
uppáhaldsskáldsögurnar mínar árið 2017:
Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá 1981
Gæludýrin eftir Braga Ólafsson frá 2001