Í hittifyrra gaf bandaríska bókaforlagið Marvel út myndabókaútgáfu af Hroka og hleypidómum eftir Jane Austen í nokkrum heftum. Nancy Butler stytti frumgerðina fyrir myndskreytingu, en hún hefur áður aðallega skrifað lífstykkjaástarsögur og ekki komið nærri myndabókaheiminum áður. Hugo Pertus, sem myndskreytir Hroka og hleypidóma, er einn af hústeiknurum Marvel en útgáfan er þekkt fyrir steríótýpískar súperhetjuteiknimyndasögur. Þetta leynir sér ekki í þrýstnu vaxtalagi Bennet-systra og vöðvamassa Darcy. Að óséðu lofa þessir höfundar eiginlega ekki góðu en það er eitthvað sem virkar alveg í þessari útgáfu og er skemmtilegt. Sagan er náttúrulega frábær af hálfu Austen, og Butler kemst ágætlega frá því að koma henni fyrir í þessum knappa miðli. Hún reynir að halda sig við texta Austen, persónusköpun hennar og hjarta sögunnar. Auðvitað vantar margt og sums staðar hefur þurft að semja upp á nýtt til að stytta frásögnina, en að mestu gengur þetta upp. Enda voru teiknimyndasögurnar rifnar út, jafnt af aðdáendum Jane Austen og ungum lesendum. Fór salan fram úr björtustu vonum Marvel og sat Hroki og hleypidómar í 13 vikur á New York Times Graphic Novel Bestseller list.
Marvel-útgáfan var því komin á Austen-bragðið og í fyrra birtust fimm blöð af Sense and Sensibility (sem ég get ekki munað hvað er kölluð í íslenskri þýðingu og Gegnir er lokaður) og er sami höfundur Nancy Butler aftur að verki. Það eru mjög ólíkir teiknarar sem myndskreyta sögurnar og hafa þær því ólíkt yfirbragð. Sonny Liew var fenginn til að myndskreyta Sense and Sensibility og fer mjúkum höndum um söguna. Hann er margverðlaunaður myndskreytir sem hefur meðal annars fengið Eisner-verðlaunin. Myndirnar eru fínlegar en ekki of sætar, vinna vel með frásögninni og ná að lyfta því mikla textamagni sem er á síðunum. Sense og Sensibility hefur aldrei verið nein uppáhaldsbók hjá mér (Persuasion er mín bók), kannski út af öllum þessum feiknalöngu útskýringum á því hvað gerðist og af hverju sem Austen treður út um alla frásögnina. Í þessari útgáfu sleppur maður undan þeim að mestu og lesendanum er bara leyft að daga sínar ályktanir óstuddur. Nú verð ég kannski skömmuð en mér finnst það til bóta.
Butler virðist hafa fundið sig hjá Marvel því nú í júlí kom fyrsta heftið af Emmu út og er ekkert lát á vinsældunum Austen-teiknimyndasagnanna. Ef þú ert ekki vön að lesa teiknimyndasögur þá eru þessar útgáfur á Austen ágætis leið til að kynnast þeim.
Helga Ferdinands
12 ummæli:
Hroki og hleypidómar er eina verk Austen sem hefur verið þýtt svo gegnir hefði lítið hjálpað með þýðingu á Sense and Sensibility!
Hins vegar hlakka ég vandræðalega mikið til þegar gegnir kemst í lag...
Maríanna
Mig langar í allar þessar! Og svo á ég fáránlega erfitt með að gera upp á milli Austen-bókanna. En Sense & Sensibility finnst mér kannski síst, sérstaklega afþví þar er bara sagt frá nokkrum veigamiklum atburðum, frekar en þeir séu sýndir.
Og svo er náttúrulega skandall að það sé ekki búið að þýða og gefa út meira eftir Austen.
Það er samt einhver minning af styttri þýðingu frá Sögusafni heimilanna sem er að flækjast fyrir mér. En mögulega er það flökkuminnning.
Helga Ferdinands
'Sense and Sensibility' hefur stundum verið kölluð 'Vonir og væntingar' á íslensku ef ég man rétt.
Þessar teiknimyndasögur virka annars áhugaverðar. Vitið þið hvort þær eru til í einhverjum búðum hérlendis? Eða á bókasöfnum? (Ekki getur maður flett því upp í Gegni sem stendur.)
Hverjum dettur annars í hug að loka Gegni í nokkra daga?!
Nexus er pleisið — ef hún er ekki til á lager, þá geturðu pantað hana.
(Annars er ég nokkuð viss um að P&P hafi fyrst komið út 2009 og S&S í fyrravor.)
Annars nittpikk útí hugtakanotkunina: Teiknimyndir eru teiknaðar kvikmyndir; teiknaðar bókmenntir eru myndasögur (eða teiknimyndasögur).
Hey, skemmtilegt. Hef aldrei lagt í Jane Austen, á samt fullt eftir hana uppi í hillu, hef bara ekki nennt að lesa þetta hingað til. Maður á náttúrlega samt ekki að viðurkenna svona lagað, nýútskrifaður bókmenntafræðingurinn.
Þessi fékkst í Bóksölu stúdenta um daginn, var að velta fyrir mér að kaupa hana en hætti við í einhverju kasti yfir því að það væri hvortsemer allt yfirfullt af bókum hjá mér, ekki að það hafi svosem oft stoppað mig áður ...
Takk fyrir ábendinguna um teiknimyndir/myndasögur, Þórarinn Björn. Lagaði færsluna svo ruglið í mér rugli ekki aðra.
Helga F
Þetta er aldeilis spennandi! Ég er einmitt að fara að grufla í Austen í vetur þannig að ég ætla að verða mér úti um Emmu. Ég myndi seint teljast sjóuð í myndasögubransanum en finnst ákveðnir angar hans virkilega heillandi. Mér finnst myndræn frásagnartækni oft svo mögnuð, kannski vegna þess að það er eitthvað sem ég á erfiðara með en orðin.
Myndasögur er líka frábær leið til að kynna klassískar bókmenntir fyrir þeim sem ekki hafa þol í bóklestri. Sjálf tel ég mig ágætan bókalesara, en hef alltaf gaman af því að glugga í myndasögubækur í bókabúðum erlendis - úrvalið er líka á svo allt öðru plani heldur en hér.
Skrifa ummæli