
Sýnir færslur með efnisorðinu ádeila. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ádeila. Sýna allar færslur
7. apríl 2013
Í leit að fegurð - The Line of Beauty eftir Hollinghurst
Á dögunum fór ég í langferð, í tvennum skilningi, fór bæði langt og dvaldist þar lengi. Í svoleiðis ferðum gefst manni gjarnan góður tími til að lesa og mér tókst að sporðrenna heilum níu bókum á meðan á ferðalaginu stóð. Bækurnar reyndust flestar góðir ferðafélagar og fyrir konu sem hefur vanrækt blogg þetta í ógurlega langan tíma er ekki úr vegi að dúndra inn færslum um nokkrar vel valdar.
Fyrstan skal telja doðrantinn The Line of Beauty eftir Alan Hollinghurst, sem ég tók með mér einmitt vegna þess að bókin er upp á fimmhundruð síður og var þar af leiðandi líkleg til að endast dágóða hríð. Fyrir bókina hlaut Hollinghurst Booker-verðlaunin árið 2004 og henni hefur verið haldið á lofti sem einni merkustu ensku skáldsögunni frá aldamótum. Í myndaleit fyrir þessa bloggfærslu komst ég að því að árið 2006 var gerð þáttaröð á BBC eftir bókinni, sem hljómar dálítið undarlega þar eð styrkur skáldsögunnar liggur í tungumálinu og því hvernig höfundurinn sýnir okkur inn í sálarlíf Nicks Guest, en Nick er aðalpersónan og sjónarhornið bundið við hann. Mig langar að sjá þessa þáttaröð til þess aðallega að komast að því hvernig unnið var með þetta allt saman og hvort það gengur upp í sjónvarpsformi. Skáldsagan segir frá stuttu tímabili á sitt hverju árinu; fyrsti kaflinn heitir "The Love-Chord" og gerist árið 1983 skömmu eftir gríðarlegan kosningasigur breska íhaldsflokksins, "To Whom Do You Beautifully Belong?" gerist þremur árum síðar og lokakaflinn "The End of the Street" árið 1987 skömmu fyrir þingkosningar. Þegar sagan hefst er Nick tiltölulega nýorðinn gestur á heimili Fedden-fjölskyldunnar í Notting Hill-hverfinu í London. Hann hefur nýlokið námi við Oxford-háskóla ásamt dáðadrengnum Toby Fedden sem kemur úr virtri íhaldsfjölskyldu; faðirinn Gerald er þingmaður íhaldsflokksins og harður stuðningsmaður forsætisráðherrans Margaret Thatcher. Á heimilinu eru einnig Rachel Fedden, kona Geralds, sem er af gamalgróinni enskri lávarðaætt, og dóttirin Catherine sem hefur átt við geðræna erfiðleika að stríða og prófar sig áfram með ýmiss konar uppreisnir við almennt áhugaleysi foreldranna. Nick er sjálfur úr miðstéttarfjölskyldu - faðir hans er antíksali sem hefur unnið mikið fyrir efristéttarfólk - og er þannig utanaðkomandi í þessu samfélagi forréttindafólks, ríkidæmis og valds. Eftirnafnið Guest vísar greinilega til stöðu hans í Thatcher-kreðsunum á 9. áratugnum. Það er þó ekki aðeins uppruninn sem gerir það að verkum að Nick er utanveltu heldur er hann einnig samkynhneigður og er þegar sagan hefst hálfvegis kominn út úr skápnum, svona eins og í boði var árið 1983 í Bretlandi, einungis 15 árum eftir að afnumin voru lög sem gerðu kynlíf samkynhneigðra refsivert.

20. ágúst 2012
Hungurleikarnir - blóð, ofbeldi en varla kynlíf
![]() |
Sú fyrsta er best |
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)