5. nóvember 2013

Ekki þessi týpa ‒ Reykjavíkursaga eftir Björgu Magnúsdóttur

Einhverra hluta vegna kom ég að Ekki þessari týpu (2013), fyrstu bók Bjargar Magnúsdóttur fréttakonu, með þá hugmynd að um væri að ræða bókmenntir af taginu kenndu við skvísur. Kannski mér hafi skilist þetta af markaðssetningunni, nema það hafi frekar verið skærlit kápan; skreytt byggingum við Austurvöll innan í útlínum fjögurra kvenna, eða þá slangurlegur bókartitillinn. Að lestri bókarinnar loknum finnst mér hún þó allavega ekki samsvara mínum eigin hugmyndum um skvísubækur, sem eru meira í ætt við Sex and the City með tilheyrandi glamúr, gegndarlausri neyslu og einhvernveginn meiri froðu. Hér er minna af þessu öllu en meira af pólitískum pælingum, hversdagsamstri og húmor.

Ekki þessi týpa er saga af fjórum vinkonum og minnir að því leyti á aðra nýlega, íslenska skáldsögu, Korter, þar sem einnig voru raktir fjórir þræðir samhliða. Í Korter var þó um að ræða persónur sem ekki tengdust með beinum hætti í upphafi bókarinnar, en í Ekki þessari týpu eru aðalpersónurnar fjórar æskuvinkonur sem hafa haldið hópinn síðan í grunnskóla þrátt fyrir að eiga kannski ekki svo mikið sameiginlegt lengur að sumu leyti. (Mér fannst satt að segja dálítið ótrúverðugt að þær hefðu allar farið gegnum menntaskóla, háskóla og vinnustaði án þess að finna sér vini einhvers staðar á leiðinni sem þær ættu meira sammerkt með ‒ þær virðast bókstaflega enga vini eiga, varla svo mikið sem góða kunningja, nema hver aðra.) Hver kafli er sem sagt sagður út frá sjónarhorni einnar aðalpersónu, sem gefið er til kynna með nafni viðkomandi í kaflaheiti. Í undirkaflaheiti er staðsetning, yfirleitt götuheiti í borginni, og fáein orð sem gefa vísbendingu um innihald kaflans.

29. október 2013

Arne, Carlos og Maríanna prjóna litríkar lykkjur úr garðinum

Því miður er ég engin galdrakona í höndunum en hef samt mjög gaman af hannyrðum og blaða oft í bókum um slík efni mér til skemmtunar (að eignast barn og vera heima dottandi yfir sjónvarpinu öll kvöld hefur ekki dregið úr áhuga mínum). En það er misjafn sauður í mörgu fé (ullartengd orðatiltæki eiga vel við hér þykir mér) og slíkar bækur misvel heppnaðar. Um daginn rak á fjörur mínar Litríkar lykkjur úr garðinum eftir Arne og Carlos sem er nokkuð forvitnileg þó að mér sýnist hún kannski ekki endilega vera sérsniðin að mínum þörfum. Hannyrðafólk man jafnvel eftir Arne og Carlos en þeir eru heilarnir á bak við bókina Jólakúlur Arne og Carlos sem kom út fyrir síðustu jól.

Litríkar lykkjur úr garðinum er ansi lagleg að öllu leyti – hún er stór og mikið af fallegum myndum og litadýrðin gríðarleg. Hugmyndin að baki bókinni er skemmtileg – ef nokkuð sértæk. Þeir Arne og Carlos sækja innblástur í garðinn sinn sem er byggður á yfirgefinni brautarstöð í norsku fjöllunum. Það þarf því kannski ekki að undra að blóm, fiðrildi, blómálfar og slíkt koma víða við sögu. Yfirskriftin er: Heklað, prjónað og saumað út að sumarlagi (svo ég ætti kannski ekki að vera að lesa þessa bók þegar langt er liðið á október). Myndirnar eru eins og áður sagði margar, litríkar og sérlega blómlegar og þær eru ekki síður af garðinum, veröndinni og huggulegum húsbúnaði þeirra félaga – þær myndu sóma sér vel í hvers kyns „lífsstíls“ bókum og sumar æpa hreinlega á að vera instagramaðar.

Þarna má finna uppskriftir að ýmsu sniðugu og hagkvæmu eins og hitaplöttum, pottaleppum, stólsessum og tehettum – en ansi stór hluti prjónauppskriftanna eru eins konar blómálfar sem þeir hafa sérhæft sig í að prjóna – og föt á þá ... og þar verð ég að segja að leiðir okkar Arne og Carlosar skilja ... en þetta er að sjálfsögðu smekksatriði og ef prjónaðir blómálfar höfða til manns, þá er þetta stórkostleg bók!

19. október 2013

Flöskuskeyti berst til Köben

Daninn Jussi Adler-Olsen hefur oftar en einu sinni komið við sögu hér á blogginu, og þá í mínu boði enda hef ég eins og raunar fleiri druslubókaskrifarar verið afskaplega svag fyrir bókaflokki hans um Carl Mørck, Assad og Rose í deild Q í Kaupmannahafnarlögreglunni. Við erum aldeilis ekki einar um það; bækurnar hafa notið mikilla vinsælda á Norðurlöndunum og víðar, og nú um helgina er einmitt verið að frumsýna hérlendis bíómynd sem gerð er eftir fyrstu bókinni, Konunni í búrinu. Þótt ég hafi snúið dálítið upp á mig þegar ég sá þann sem á að vera Assad á plakatinu (virðist vera orðinn einhver ungur foli), og finnist sömuleiðis frekar skrítið að setja Nikolaj Lie Kaas í þetta hlutverk - frábær leikari en alltof ungur - þá er ég alveg til í að tékka á henni. Og auðvitað má alveg búa til nýjan heim fyrir aðlögun í öðru formi.
Það vill þannig til að ég var einmitt að ljúka við lestur þriðju bókarinnar í flokknum, en sú heitir Flöskuskeyti frá P og á einhvern dularfullan hátt missti ég af henni þegar hún kom út og vissi ekki af tilvist hennar fyrr en seint og um síðir, sem útskýrði ýmsar undarlegar gloppur í hinu stærra samhengi. Eins og í svo mörgum glæpasagnaflokkum fylgjast lesendur nefnilega með einkalífi rannsakendanna og auk þess er í gangi eins konar rammaplott sem tengist skotárás sem Carl lendir í ásamt tveimur félögum sínum úr lögreglunni áður en hin eiginlega frásögn hefst. Ég hef raunar kvartað yfir því áður að mér finnst Jussi skammta okkur upplýsingarnar helst til of hægt og lítið, og það sama má segja um bakgrunn Assads sem er eilífðarráðgáta. Ég vil endilega fara að fá meira að vita, enda forvitin með eindæmum!

Á fyrstu síðum bókarinnar hittum við fyrir tvo unga drengi sem haldið er í prísund á ótilgreindum stað og við undarlegar aðstæður; við vitum það eitt að líf þeirra er í hættu og að þeir hafa alist upp við stranga trúariðkun. Flöskuskeytinu sem nefnt er í titlinum skolar upp við Skotlandsstrendur; það lendir síðan fyrir tilviljun í höndum lögreglumanns og berst þannig inn á lögreglustöð í smábæ þar sem það liggur í nokkur ár áður en það rekur á fjörur Carls og félaga. Í fyrstu virðist það bæði vonlaust og tilgangslítið verkefni að ráða í þetta gamla, máða krot, en þegar maverick-gengið góða í deild Q áttar sig á alvöru málsins er ekki aftur snúið.

18. október 2013

Mín litla persóna tekur litla sopa úr brynningarskálinni

Þann 1. október síðastliðinn opnaði Borgarbókasafnið svokallað ljóðakort Reykjavíkur, sem ég hef og legið í síðan. Það er svo gaman að sjá landfræðilega legu verkanna, rifja upp gamalkunnug ljóð og kynnast nýjum. Mér finnst líka frábært að ljóðin skuli birtast manni í formi ljósmyndar af viðkomandi blaðsíðu, það gerir þau einhvern veginn áþreifanlegri á gervihnattaöld.

Meðal þess sem hefur rifjast upp fyrir mér við ljóðakortsrand mitt síðustu daga er bók sem kom út og ég las í fyrra og ætlaði reyndar að vera löngu búin að skrifa um, Litlir sopar eftir Huldar Breiðfjörð. Hún dúkkar oft upp á ljóðakortinu, enda ýmislegt reykvískt í henni. Mér líkaði bókin ágætlega þegar ég las hana fyrst en nú þegar ég hef lesið hana aftur finnst mér hún vinna æ meira á, ekki ósvipað og kápumyndin, sem mér fannst í besta falli krípí þegar ég sá hana fyrst („er hér loksins komin upprunalega kápan á Augnkúluvökva?“ hugsaði ég) en svo laukst hún allt í einu upp fyrir mér og nú finn ég til djúps samhljóms með henni.

Ég finn líka til viðkunnanlegs samhljóms með bókinni í heild og þess vegna finnst mér að á þessu fimmtudagskvöldi, þegar mín litla persóna hefur drukkið nokkra litla sopa, sé tilvalið að skrifa aðeins um þessa ágætu bók. Ég ætla ekki að hringja í auglýsendur í Bændablaðinu og ræða rúllubagga og keflavaltara, eins og sögumannsins litla persóna gerir þegar hann er búinn að fá sér nokkra litla, en mikið sem ég skemmti mér yfir símtölunum hans.

13. október 2013

Tvær finnskar konur í London

Stúdíó eftir Pekka Hiltunen er óvenjulegur reyfari að mörgu leyti – glæpur er framinn á fyrstu síðu en svo er í raun komið vel fram í hálfa bók áður en hann kemur aftur við sögu. Þess í stað fylgjumst við með grafíska hönnuðinum Liu sem er finnsk en búsett í London og hvernig vinátta hennar við aðra finnska konu, sem er í meira lagi dularfull, þróast. Þetta þýðir þó ekki að spennunni sé ýtt til hliðar á meðan því að sumu leyti er meiri spenna fólgin í sambandi kvennanna en glæpnum sjálfum eða því hver framdi hann.

Lia og Mari kynnast að því er virðist fyrir tilviljun á bar daginn sem Lia heldur upp á afmæli sitt. Þær verða fljótt nánar vinkonur og smám saman dregur Mari Liu með sér inn í líf sitt sem snýst um Stúdíóið – vinnustað sem hún rekur þar sem togað er í ýmsa spotta í samfélaginu til að “laga” það sem betur má fara – að mati Mari. Hér er dansað á siðferðislegum línum – Mari tekur sér guðavald og það á Lia (og lesandinn) erfitt með að samþykkja en Mari leggur kapp á að sannfæra Liu um nauðsyn þess að grípa á þenna hátt inn í lífið. Lífið er nefnilega ekki sanngjarnt en það reynir Mari að vera. Við fylgjumst svo með Mari og starfsfólki hennar bæta heiminn, eða haga honum í öllu falli eftir eigin höfði. Þau leysa glæpinn sem framinn var á fyrstu síðu en þau gera margt annað líka.

10. október 2013

Alice Munro fær Nóbelsverðlaun

Í morgun var tilkynnt að Alice Munro fengi Nóbelsverðlaunin í bókmenntum þetta árið fyrir að vera „meistari samtímasmásögunnar“. Hún hefur nokkrum sinnum komið við sögu hér á síðunni en sérstök ástæða er til að rifja upp tveggja ára gamla umfjöllun eftir Maríönnu Clöru Lúthersdóttur þar sem hún segir m.a.:
„Munro skrifar fyrst og fremst smásögur og þykir meistari þeirra. Hver saga er þó svo þétt og efnismikil að í hugsun sprengja þær oftar en ekki af sér bönd smásögunnar og verða í minningunni eins og skáldsögur.“ [Meira hér.]

Einnig er gaman að grafa upp svar Alice Munro í viðtali við þýska blaðið Die Zeit árið 2006 við athugasemd um að hún hefði þá verið nefnd til sögunnar sem mögulegur nóbelskandidat um nokkurra ára skeið:
„Ekki minna mig á það! Þetta er hræðilegt. Fyrir tveimur árum taldi útgefandinn minn mér trú um að það væru miklar líkur á að ég fengi verðlaunin. Og ég var einfaldlega mjög spennt, ég gat ekki varist því, þótt ég teldi það ekki mögulegt. Daginn þegar tilkynna átti hver yrði fyrir valinu sat ég þegar klukkan fimm að morgni við símann. Og ég vissi að ef ég ynni yrði ég brjálæðislega hamingjusöm í hálftíma, og eftir það myndi ég hugsa: Þvílíkt kvalræði.“

Vonandi er Alice Munro ennþá hamingjusöm þótt meira en hálftími sé liðinn frá tilkynningunni. Aðdáendur hennar eru það að minnsta kosti.

9. október 2013

Safarík en þó ekki svo safarík bók um góðan höfund

Þegar ég var tvítug og vann í bókabúð og drakk bjór á Sirkus allar helgar og vissi ekki alveg hvert lífið ætlaði með mig fór ég eitthvert kvöldið í Vídeóheima sálugu og valdi mér spólu sem varð ein af mínum uppáhaldsuppáhaldsuppáhaldsmyndum og talaði beint til mín í eftir-unglingsára-limbóinu. Þetta var myndin Ghost World með Thoru Birch, Steve Buscemi og Scarlett Johansen í aðalhlutverkum, en fyrir utan eftirlætisspólur bernskuáranna (eins og The Goonies og Muppet Christmas Special) eru afar fáar myndir sem ég hef séð jafnoft. Þegar ég var komin í háskóla tveimur árum síðar valdi ég mér Ghost World sem ritgerðarefni, var þá nýkomin með sjónvarp með innbyggðu DVD-tæki sem kostaði 16.000 íslenskar krónur (á gengi ársins 2003 ...) og var dýrasti gripur sem ég hafði keypt mér fyrir utan fartölvuna, og festi að sjálfsögðu kaup á myndinni á DVD til að geta analýserað hana. Þetta voru fyrstu kynni mín af myndasöguhöfundinum Daniel Clowes, en þegar ég byrjaði að skoða myndasögur af einhverri alvöru stuttu síðar leitaði ég bókina Ghost World að sjálfsögðu uppi. Clowes skrifaði handritið að myndinni ásamt leikstjóranum Terry Zwigoff; bókin kom út 1997 en myndin fjórum árum síðar.

Hr. Daniel Clowes
Það var eitthvað í Clowes sem ég tengdi strax við; eitthvað sem tengist því að hann skrifar/teiknar fólk sem er á jaðrinum, fólk sem skilur ekki alveg hvað 90% mannkyns er að pæla, fólk sem gerir sjálfu sér erfitt fyrir, fólk sem engist um af illskilgreinanlegri þrá eftir einhverju sem það veit ekki alveg hvað er. Enid, aðalpersónan í Ghost World, er föst í limbóinu mitt á milli æskunnar og fullorðinsáranna og mátar hlutverk og persónuleika á hverjum degi. Sambandið við bestu vinkonuna Beccu er farið að trosna og þegar Enid hittir hornótta tónlistarnjörðinn Seymour finnst henni hún hafa fundið sér verkefni, viðfangsefni, einhvern fastan punkt. Við sögu koma alls kyns frábærar persónur eins og satanistarnir á kaffihúsinu, bældi vinurinn Josh sem vinnur á bensínstöð, að ógleymdri hinni dásamlega hryllilegu Robertu sem kennir Enid myndmennt í sumarskólanum og byrjar á að sýna vídeóverk sitt, "Mirror, Father, Mirror", sem er toppurinn á tilgerðarlegu listagríni. Eins og hún segir við bekkinn: "I like to show it to people that I'm meeting for the first time because I think it says so much about who I am and what it feels like to inhabit my specific skin." Bókin og myndin eru reyndar uppfullar af frábærum setningum sem gott er að grípa til: "High school is like the training wheels for the bicycle of real life," segir óþolandi skólasystir í útskriftarræðu á meðan Becca og Enid ranghvolfa í sér augunum. "I can't relate to 99% of humanity," segir Seymour - ég veit!

En allavega - meiningin var ekki að fara út í langar lýsingar á Ghost World heldur fjalla örlítið um Daniel Clowes, eða réttara sagt um bók um hann sjálfan sem ég keypti mér í Edinborg. Þetta er bókin The Art of Daniel Clowes: Modern Cartoonist í ritstjórn Alvins Buenaventura. Mjög flott hönnuð og ríkulega myndskreytt eins og tilefni er til; hér komast Clowes-nördar í feitt. Bókin samanstendur af mjög miklu myndefni, sjö greinum og löngu viðtali við herra Clowes. Ferill hans er rakinn frá því hann útskrifaðist úr Pratt Institute í New York árið 1984 og allt fram til ársins 2012 - og reyndar fáum við líka að sjá bernskuverk eftir teiknarann. Það er ítarleg umfjöllun um Eightball-blaðið sem Clowes byrjaði að gefa út á níunda áratugnum og svo um stóru bækurnar sem komu seinna meir.

Greinarnar eru misgóðar og misáhugaverðar; viðtalið fannst mér eiginlega mest djúsí en ein greinin er óþolandi tilgerðarleg og flestar eru þær frekar rýrar að innihaldi. Ég bjóst við og vonaðist eftir meiru.

1. október 2013

Jakobína Sigurðardóttir og dulnefnið Kolbrún

Á laugardaginn kl. 13 verður haldið málþing um Jakobínu Sigurðardóttur í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar verða flutt fjögur erindi en einnig verður á dagskrá tónlist sem samin hefur verið við nokkur kvæði eftir Jakobínu og kaflar úr verkum hennar verða leiklesnir. Nánari upplýsingar um málþingið má finna á nýlegri vefsíðu um Jakobínu. Á síðunni eru verk hennar kynnt og bent á ýmiss konar skrif sem tengjast henni en einnig má þar m.a. finna skemmtilegar frásagnir af fundum leshóps sem hefur komið nokkrum sinnum saman í Mývatnssveit nú í haust og rætt ýmis verk Jakobínu.

Við undirbúning fyrir málþingið fór ég að grafast fyrir um það hvenær fyrst hefðu birst verk eftir Jakobínu. Það elsta sem ég hef fundið undir hennar nafni er „Morgunljóð“ í tímaritinu Rétti árið 1952. Í kjölfarið fylgdu brátt allnokkur kvæði til viðbótar sem birtust í blöðum og tímaritum og vöktu töluverða athygli, ekki síst „Hugsað til Hornstranda“, harðort kvæði sem var ort í tilefni af fyrirhuguðum heræfingum á Hornströndum og þótti verða að áhrínsorðum þegar hætta þurfti við heræfingarnar vegna veðurs.

Á þessum tíma er Jakobína 34‒35 ára en ljóst er að hún var ekki nýbyrjuð að yrkja og skrifa. Og þegar málið er athugað nánar kemur í ljós að eitthvað hafði birst eftir hana opinberlega áður. Í áhugaverðu viðtali í Þjóðviljanum árið 1953 vísar hún m.a. til æskuverka sem hefðu birst í Eimreiðinni.

Þegar Eimreiðinni er flett kemur nafn Jakobínu reyndar hvergi fram en ýmsar grunsemdir vöknuðu hins vegar hjá mér við að lesa nokkur kvæði með dulnefninu Kolbrún sem birtust árið 1940 og 1947.

28. september 2013

Nornaminningar

Í sumarbústað í Borgarfirði rakst ég á gamla uppáhaldsbók: Litlu nornina Nönnu eftir Mariette Vanhalewijn með myndum eftir Jaklien Moerman. Bókin kom út 1971 í íslenskri þýðingu Örnólfs Thorlacius. Ég man eftir að hafa haldið mikið upp á þessa bók sem barn en man ekki hvort ég átti hana sjálf eða notaði bara tækifærið til að fletta henni hjá öðrum.

Ég velti því fyrir mér núna hvað það hefur verið sem heillaði mig helst við þesa bók. Hún er rækilega myndskreytt og myndirnar eru mjög fallegar og þá alveg sérstaklega litirnir í þeim. Litanotkunin er eiginlega barasta frábær. Það er einhver svona psychedelic hippastíll á þessum myndum sem ég kann afskaplega vel við. Ég veit svo sem ekki hvort það hefur verið eitthvað sem ég kunni að meta sem barn en ég kunni alla vega að meta fallega liti. Pappírinn í bókinni er hrufóttur með dálítið glansandi áferð og það er einhver skemmtileg tilfinning sem fylgir því að snerta síðurnar með þessum stórkostlegu litum líka. Það eru margir áratugir síðan ég fletti þessari bók síðast en myndirnar voru allar afskaplega kunnuglegar þegar ég sá þær núna.

25. september 2013

Glaðasta þjóð í heimi?

Ég kaupi oft bækur á hinni ágætu vefverslun Amazon. Raunar nota ég síðuna mjög mikið til að kaupa ýmislegt annað en bækur - allt frá möndlum til sturtuhengja. Það er tímafrekt og streituvaldandi að fara í verslunarferðir og því kærkomin lausn að nota netið til að sinna brýnustu erindum. Tæpum 48 klukkustundum eftir að ég legg inn pöntun hringir dyrabjallan og þar stendur afskaplega elskulegur maður í khakibuxum með derhúfu og pakkann minn í fanginu. Aldrei hefur borið skugga á samband mitt við vefverslunina risavöxnu – ef frá er talið atvikið um daginn þegar ég keypti tæpt kíló af gæðasúkkulaði sem var í fljótandi formi þegar það skilaði sér á tröppurnar hjá mér. En það var reyndar 34 °C úti svo það var erfitt við að eiga.

Vinir mínir á Amazon eru farnir að þekkja mig sæmilega og stinga oft upp á að ég kaupi hitt og þetta. Þar sem ég keypti nú einu sinni íranska matreiðslubók hlýtur mér að geðjast að nýrri uppskriftabók frá Tyrklandi og þar fram eftir götunum. Stundum eru þessar tillögur alveg hreint ágætar og ég læt tilleiðast og lauma einni kilju í körfuna. Það var einmitt það sem ég gerði um daginn þegar ég keypti þá bók sem hér er til umfjöllunar. Bókin ber titilinn The Jungle Effect. The Healthiest Diets from around the World – why they work and how to make them work for you. Höfundurinn, Daphne Miller, er starfandi læknir í San Francisco og kennir einnig næringarfræði og almennar lyflækningar við University of California. Ég hugsaði að þetta gæti nú ábyggilega verið ágætis lesning fyrir mig – ég hef áhuga á heilsusamlegu mataræði og ég hef mjög oft gaman af ferðabókum. Uppleggið er semsagt það að höfundurinn ferðast um framandi slóðir – hún velur sér svæði þar sem tíðni ákveðinna sjúkdóma virðist vera óvenjulega lág miðað við það sem gerist og gengur. Hún spyr heimamenn út í lífshætti þeirra með það fyrir augum að við hin getum mögulega tileinkað okkur eitthvað af þessum góðu siðum og þar með orðið heilsuhraustari. Gott og vel – ég ýtti á „panta“ hnappinn og tveimur dögum síðar lá bókin á náttborðinu hjá mér.

23. september 2013

Skrifað í stjörnurnar

The Fault in Our Stars hefur trónað í
efasta sæti ýmissa metsölulista, var
meðal annars í sjö vikur samfleytt í
fyrsta sæti New York Times
metsölulistans.
Um nokkurra ára skeið hef ég lagt það í vana minn að taka mér smá göngutúr eftir að hafa fylgt börnunum í skóla og leikskóla. Ég bý í pínulitlu plássi rétt fyrir utan borgina og möguleikarnir á spennandi gönguferðum eru fáir svo ég er sennilega búin að þramma sama hringinn nokkurhundruð sinnum. Stundum hitti ég hunda með húsbændur í taumi, einstaka sinnum íkorna en almennt séð er ég bara ein með sjálfri mér og satt best að segja orðin dálítið leið á þeim félagsskap. Í byrjun ársins datt mér í hug að kannski yrðu morgungöngurnar örlítið líflegri ef ég hlustaði á hljóðbækur á meðan. Ég sá í hendi mér að þetta þyrfti að vera eitthvað létt og skemmtilegt þar sem söguþráðurinn drægi mig áfram og engin þörf væri á að kryfja hvert orð. Fyrst var ég að hugsa um að finna einhverja glæpasögu en ákvað á síðustu stundu að velja unglingabók (eða YA, sjá nánar hér) sem ég hafði lesið lofsamlega dóma um, The Fault in Our Stars eftir John Green, og var sannfærð um að hún hentaði einbeitingarlausri konu ákaflega vel.

Ég reyndist hafa fullkomlega rangt fyrir mér, The Fault in Our Stars var algjörlega misheppnuð sem hljóðbók á morgungöngum. Fyrst flissaði ég svo mikið að hundarnir og eigendurnir í bandinu horfðu undrandi á mig. Svo grét ég svo mikið yfir henni að ég sá að ég yrði bara að hlusta á hana heima í sófa ef ég ætlaði ekki að enda sem snöktandi hrúgald innan um íkornana í skóginum. Og öfugt við væntingar reyndist full þörf á að kryfja hvert einasta orð ásamt því að elta textatengsl yfir í Shakespear, T.S. Eliot, Emily Dickinson og ótal fleiri. Ég vildi líka gjarnan hafa rými til að njóta textans, melta boðskap hans og hugsa um lífið – sem er dálítið erfitt þegar lesarinn malar áfram án þess að gefa ráðrúm fyrir þess konar hugarflug. Sem sagt, óheppileg hljóðbók en ó svo frábær bók.

19. september 2013

Guðjón vill engum í húsinu vel

Afmælisbarnið 20. september
Boðað er til ljóðakvölds: Á morgun, föstudagskvöldið 20. september, klukkan 20:00 munum við Þórdís Gísladóttir lesa upp ljóð á Café Haítí ásamt þeim Höllu Margréti Jóhannesdóttur og Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, auk þess sem ónefndur leynigestur mun troða upp. Við treystum því að fólk hafi safnað kröftum sínum á ný eftir Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Þórdís fór fögrum orðum um fyrstu ljóðabók Höllu Margrétar, 48, hér á síðunni um daginn, og ég ákvað að nota tækifærið til að segja aðeins frá nýjustu bók Sigurlínar Bjarneyjar, sem heitir Bjarg og kom út í vor. Bjarg er þriðja bók Sigurlínar Bjarneyjar, en hún hefur áður gefið út ljóðabókina Fjallvegir í Reykjavík og smásagnasafnið Svuntustrengur. Sigurlín Bjarney hefur sinn sérstaka stíl, yfirvegaðan og lausan við dramatík, en af og til brestur á með undirfurðulegum húmor. Þessi stíll er á sínum stað í Bjargi en er held ég jafnvel orðinn kraftmeiri og blæbrigðaríkari en áður.

Ljóðabókin Bjarg fjallar um íbúa blokkar nokkurrar. Blokkin er stór – átta hæða með sex íbúðum á hverri hæð – og af þeim sökum er bókin lengri en ljóðabækur eru yfirleitt á Íslandi, heilar 111 blaðsíður. Hver íbúð fær eitt ljóð en stundum skarast þau, til dæmis þegar íbúi í einni íbúð er að tala við eða hugsa um íbúa í annarri íbúð. (Ég hef aldrei búið í blokk en ég velti því fyrir mér hvort fólk hafi almennt jafn mikil samskipti í blokkum og það gerir í þessari bók? Er alltaf einhver Skúli í 5a sem fleiri en ein og fleiri en tvær konur í blokkinni láta sig dreyma um?)

15. september 2013

Dríslakjöt og kaffi í boði Herra Hjúkkets

Þótt mér finnist það varla hafa getað verið fyrir svo löngu að ég síðast (jafnvel tvöfalt síðast) hyggaði mig í kósý félagsskap í Nýlenduvöruverzlun Hemma og Valda á Laugaveginum var það nú samt í desembermánuði síðastliðnum. Þetta umrædda aðventukvöld fór fram ljóðadjamm á Hemma og Valda og meðal skálda sem lásu þar upp úr ljóðum sínum voru Ísak Harðarson, okkar eigin Kristín Svava og Bragi Páll Sigurðarson, sem gaf frumraun sína í ljóðagerð út um þetta leyti (blogg Sölku um bókina hans má lesa hér). Á stokkinn steig einnig bandaríska hipphoppsveitin The Welfare Poets, sem stóð fyrir djammi og góðu stuði í hléi milli upplestraratriða – svo góðu stuði að fyrsta skáldið á dagskrá eftir hlé, Ásta Fanney Sigurðardóttir, bar upp þá ósk við meðlimi sveitarinnar að þeir myndu djamma áfram á hljóðfærin undir upplestri hennar. Sjálfri hefði henni nefnilega ekki orðið rappframa auðið þrátt fyrir bernskudrauma í þá veru. Eftir á að hyggja er rappflutningur Ástu upp úr þá nýútkomnu verki sínu, Herra Hjúkket, það sem mér er eftirminnilegast frá þessu kvöldi; lesturinn var mjög töff og grípandi og hún náði upp rífandi stemningu meðal áhorfenda. Ég átti þó ekki svo gott með að grípa innihald ljóðanna gegnum flæðið, en þótti það reyndar varla koma að sök. Það var svo ekki fyrr en seinna að ég las bókina, og nú, ennþá og mun seinna, sem ég kem því loks í verk að skrifa um hana.

8. september 2013

Tuttugasti og annar nóvember árið 1963: saga um siðferðislegar víddir tímaflakks, morðið á JFK og ástina við undirleik stórsveitar Glenns Miller

Í sumar uppgötvaði ég hversu dásamlegt fyrirbæri hljóðbækur eru, en sá höfundur sem helst má þakka þessa uppgötvun mína er Stephen King. Bækurnar hans eru fullkomnar til hlustunar, líklega vegna þess að hann er svo góður sögumaður. Hann gleymir sér sjaldnast í stílþrifum, en skapar aftur á móti afar eftirminnilegar persónur og áhrifamiklar sögur. King er kannski þekktastur fyrir að hafa vera höfundur einhverra bestu hryllingssagna sem skrifaðar hafa verið, en ein besta bókin sem ég hef lesið (og hlustað á) eftir hann tilheyrir í raun ekki þeirri bókmenntagrein, þótt óhugnaðurinn sé oft skammt undan. Þessi bók heitir 11.22.63 og er vísindaskáldsaga sem kom út árið 2011.

11.22.63 fjallar um Jake Epping, enskukennara frá Maine, sem er beðinn um að taka að sér afar óvenjulegt verkefni: það að ferðast aftur í tíma og koma í veg fyrir morðið á John F. Kennedy. Það er hamborgarabúllueigandinn Al Templeton sem biður Jake vinsamlegast um taka þetta að sér, en hann lumar á tímagátt bakatil á veitingastaðnum sínum sem færir mann aftur til ársins 1958. Þá er í raun hægt að dvelja í fortíðinni mínútum, mánuðum eða jafnvel áratugum saman, en þegar maður snýr aftur – mögulega orðinn grár af elli – hafa aðeins tvær mínútur liðið í nútíðinni. Al hefur undirbúið þetta verk lengi og nákvæmlega (hann afhendir Jake mikinn bunka af upplýsingum um Lee Harvey Oswald), en er orðinn of gamall og lasinn til að vinna það sjálfur. Þar af leiðandi vill hann að Jake fari um gáttina fyrir sig, staldri við í fortíðinni í nokkur ár og breyti svo gangi sögunnar, mögulega á afdrifaríkan hátt. Þetta er eitt áhugaverðasta viðfangsefni sögunnar; hvaða áhrif hafa smávægileg afskipti, nú eða gríðarlega stórt inngrip eins og að koma í veg fyrir morð á forseta, á það sem gerist síðan?

3. september 2013

Hermann

Hinn norsk-danski Lars Saabye Christensen er afkastamikill rithöfundur sem heimsótti Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Um helgina var byrjað að sýna á RÚV þætti eftir skáldsögunni Hálfbróðurnum, en fyrir hana hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002. Sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og hún kom út á íslensku fyrir um áratug í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur. Hálfbróðurinn má enn kaupa hjá útgefanda og hún kostar minna en kók og pulsa. Önnur bók eftir Lars Saabye Christensen, Hermann, kom út á íslensku árið 2005, einnig í þýðingu Sigrúnar Kr. Magnúsdóttur, en fyrir hana fékk höfundurinn norsku kritiker-verðlaunin árið 1988. Eftir bókinni hefur líka verið gerð kvikmynd og hún hefur verið þýdd yfir á fjölmargar tungur. Ég er hrifin af Hálfbróðurnum en ekki síður hrifin af Hermanni* en hún er mun nettari bók að umfangi en Hálfbróðirinn og atburðarásin einfaldari.

Sögusviðið er Osló fyrir nokkrum áratugum. Sagan lýsir einum vetri í lífi Hermanns, drengs sem er á að giska 10 ára. Snemma í sögunni fer hann til rakara sem hættir skyndilega að klippa í miðju kafi og vill fá að tala við mömmu hann. Þarna kemur í ljós að strákurinn er kominn með blettaskalla og hann verður síðan smám saman sköllóttur.

1. september 2013

Gott er að borða gulrótina …

Mér finnst gott að vera alæta og myndi seint gerast grænmetisæta eða fara á eitthvert vandlega skilgreint mataræði með alls konar boðum og bönnum nema ég neyddist til. Aftur á móti finnst mér grænmeti frábært, grænmetisfæði almennt gott og ég borða sífellt meira af því, m.a. fyrir áhrif frá matarskrifum Michaels Pollans, þar á meðal matarboðorðum hans um að borða mat, ekki of mikið, mest úr jurtaríkinu. Ég mæli eindregið með bókunum hans, sérstaklega The Omnivore‘s Dilemma þar sem er kafað ofan í fjögur mismunandi bandarísk matarferli, allt frá plöntu eða dýri og þangað til maturinn er kominn á diskinn: Í fyrsta lagi skoðar Pollan iðnaðarframleiðslu og gerir m.a. úttekt á því hvernig maís liggur henni að verulegu leyti til grundvallar sem er verulega hrollvekjandi lesning. Í öðru og þriðja lagi kannar hann gerólíkar lífrænar leiðir, annars vegar iðnaðarferli þar sem ræktunin sjálf er lífræn en svo er t.d. ekið með afurðina langar leiðir til pökkunar og frágangs og síðan flogið ennþá lengra með hana til að koma henni í stórmarkaði, og hins vegar býli sem er býsna heildstætt vistkerfi og afurðirnar eru seldar á svæðinu. Að síðustu prófar Pollan svo að vera sjálfum sér nógur og rækta, safna og veiða mat.

Þótt það sé varla raunhæft markmið að allir borði alltaf mat sem er fullkominn út frá m.a. siðrænum og umhverfislegum sjónarmiðum, þá er illmögulegt að lesa skrif á borð við The Omnivore‘s Dilemma án þess að verða áhugasamari og meðvitaðri um það hvernig maturinn manns varð til og það er líklegt til að hafa einhver áhrif á neysluvenjur. Ég veit t.d. að mörgum er líkt farið og mér, að hafa tekið þá stefnu að kaupa kjöt sjaldnar og vanda þá valið á því. Það felur ekki endilega í sér að kaupa dýrt kjötmeti, ég er t.d. afar hrifin af bæði hjörtum og lifur sem kosta sáralítið.

Þessu fylgir auðveldlega aukinn áhugi á grænmetisfæði og í fyrra eignaðist ég þrjár breskar matreiðslubækur sem eiga það sameiginlegt að snúast um grænmeti en vera eftir menn sem eru ekki grænmetisætur. Í stuttu máli hef ég það um þær að segja að River Cottage ‒ Veg Every Day! eftir Hugh Fearnley-Whittingstall uppfyllir ekki allar óskir mínar en allt sem ég hef prófað upp úr henni er gott, The Vegetarian Option eftir Simon Hopkinson hefur marga kosti en höfðar samt ekki nógu vel til mín, en Plenty eftir Yotam Ottolenghi heillaði mig strax í byrjun og ef eitthvað er hef ég orðið hrifnari eftir því sem ég nota bókina meira. Nánari útlistun á þessu öllu fylgir hér á eftir.

26. ágúst 2013

Bókasöfn á gististöðum, 16. þáttur: Buffalo, NY

Aðalbókasafnið á fyrstu hæð.
Hjá lyftunni og neyðarútgangnum.
Undanfarna viku hef ég dvalið á farfuglaheimilinu Hostel Buffalo-Niagara, sem stendur við Main Street í Buffalo, New York. Dvölin hefur verið með besta móti, aðstaðan til fyrirmyndar og andrúmsloftið rólegt. Það sem gerir það þó að verkum að ég væri næstum til í að vera hérna lengur – og þá er mikið sagt, þar sem er mig farið að lengja töluvert eftir því að flytja í íbúð sem bíður mín í nágrenninu – er bókasafn farfuglaheimilisins.

Þar má finna óvenjumikið af góðu efni, meðal þess eru skáldsögur eftir höfunda á borð við Joyce Carol Oates (sem er eftir því sem ég best veit eini frægi rithöfundurinn sem hefur gert Buffalo að sögusviði bóka sinna), Paul Auster og Ursula K. Le Guin, ævintýri eftir Lewis Carroll og C.S. Lewis, bókin Little Men eftir Louisa May Alcott (ég hafði aldrei heyrt um þetta framhald Little Women) og auðvitað bæði Pride and Prejudice og Pride Prejudice and Zombies. Til að sýna hversu fjölbreytilegt safnið er má líka nefna bók Bills Clintons, Giving: How Each of Us Can Change the World, sem hvílir sig á hillunni rétt hjá barnasmásagnasafninu Chicken Soup for the Kid's Soul: 101 Stories of Courage, Hope and Laughter.

22. ágúst 2013

Þegar maður rokkpissar ...

48 er fyrsta ljóðabók Höllu Margrétar Jóhannesdóttur og bókin kom út á sumarsólstöðum í ár. Aftan á kápu er eftirfarandi inngangur að verkinu: „Talan 4 er jörðin. Traust og bundin. Hún vísar til höfuðáttanna fjögurra, til frumefnanna, jarðar, lofts, vatns og elds og til þess sem stendur stöðugt á fjórum fótum. Talan 8 byrjar hvergi og endar hvergi. Leggi maður áttuna á hlið birtist táknið ∞ sem í stærðfræði merkir hið óendanlega. Áttan er eilífðin. Halla Margrét er í bilinu, milli jarðar og eilífðar. 48 ár og 48 ljóð. Við erum stödd í skóginum miðjum, miðjunni miðri, í hálfleik, í leikhléi.“

Bókin skiptist í fjóra hluta sem heita Bernska, Morgnar, Leikir og Myndir. Í hverjum hluta eru 12 þematengd ljóð. Í fyrsta hlutanum er horfið til bernskuára með fimleikum, píanóspili, skátafundum, lakkrís og brotakexi.

EIN Á FERР
Það er myrkur á hitaveitustokknum 
og hraunið á vinstri hönd 
Hjálpræði ímyndunar: 
Ég fer flikk flakk á slá 
Ég kemst í splitt

Píanókennarinn bíður 
í Skátaheimilinu 
með nýklipptar neglur 
upp í kviku

21. ágúst 2013

Þokkalega öflugur hvirfilbylur

Í vor kom út fyrsta skáldsaga Bjargar Magnúsdóttur, Ekki þessi týpa. Druslubækur og doðrantar fengu þennan nýslegna höfund til að svara nokkrum (ókei, mis)laufléttum spurningum.

Hvers vegna byrjaðir þú að skrifa og ertu búin að skrifa lengi?

Það að hafa unun af því að skrifa er eiginlega eini rauði þráðurinn í lífi mínu, þegar ég rek ævi mína aftur á bak. Þú veist, connecting the dots, eins og Steve Jobs talar um í algjörri must see ræðu við útskrift úr Stanford. Mér hefur stundum liðið eins og þokkalega öflugum hvirfilbil sem spænist á milli staða og áhugamála. Skriftirnar eru eini fastinn í lífi mínu sem ég man eftir núna, eitthvað sem mér finnst svo innilega gaman og hefur aldrei breyst, frá því ég var mjög ung. Ég hef haldið dagbækur og hugmyndabækur í tæpa tvo áratugi og man fyrst eftir mér svona 13 ára að baksa við að skrifa hnyttna myndatexta í ljósmyndaalbúm heimilisins.

11. ágúst 2013

Litbrigði ástarinnar - um samkynhneigð í heimi múmínálfanna

Bolli Ernu með Tofslan og Vifslan
Stundum óttast ég að bækurnar um múmínálfana, sem ég hef haldið ótakmarkað upp á og lesið óteljandi sinnum síðan ég var fimm ára, hverfi í skuggann af varningi sem hefur flætt inn á markaðinn undanfarið. Þar á ég við allskonar dót á borð við leirtau, töskur, sængurföt og hvaðeina með myndum af persónunum úr múmínálfabókunum. Nú í vikunni rakst ég í fyrsta skipti á „kaffi múmínmömmu“ á markaðinum á Östermalm í Stokkhólmi. Ég á auðvitað sjálf ýmislegt dót með krúttmyndum af persónum Múmíndals en ekkert af því dóti hefur glatt mig eins mikið og bækurnar sjálfar. Þær verða aldrei of oft lesnar!

Í tilefni Hinsegin daga drakk Erna Erlingsdóttir kaffið sitt úr Þönguls og Þrasa-bollanum sínum og birti mynd af bollanum á facebook. Í framhaldinu kom greinin sem fylgir hér á eftir til tals, en hún birtist í tímaritinu Börnum og menningu 2/2008. Börn og menning er eina íslenska tímaritið sem fjallar aðeins um barnamenningu, og ekki síst barnabókmenntir, og ég hvet fólk endilega til að kynna sér það og gerast gjarna áskrifendur.

Litbrigði ástarinnar
Í næstsíðasta kafla bókarinnar Pípuhattur Galdrakarlsins eftir Tove Jansson koma tveir smávaxnir kumpánar til sögunnar. Í íslenskri þýðingu bókarinnar heita þeir Þöngull og Þrasi. Þeir hafa leyndardómsfulla tösku meðferðis og eru á flótta undan Morranum. Þöngull og Þrasi tala sitt eigið tungumál „...sem allir Þönglar og Þrasar tala. Það er ekki hver og einn sem getur skilið það, en aðalatriðið er þó, að þeir vita sjálfir hvað þeir eru að segja.“ (Pípuhattur Galdrakarlsins bls. 116).

Tove og fjölskyldan í Múmíndal
Líf og starf Tove Jansson
Finnlandssænska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson var 87 ára gömul þegar hún lést árið 2001. Starfsævi hennar náði yfir meira en sjötíu ár. Hún skrifaði ekki eigin ævisögu en í bókum hennar má finna mikið af vísunum í eigið líf og vitað er að ýmsar persónur Múmínálfabókanna áttu sér fyrirmyndir í vinahópi höfundarins og persónueinkenni hennar sjálfrar má finna í sögupersónum í ólíkum verkum. Á síðasta ári kom út mikið verk um ævi Tove Jansson. Höfundurinn, Boel Westin, varði doktorsritgerð um verk Tove fyrir tuttugu árum, þær tengdust vinaböndum og hún fékk frjálsan aðgang að öllum persónulegum pappírum Tove, einkabréfum, teikningum, dagbókum, myndum og fleiru. Bókin er tæpar 600 síður og mikill fjársjóður fyrir þá sem hafa áhuga á lífi og starfi skáldsins og myndlistarkonunnar.

Tove Jansson átti bæði í ástarsamböndum við konur og karla. Eftir þrítugt fór hún að prófa sig áfram á því svæði sem hún kallaði „spöksidan“, eða draugasvæðið og síðar flutti hún sig reyndar alfarið yfir á það svæði og bjó í áratugi með konu. Samkynhneigð var refsiverð í Finnlandi til ársins 1971, Tove Jansson var fædd 1914 og á fimmta áratugnum þegar hún átti fyrst í ástarsambandi við kynsystur sína varð að fara afar leynt með sambandið. Talið er víst að leikstjórinn Vivica Bandler, sem síðar varð leikhússtjóri Sænska leikhússins í Helsingfors, hafi verið fyrsta ástkona Tove. Og þar komum við aftur að Pípuhatti Galdrakarlsins því Boel Westin upplýsir að Tove hafi skrifað samband þeirra tveggja inn í bókina, sem kom fyrst út 1948. Nöfn persónanna sem heita Þöngull og Þrasi í íslensku bókinni, eru í upphaflegum sænskum texta bókarinnar Tofslan og Vifslan, sem voru gælunöfn Tove og Vivicu. Leyndarmálið í töskunni þeirra, sem afhjúpað er í lokakafla bókarinnar, er rúbínsteinn á stærð við hlébarðahöfuð, tákn sjálfrar ástarinnar, sem Morrinn ógnar og girnist.

9. ágúst 2013

Á slóðum Martins Montag í Berlín

Mollulegan laugardag í Berlín fyrir tæpri viku síðan tók ég neðanjarðarlestina á lestarstöðina Südstern ásamt frænku minni og beið þar í skuggsælu horni eftir að koma auga á kunnugleg andlit; við vorum í þann mund að leggja af stað í bókmenntagöngu um vestanvert Kreuzberg-hverfi Berlínarborgar, nánar tiltekið um söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Þær fjalla um lækninn Martin Montag, sem er búsettur í Kreuzberg, og hvernig hann tekst á við kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir í æsku. Maríanna Clara bloggaði um um Fyrir Lísu í vor.

Það var fámennur en góðmennur hópur sem lagði af stað í gönguna á laugardaginn, og fór hún fram á þremur tungumálum til skiptis, íslensku, þýsku og ensku. Fyrstu viðkomustaðir okkar voru kirkjugarðarnir tveir við Südstern, en þeir koma nokkuð við sögu í lífi Martins Montag. Kirkjugarðarnir eru þeir almenningsgarðar sem hann gengur um og þar finnur hann sér staðgengilsforeldra á himnum þegar hans eigin foreldrar bregðast honum. Í Fyrir Lísu gengur hann jafnframt til sálfræðings sem hefur sérkennilega aðstöðu innan kirkjugarðsmúranna, og er reyndar sjálfur allsérkennilegur. Við gengum jafnvel framhjá sjálfu heimili Martins Montag, í huggulegu hvítmáluðu fjölbýlishúsi.

"Hvíldartími útrunninn. Vandamenn vinsamlegast hafi samband við afgreiðslu."
Sem er það sem Martin Montag gerir í Fyrir Lísu.

5. ágúst 2013

Að lesa eða lesa ekki?

Þeir sem fylgjast með bókmennta- og kvikmyndaumræðunni í Bandaríkjunum gætu hafa rekið augun í umfjöllun um Orson Scott Card á síðustu vikum. Þessi bandaríski vísindaskáldsöguhöfundur hefur verið að í þrjátíu og fimm ár og er líklega þekktastur fyrir bókaflokkinn vinsæla um Ender, en kvikmynd sem byggð er á fyrstu bókinni - Ender's Game - er væntanleg í bíó fyrir næstu jól. Það er óbeint þess vegna sem Orson Scott Card er nú ræddur fram og til baka á hinum ýmsu vefsíðum - margir hafa nú uppi háværar kröfur um að fólk sniðgangi myndina og hætti að kaupa bækur höfundarins. Ástæðan er ógeðfelld hómófóbísk orðræða Scott Card, sem hefur ítrekað haldið því framsamkynhneigð sé óeðli eða erfðafræðileg brenglun, og lýsti því m.a. yfir að kollsteypa ætti hverri þeirri ríkisstjórn sem samþykkti ein hjúskaparlög öllum til handa, auk þess sem hann er þess fullviss að samkynhneigðir karlmenn hafi upp til hópa verið misnotaðir kynferðislega sem börn og séu þess vegna með "brenglaða" kynvitund. Jebbs, svona frekar viðbjóðslegur málflutningur heilt á litið. Scott Card er mormónatrúar og reyndar hvorki meira né minna en afkomandi Brigham Young.
Ender's Game hefur selst í bílförmum
Þessi umræða tengist spurningu sem hefur verið mér hugleikin síðustu misserin; hvort persónuleiki eða skoðanir höfunda hafi, eigi að hafa eða eigi ekki að hafa áhrif á viðbrögð manns við verkum þeirra. Það er að segja, hvort hið ytra skarist við verkið sjálft. Hvort heimurinn sem er skapaður í bók geti staðið einn og sjálfur eða hvort maður lesi alltaf í stærra samhengi. Er maður að kvitta undir skoðanir sem manni þykja ógeðfelldar ef maður kaupir, les og jafnvel nýtur bóka eftir fólk sem vafasöm viðhorf? Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu líka við um annað listafólk, kvikmyndagerðarfólk (barnanauðgarinn Roman Polanski kemur strax upp í hugann), tónlistarmenn og svo framvegis.

Stundum fæla yfirlýsingar rithöfunda mann frá bókum sem maður hefur ekki lesið. Mig til dæmis langar ekki að lesa neitt eftir enska höfundinn Martin Amis því ég hef aldrei lesið svo mikið sem hálfa grein eftir hann eða viðtal við manninn án þess að langa til að sparka í vegg. Ég get ekki ímyndað mér að maður sem hefur jafnhaturs- og hrokafullar skoðanir um alla aðra en hvíta forréttindakarlmenn geti haft neitt sniðugt eða merkilegt að segja mér um mannfólkið, hvort sem það er uppskáldað eður ei. En ég hafði heldur aldrei lesið neitt eftir hann þegar ég komst að því hvað mér þykir hann hroðalegur - hvernig hefði mér liðið ef bækurnar hans hefðu verið í uppáhaldi hjá mér?

Það er nefnilega aðeins flóknara með höfunda sem maður heldur þegar upp á.

23. júlí 2013

Gráðugir útfararstjórar og köllun smurningarinnar

Í vor bloggaði ég um stofnun leshópsins Dauði og ógeð og fyrstu bókina sem ég las fyrir hann, Stiff. The Curious Lives of Human Cadavers. Það er að vísu ekki enn búið að ræða Stiff í leshópnum, en ég dembdi mér strax í næstu bók, The American Way of Death Revisited eftir Jessicu Mitford. (Ég er ánægð með hvað kvenhöfundar eru duglegir að skrifa um dauða og ógeð.) The American Way of Death er klassískt rannsóknarblaðamennskuverk sem kom fyrst út árið 1963 en þessi endurskoðaða útgáfa er frá 1998.

Bókin fjallar í stuttu máli um greftrunarsiði Bandaríkjamanna á 20. öld og þá síauknu markaðsvæðingu sem einkennir bandarískar útfarir. Mitford er skemmtilegur penni og efnið sem hún er með í höndunum er oft ansi rosalegt, hvort sem litið er til ástandsins þegar bókin kom út upphaflega árið 1963 eða í dag; bara fagtímarit útfararstjóranna (sem heita nöfnum á borð við Casket and Sunnyside) og markaðssetningar- og viðskiptalingóið sem þar er að finna fær mann til að sitja gapandi yfir bókinni. Útfararstjórarnir sem Mitford kynnir til sögunnar svífast einskis þegar kemur að því að reka áróður gegn líkbrennslu (ódýrari valkostur), pranga sem dýrustum kistum inn á syrgjandi fjölskyldur með blygðunarlausri tilfinningakúgun og meika hvert einasta lík sem þeir fá í hendurnar í drasl („ég þekkti Bill gamla ekki aftur“).

20. júlí 2013

Fabúlur HKL: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjalla um Kristnihald undir Jökli

Séra Jón Prímus (Baldvin Halldórsson) og Umbi
(Sigurður Sigurjónsson) ræða lífið og tilveruna
KST: Heil og sæl, Guðrún!

GEB: Nei, sæl og blessuð Kristín Svava! Mikið sem ég hef saknað þín! Eigum við að byrja á því að gefa einhverja mynd af því um hvað Kristnihald undir Jökli fjallar, svona fyrir þá sem ekki vita?

KST samþykkir hikandi. (Hér vantar í handritið)

GEB: Bókin hefst á því að biskup hefur kallað á fund sinn ungan guðfræðing til að biðja hann um að taka að sér það verkefni að rannsaka kristnihald undir Snæfellsjökli. Þar virðist ýmislegt undarlegt hafa verið að gerast undanfarna áratugi; til dæmis sýnir séra Jón Prímus, sem nýtur þó mikillar hylli meðal sóknarbarna sinna, prímusaviðgerðum og hestaumhirðu mun meiri áhuga en messuhaldi, kirkjan hefur grotnað niður, auk þess sem „kynleg umferð með ótiltekinn kassa á jökulinn“ veldur biskupi áhyggjum. Guðfræðingurinn ungi gerist því umboðsmaður biskups (UmBi) og heldur á Snæfellsnes með upptökutæki undir armi. Þar hyggst hann ræða við íbúa undir Jökli og varpa ljósi á ástandið með nákvæmri skráningu upplýsinga, sem eiga svo að verða skýrsla fyrir kirkjumálaráðuneytið. En ekki einu sinni upptökutæki getur tryggt hlutlausa athugun og þetta verkefni verður kannski ekki jafn einfalt og fljótunnið og Umbi vonast til…

11. júlí 2013

Handavinnukennari myrðir ekki manninn sinn (því miður)

Það var með talsverðri tilhlökkun sem ég opnaði Manneskju án hunds – verandi reyfara-aðdáandi hafði ég lengi ætlað að lesa bók eftir hinn fræga og margþýdda Håkan Nesser. Lengi framan af var það lögreglumaðurinn (og síðar antíksölumaðurinn) Van Veeteren sem leysti gátuna í bókum Nesser en frá 2006 hefur ítalskættaður lögreglumaður að nafni Gunnar Barbarotti séð um slíkt og Manneskja án hunds er einmitt fyrsta bókin um hann. (Þorgerður las aðra bókina um Barbarotti og minnist á hana hér)

28. júní 2013

Er Mandela mennskur?

Mandela ungur og aldeilis huggulegur
Ef frá er talið ungæðislegt dálæti mitt á hljómsveitinni ABBA þegar ég var svona sirka 12 og 13 ára þá hef ég einhverra hluta vegna aldrei náð að verða heltekin af persónudýrkun eða aðdáun á listamönnum, stjórnmálamönnum eða öðru málsmetandi fólki. Sennilega er þetta einhver karakterdefekt sem ég bara ræð ekki við, en ég hef oft öfundað fólk sem lifnar allt við og ljómar þegar það ræðir um uppáhalds rithöfundinn sinn, stjórnmálamanninn eða sjónvarpstýpuna sem það elskar þá stundina. Ég hef t.d. aldrei haft nokkurn einasta áhuga á að hitta og ræða við þá rithöfunda sem ég hef lesið mest og stúderað í það og það skiptið. Hefur alltaf fundist bara alveg nóg að lesa eftir þá góða texta og pæla í þeim á alla kanta en einhvernveginn aldrei talið að það að ræða persónulega við manneskjuna myndi bæta miklu við þá upplifun. Þetta þrátt fyrir það að vera í raun ansi forvitin og hafa gaman af að hnýsast í æfisögur, bréf og allskyns viðtöl við fólk.

21. júní 2013

Lesbískur módernismi og hermafródítur í Utrecht

Ég bjóst ekki við því þegar ég hóf að undirbúa ferðalag til Utrecht, frekar en þegar ég átti leið um Fellabæ, að þar myndi ég rekast á spennandi bókabúð. En viti menn; í Utrecht starfar fyrsta femíníska bókabúðin sem stofnuð var í Hollandi, Savannah Bay (eftir samnefndu leikriti Marguerite Duras), sem einnig sérhæfir sig í hinsegin bókmenntum og fræðum. Þessa búð leitaði ég að sjálfsögðu uppi. Hún er staðsett á Telingstraat 13, steinsnar frá framúrstefnulegu ráðhúsi Utrecht-búa.

Þarna má sjá deildirnar Homo proza og Homostudies, en einnig vídeóhornið til vinstri
Hvar er betra að sóla sig en í Virginiu Woolf-garðstól?

17. júní 2013

Fyrirtaks austfirskt bókakaffi

Nú er sumarferðatími landans runninn upp og ég búin að þvælast dálítið um Austfirði af því tilefni. Auk þess að skoða í hótelbókahillur á Breiðdalsvík fór ég á bókakaffihúsið á Hlöðum í Fellabæ (eða Egilsstöðum, ef maður vill vera ókórréttur) sem ég hafði ekki áður vitað af en sem reyndist þessi líka prýðis staður og sem ég vil endilega vekja athygli ferðalanga á:
Á kaffihúsinu eru fullar hillur af skáldsögum, reyfurum, ljóðabókum, ævisögum, þjóðlegum fróðleik og fleiru á allavega þremur tungumálum, sem hægt er að glugga í á staðnum og/eða kaupa, undir afskaplega vel völdum tónum sem berast frá plötuspilaranum. Ég rak augun til dæmis í tvö eintök af þeirri ágætu bók Ástin og dauðinn við hafið eftir Jorge Amado, tvö eintök af öðru bindi Breiðfirzkra sagna eftir Bergsvein Skúlason og eintak af Vegurinn heim eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, svo ég nefni bara það djúsí stöff sem ég man eftir í svipinn.

Að sjálfsögðu er svo hægt að fá sér kaffi og meððí meðan maður les. Semsagt: Fyrirtaks bókakaffi að heimsækja á ferðum sínum um Hérað.

15. júní 2013

Hvar var skjaldborgin þá?

Ég hef verið mikill aðdáandi Kristínar Steins frá því að ég las Á eigin vegum fyrir margt löngu. Hún hefur lag á því að skrifa sterkar en þó óvenjulegar kvenpersónur, konur sem við fyrstu sýn gætu virst vera fórnarlömb en eru þó langt frá því að biðja um vorkunn lesanda. Síðasta bók Kristínar, Ljósa, fjallaði um konu sem stríðir við geðsjúkdóma undir lok nítjándu aldar. Persónu Ljósu byggði Kristín á ömmu sinni og er bókin að einhverju leyti söguleg þótt hún sé fyrst og fremst skáldsaga. Í nýjustu bók sinni, Bjarna-Dísu, snýr Kristín aftur á sögulegar slóðir – hér tekur hún fyrir þjóðsöguna um Bjarna-Dísu sem gekk aftur og hræddi líftóruna úr fólki á átjándu öldinni. Útgáfu af þjóðsögunni má lesa hér.

Bókasöfn á gististöðum, 15. þáttur: Hótel Bláfell

Því miður nýtti ég mér ekki sem skyldi hið ágæta bókasafn Hótel Bláfells á Breiðdalsvík þegar ég dvaldi þar um síðustu helgi, því taskan mín var full af bókum sem ég hafði tekið með mér að heiman. Hins vegar kallaði ein bókin í hillum hótelsins á mig, og mér fannst ég ekki geta annað en sett inn mynd af henni:
Það var hvorki Förusveinninn Seiður hafs og ástar sem vakti athygli mína, heldur þessi gamalkunna skemmtibók, en ég veit að bókaflokkurinn er í miklum metum hjá fleiri druslubókabloggurum en mér: