15. desember 2020

Glæpirnir leynast víða í Skólaráðgátunni!

Ráðgátubækurnar um spæjarana Lalla og Maju hafa verið aufúsugestir á mínu heimili um árabil. Mér telst svo til að Forlagið hafi gefið út einar níu bækur um Spæjarastofuna á íslensku en í Svíþjóð er fjöldi þeirra kominn á þriðja tug – sem eru góðar fréttir – því þá eigum við aðdáendur þeirra nóg inni. Svo mikill aðdáandi bókaflokksins er ég raunar að ég skrifaði fyrir þremur árum pistil á síðuna um Bakarísráðgátuna og fyrir áhugasama má lesa hann hér

Ég komst fyrst í kynni við Lalla og Maju þegar sonur minn var nýorðinn sex ára og farinn að fikra sig áfram á stundum hálli braut lestursins. Hann hefur síðan lesið allar bækurnar í flokknum og þótt hann sé nú orðinn níu ára, og bókaskápurinn hafi stækkað og vaxið samfara því, þykir honum enn gaman að rifja upp kynnin við Lalla og Maju og það þykir mér raunar líka. Þegar hann er sjanghæjaður í að lesa upphátt verða þessar bækur oft fyrir valinu, allri fjölskyldunni til ánægju sem hljóta að teljast afskaplega góð meðmæli með bókaflokknum. 

Bækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju eru léttlestrarbækur, letrið er stórt, það eru myndir á hverri síðu og kaflarnir stuttir. Hins vegar eru þær þessi sjaldséði fugl – spennandi og fyndnar léttlestrarbækur. Raunar hefur grettistaki verið lyft á síðustu árum í þessum efnum þar sem fjöldamargir frábærir barnabókahöfundar hafa skrifað stuttar og skemmtilegar bækur fyrir þennan mikilvæga markhóp sem svo lengi var vanræktur. Gagn og gaman eru sem betur fer ekki það eina sem ungir lesendur geta gripið í. En Spæjarastofan er svo sannarlega mjög framarlega meðal jafningja í þessum flokki bóka. 



Höfundarnir Martin og Helena á góðri stundu


Bækurnar eru verk hinna sænsku Martin Widmarks, sem er höfundur texta, og Helenu Willis sem myndskreytir. Myndirnar eru stórskemmtilegar og raunar er hálf sagan er sögð í gegnum þær. Fremst eru myndir af aðalpersónum hverrar bókar, lesandanum til hæginda og ánægju. Þetta eru ýktar og kómískar myndir sem gefa lesandanum vísbendingar en afvegaleiða hann líka stundum eins og raunar textinn sjálfur. Þegar Lalli og Maja fara á stúfana og reyna að upplýsa málið komast þau nefnilega yfirleitt að því að fæstir hafa verið að segja alveg satt um allt – margir líta grunsamlega út og hljóma sömuleiðis grunsamlega. En það þýðir þó ekki að þeir séu sekir um glæpi. Það geta nefnilega verið margar góðar ástæður fyrir því að fólk hegðar sér undarlega eða segir ekki alla söguna – og fæstir glæpamenn líta út eins og glæpamenn. Þeir líta bara út eins og venjulegt fólk – enda eru þeir auðvitað venjulegt fólk – sem hefur tekið rangar ákvarðanir. Við erum sannarlega ekki á lendum Enyd Blyton hér þar sem glæpamennirnir voru gjarnan útlendingar eða útlendingslegir, með grimmdarlega munnsvipi og ör (Enda búa auðvitað Widmark og Willis að því að skrifa sínar bækur hátt í hundrað árum síðar en Blyton – svo fyllstu sanngirni sé nú gætt.) Fremst í hverri bók fylgir svo líka hið ómissandi kort af Víkurbæ, en það er heimabær Lalla og Maju og vettvangur allra glæpamálanna. Fátt veit ég betra í bókum en landakort – og það skemmtilega við þennan bókaflokk er að með hverri bók stækkar bærinn – eða stærri hluti hans kemur í ljós. Síðustu ár hafa yfirleitt komið út tvær ráðgátubækur á ári og svo er einnig á þessu herrans ári 2020 en þá komu út Gullráðgátan og Skólaráðgátan, báðar í ljómandi fínni þýðingu Írisar Baldursdóttur – og báðar fá bækurnar fullt hús stiga hjá okkur. 

Í Skólaráðgátunni, sem var lesin síðast, fer skyndilega að finnast mikið magn falskra peningaseðla í umferð í bænum og böndin berast að Víkurskóla, sem bæði Lalli og Maja ganga í, en þangað var nýlega keypt einstaklega góð ljósritunarvél. Sem fyrr vinna krakkarnir skipulega, búa til lista yfir grunaða, spyrja sakleysislegra en lymskulegra spurninga og fara í mátulega hættulega rannsóknarleiðangra. Að lokum leggja þau svo gildru sem hinn seki fellur í. Sænskur bakgrunnur bókanna leynir sér ekki frekar en fyrri daginn (skemmst er að minnast Bakarísráðgátunnar þar sem glæpurinn reyndist vera skattsvik) og hér má á fyrstu síðunum finna Gerði kennara barnanna flóandi í tárum vegna þess að hún sér fram á að ellilífeyririnn muni ekki duga til þegar hún hættir að vinna. Þessum sænska boðskap er þó alltaf stillt í hóf og gefur hann iðulega kærkomið tækifæri til að útskýra og ræða aðeins hvernig samfélagið virkar – foreldrar sem ekki hyggjast lesa bækurnar með börnunum þurfa þó ekki að hafa neinar áhyggjur – sagan gengur fullkomlega upp án slíks samtals. Stærsti kostur Spjarastofubókanna er án efa sá hvað þær eru spennandi og fyndnar, bæði myndir og texti - og eins og með allar góðar afþreyingarbókmenntir má lesa þær aftur og aftur!
Vinsælir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir bókunum