7. desember 2018
Sveinarnir, rannsóknin og miðlunartillaga mömmu
Þegar ég var lítil neitaði ég algerlega að taka þátt í því að lokka hrekkjótta karla inn í svefnherbergið mitt. Þrátt fyrir möguleika á mandarínum. Miðlunartillaga mömmu var að skórinn sem allt snérist um færi upp í glugga í stofunni og ég lokaði hurðinni vel inn til mín. Ef mamma vildi hætta á að fá einhverja leppalúða í heimsókn þá var það hennar mál. Þetta situr svo fast í mér að krakkarnir mínir hafa aldrei verið spurð að því hvort þau vilji hafa skóinn úti í glugga hjá sér. Þeir eru bara í stofunni.
Þjóðfræðingurinn Benný Sif Ísleifsdóttir tekur sitt fyrsta jólabókaflóð með áhlaupi. Hún er með tvær bækur í ár, annars vegar skáldsöguna Grímu sem hún hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir og hins vegar barnabókina Jólasveinarannsóknin sem fjallar einmitt um samviskuspurninguna um skóinn, traustið og foreldrana.
Jólasveinarannsóknin er spennandi og skemmtileg frásögn sem ætti að höfða til ungra krakka sem eru með skó úti í glugga. Henni er skipt upp í 13 kafla sem hver er mátulegur að lengd fyrir kvöldlestur þá þrettán daga sem jólasveinarnir eru á gluggunum. Og minnir þannig á klassískar jólasveinabækur eins og Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur og Búa Kristjánsson. Jólasveinarannsóknin er þó kirfilega staðsett í nútímanum og söguhetjurnar Baldur, Elías og Hjörtur notfæra sér snjalltæki þegar þeir reyna að veiða jólasveina, eitthvað sem allir á Íslandi ættu mögulega að vera búnir að tileinka sér eftir fréttir síðustu viku!
Það er stóra spurningin sem hefur brunnið á íslenskum börnum: „jólasveinar eða foreldrar?“ sem strákarnir eru að reyna að svara. Strákarnir gera sér algerlega grein fyrir því að það verður að vera óyggjandi sönnun og helst myndskeið því þá kemst maður í Krakkafréttirnar og verður frægur. Benný fléttar inn í fjöruga frásögnina umfjöllun um örugga notkun á snjalltækjum og þá sérstaklega hvort það sé í lagi að taka upp og dreifa myndum af fólki, þó að það séu jólasveinar, án þess að spyrja um leyfi. Það tekst nokkuð vel til með að opna augu ungra lesenda fyrir þessu mikilvæga málefni án þess að Benný missi niður dampinn í frásögninni, sem betur fer, því fátt er leiðigjarnara en umvandanir og puttar á lofti í barnabókum.
Það er frábært að skrifa bækur sem höfða sérstaklega til stráka og mikið hefur verið rætt um vöntunina á slíku efni. Það er nokkur galli hvað stelpur koma lítið við sögu í Jólasveinarannsókninni. Þær eru tvívíðir óþolandi bekkjarfélagar í fjarlægð og hafa ekki mikil áhrif á frásögnina fyrr en í blálokin – en koma þá sannarlega sterkar inn. Bók sem höfðar til stráka þarf samt ekki endilega að þýða bók án stelpna.
Skemmtilegar myndir eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur prýða Jólasveinarannsóknina en mér fannst samspil mynda og texta ganga vel upp og styðja hvort annað.
Nú nálgast fyrsti jólasveinninn byggðir og ég hlakka til að eiga lestrarstund með stráknum mínum og Jólasveinarannsókninni á hverju kvöldi til jóla. En fyrst munum við setja skóinn út í gluggann.
Í stofunni.
4. desember 2018
Ástir og örlög á Rue de Fleurus, Sellandsstíg og Sólvallagötu
Það er sjö stiga frost í Reykjavík og kominn sá tími að manni finnst varla birta af degi áður en myrkrið er aftur skollið á. (Þegar þetta loks birtist hefur reyndar hlýnað, svo allrar nákvæmni sé gætt, en myrkrið blífur.) Ég á að vera að skrifa fyrirlestur en hef svo litla eirð í mínum beinum, nenni varla að næra mig á öðru en mandarínum, gríp tilviljanakennt í bækur og er byrjuð á öðru bókablogginu á viku.
Ég hefði líklega ekki sett Að eilífu, ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen í jólabókabunkann (þótt hver rithöfundur með sjálfsvirðingu myndi drepa fyrir þetta skáldanafn) ef ég hefði ekki frétt út undan mér að hún fjallaði um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Um það gefur káputextinn ekkert uppi, þar eru mjög óræðar yfirlýsingar um „dimma sali bak við djúprauð flauelstjöld“, líf sem „fléttast saman“ og „mikil og afdrifarík átök“, en framan á kápunni er myndabankaleg ljósmynd af konu með samkvæmisgrímu og Eiffelturninn í baksýn; vissulega hefur Parísardvöl afgerandi áhrif á líf annarrar aðalsöguhetjunnar, en þetta segir manni ekkert um bókina. Ég segi ekki að hún hefði þurft að heita Forboðnir ávextir og líta svona út
en það má kannski eitthvað á milli vera.
Hvað um það – „mikil og afdrifarík átök“ er í sjálfu sér ekki ónákvæm lýsing, því hér er nóg af hasar og drama. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar, Elín, elst upp á Íslandi en fer ung utan að læra fatasaum, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París. Þar kynnist hún hinu ljúfa lífi, þar á meðal fyrrnefndum „dimmum sölum bak við djúprauð flauelstjöld“ þar sem karlar eru með körlum og konur með konum og hefðbundnum kynhlutverkum er ögrað (það bregður meira að segja fyrir heimboðum hjá Gertrude og Alice á Rue de Fleurus). Elín eignast kærustu en eftir nokkur vandræði í ástamálum endar hún í Aþenu, þar sem hún gengur í sýndarhjónaband með samkynhneigðum karlmanni og eignast með honum barn, áður en hún snýr aftur heim til Íslands sem einstæð móðir.
Í Reykjavík millistríðsáranna takast síðan ástir með Elínu og Þórhöllu, ungum ljósmóðurfræðinema. Meðfram saumaskapnum fer Elín að skrifa sögur og ljóð og inn í ástarsögu hennar og Þórhöllu blandast ýmsar flækjur tengdar bróður Þórhöllu, bókaútgefandanum Þórði, og skáldaferli Elínar. Saga Elínar og Þórhöllu kallast svo á við þann hluta bókarinnar sem gerist í nútímanum; Þórhalla er þá orðin háöldruð kona á elliheimili, Alexander sonur Elínar er sjálfur kominn á níræðisaldur og gruflar í sögu móður sinnar, en einnig fáum við sjónarhorn Siggu, trans konu sem vinnur á elliheimilinu þar sem Þórhalla býr og hefur gefið upp vonina um að verða prestur.
Ég hefði líklega ekki sett Að eilífu, ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen í jólabókabunkann (þótt hver rithöfundur með sjálfsvirðingu myndi drepa fyrir þetta skáldanafn) ef ég hefði ekki frétt út undan mér að hún fjallaði um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Um það gefur káputextinn ekkert uppi, þar eru mjög óræðar yfirlýsingar um „dimma sali bak við djúprauð flauelstjöld“, líf sem „fléttast saman“ og „mikil og afdrifarík átök“, en framan á kápunni er myndabankaleg ljósmynd af konu með samkvæmisgrímu og Eiffelturninn í baksýn; vissulega hefur Parísardvöl afgerandi áhrif á líf annarrar aðalsöguhetjunnar, en þetta segir manni ekkert um bókina. Ég segi ekki að hún hefði þurft að heita Forboðnir ávextir og líta svona út
en það má kannski eitthvað á milli vera.
Hvað um það – „mikil og afdrifarík átök“ er í sjálfu sér ekki ónákvæm lýsing, því hér er nóg af hasar og drama. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar, Elín, elst upp á Íslandi en fer ung utan að læra fatasaum, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París. Þar kynnist hún hinu ljúfa lífi, þar á meðal fyrrnefndum „dimmum sölum bak við djúprauð flauelstjöld“ þar sem karlar eru með körlum og konur með konum og hefðbundnum kynhlutverkum er ögrað (það bregður meira að segja fyrir heimboðum hjá Gertrude og Alice á Rue de Fleurus). Elín eignast kærustu en eftir nokkur vandræði í ástamálum endar hún í Aþenu, þar sem hún gengur í sýndarhjónaband með samkynhneigðum karlmanni og eignast með honum barn, áður en hún snýr aftur heim til Íslands sem einstæð móðir.
Í Reykjavík millistríðsáranna takast síðan ástir með Elínu og Þórhöllu, ungum ljósmóðurfræðinema. Meðfram saumaskapnum fer Elín að skrifa sögur og ljóð og inn í ástarsögu hennar og Þórhöllu blandast ýmsar flækjur tengdar bróður Þórhöllu, bókaútgefandanum Þórði, og skáldaferli Elínar. Saga Elínar og Þórhöllu kallast svo á við þann hluta bókarinnar sem gerist í nútímanum; Þórhalla er þá orðin háöldruð kona á elliheimili, Alexander sonur Elínar er sjálfur kominn á níræðisaldur og gruflar í sögu móður sinnar, en einnig fáum við sjónarhorn Siggu, trans konu sem vinnur á elliheimilinu þar sem Þórhalla býr og hefur gefið upp vonina um að verða prestur.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)