1. ágúst 2011

Fyndnasta bók í heimi - og nokkrar alvarlegar vangaveltur



Besta Mona,

Mér er mikil ánægja að skrifa þetta bréf. Til að heiðra jafnaðarstefnuna hef ég látið útbúa búning handa þér. Búningurinn er einstakur og táknrænn fyrir Svíþjóð. Ég hef unnið hann úr efnum á borð við elgsskinn, stál, birki, trjábörk, ull og gerviefni. Það má segja að búningurinn sé eins konar nútíma þjóðbúningur. Ég myndi vilja afhenda þér hann án tafar. Get ég komið við í eigin persónu eða á ég að senda hann með pósti?

Kær kveðja
Eric Ericson


Þannig byrjar fyndnasta bók í heimi, Brev till samhället (Bréf til samfélagsins) eftir Eric Ericsson som kom fyrst út árið 2003. Á eftir bréfinu til Monu Sahlin, þáverandi iðnaðarráðherra, (sem er hér að ofan í afar lauslegri þýðingu minni) kemur svar Monu við bréfinu og í kjölfarið koma svo ein sextíu bréf sem Eric hefur sent til ýmissa opinberra- og einkaaðila í Svíþjóð með undarlegum uppástungum, tilboðum eða kvörtunum ásamt svörunum sem hann fékk við þeim.

Þótt öll bréfin séu undirrituð af Eric sjálfum er það ekki alltaf sami Eric sem skrifar. Stundum skrifar hann fyrir hönd einhverra undarlegra og upploginna hópa, til dæmis danshópsins „Synir Mathautnasar“ sem boðar komu sína í samkomuhús úti á landi þar sem þeir hyggjast dansa og setja upp málverkasýningu yfir 10 daga tímabil; fyrir hönd dýravina víðsvegar um Svíþjóð sem hyggjast setja á laggirnar útvarpsstöð fyrir dýr og eru að leita að styrktaraðilum eða fyrir hönd hóps frumbyggja Norður Ameríku sem eru að leita eftir stað í Svíþjóð til að seta upp friðlýst landsvæði indjána. Flest bréfin eru þó frá einstaklingnum Eric Ericson sem liggur eitt og annað á hjarta. Í þeim bréfum koma dýr bréfritara gjarnan við sögu, eins og í þessu sem er sent til fyrirtækisins í tómstundageiranum:

Ég á margar litlar mýs sem vilja fljúga í fjarstýrðri flugvél. Hver mús vill fljúga í ca 15 mínútur. Ég vil líka taka myndir af músunum þegar þær fljúga. Ég kem til ykkar 17 desember. Hafið samband eins fljótt og hægt er ef þið getið ekki flogið músunum þá.

Með hlýjum kveðjum
Eric Ericson

Það er auðvitað vonlaust að koma öllum bréfunum til skila í stuttum bloggpistli. Og enn erfiðara að koma því til skila hvað þau eru hræðilega hræðilega fyndin. En ég meina, klæðið bara Monu Sahlin í búning úr skinni, stáli og gerviefnum í huganum! Eða ímyndið ykkur „samtalið“ þar sem mýsnar færa rök fyrir því að það væri alls ekki nóg að fljúga í 10 mínútur – og ekki síst gleðistundirar sem maður og mýs munu eiga í framtíðinni þegar þau skoða albúmið með myndunum frá þessum góða degi! Mörg bréfanna fanga á írónískan hátt stemmninguna í sænsku samfélagi. Þessa eilífu þörf fyrir að „ræða opinskátt um sjálfið“, losa um hömlur með því að „hreyfa sig í takt við tónlist“ eða borða af grænmetishlaðborði. Í sumum bréfanna hefur hugmyndinni um hið útópíska jafnaðarsamfélag líka verið ýtt út á ystu nöf. Eins og til dæmis í bréfinu sem er skrifað fyrir hönd félagsins „Vinir Thomasar Olsson“ þar sem hópurinn leitar eftir kattahóteli sem er tilbúið að hýsa mann sem varð fyrir vörubíl og hefur síðan haldið að hann sé köttur. En um leið og bréfin eru óendanlega fyndin eru þau óendanlega sorgleg. Einstæðingsskapurinn er svo skerandi og þessar máttlitlu tilraunir til að teygja höndina út í samfélagið svo angistarfullar. Undir yfirborði hins sturlaða manns er hyldýpi einmanaleika, einangrunar og útskúfunar. Kannski dýrabréfin séu einmitt sterkasta birtingarmynd þessa. Sá sem lifir í samfélagi með dýrum, talar við mýs eða á húsdýr sem „finnst gaman að vera á sviði“ (nokkuð mörg bréf fjalla einmitt um það!) er kannski kominn eins langt frá mannlegu samfélagi og hugsast getur.

Það er einmitt samfélagið og uppbygging þess sem er höfundinum Eric Ericson hugleikið. (Því þótt bréfritararnir séu margir ólíkir skáldaðir einstaklingar undir sama nafni er Eric Ericson raunverulegur. Meðal annarra athyglisverðra verka hans er heilt hverfi af fjölbýlishúsum fyrir fugla – í tilraun til að samfélagsvæða þá, að hans eigin sögn!) Í Brev till samhället eru svarbréfin helsta birtingarmynd samfélagsins. Og samfélagið sem þar birtist er bæði fjandsamlegt og lokað. Í stuttu máli eru flest svörin neitandi: Við höfum ekki áhuga á að taka þátt í þessu verkefni; fyrirtækið er lokað á þessum tíma; afbókaðu þessa heimsókn strax; EKKI KOMA!!! Svörin bera flest vott um að tryllingsleg örvænting hafi gripið um sig við komu bréfanna og eru þar af leiðandi alveg jafnfyndin og bréf Erics sjálfs. Nokkur þeirra eru vingjarnleg en hafnandi en bara örfáir taka vel í fyrirspurnir eða uppástungur bréfanna. Það er auðvitað helber hræsni af mér að ætla gagnrýna þessi viðbrögð. Ég er nokkuð viss um að ég hefði brugðist nákvæmlega svona við ef ég hefði verið starfsmaður í litlu bakaríi úti á landi og fengið tilkynningu um að 160 „vináttu starfsmenn“ frá Súdan væru á leiðinni til mín til að baka! En engu að síður, er ekki eitthvað bogið við það hversu litla þolinmæði við höfum fyrir öllu sem er öðruvísi, fyrir hinu skrýtna og óþekkta? Eitt bréfið sem sent var til nokkurra ólíkra aðila fjallar til dæmis um að hópur innflytjendenda muni koma að heimsækja fyrirtækið og grilla á bílaplaninu. Hópurinn muni sjálfur koma með allt með sem þurfi og standa straum af kostnaði við auglýsingar fyrir viðburðinn. Í öllum tilvikum neituðu fyrirtækin heimsókninni, stundum á ákaflega dónalegan hátt. Hvers vegna í ósköpunum? Við hvað erum við eiginlega hrædd?

Brev till samhället var fylgt eftir með bókinni Brev til utlandet (Bréf til útlanda) árið 2006. Við gerð hennar sendi Eric Ericson bréf til allra landa í heiminum. Bréfin eru í svipuðum dúr og þau úr fyrri bókinni en öll á ensku. Því miður nær seinni bókin ekki alveg sömu hæðum og hin fyrri. Í fyrsta lagi vegna þess að Eric hefur smitast of mikið af ýmiss konar flökkusögum um ringlaða neytendur. Við erum einfaldlega búin að heyra of oft sögur af fólki sem reyndi að þurrka köttinn í örbylgjuofni til að hafa mikið gaman af bréfum þar sem reynt er að nota sinnep sem andlitskrem eða borða dýrafóður í stórum stíl. Stærsti gallinn er þó að tragikómíkina vantar nær algjörlega. Bréfin skoppa meira á yfirborði einhvers konar haha-brandara og vantar þetta djúp undir niðri sem er fyrir mér kjarni fyrri bókarinnar.

Að einu leyti eru útlandabréfin þó sérstaklega athyglisverð og það eru svörin. Í útlöndum virðast menn nefnilega töluvert jákvæðari fyrir alls kyns viðskiptum. Þónokkrir sýna því til dæmis áhuga að fá gefins dverg sem áður hefur verið í eigu efnaðrar fjölskyldu. Kínverskur sápuframleiðandi telur að hann geti framleitt sleikjósápu fyrir bréfritara sem á í senn að stemma stigu við vaxandi óhreinlæti ungmenna sem og ginna þau til þess sem þau hafi mestan áhuga á, nefnilega nammiáti! Auglýsingastofa í Egyptalandi er meira en til í að taka þátt í herferð sem gengur út á að fá húsdýr til að ánetjast tóbaki og indverskt fyrirtæki telur að þeir geti auðveldlega framleitt ilmvatn sem lykti eins og draugur, flauta og teningur – bara ekkert mál! Það er væri gaman að geta sagt að sennilega væru útlensk samfélög opnari og umburðarlyndari en það sænska en því miður er ég hrædd um að það væri fjarri sannleikanum. Staðreyndin er sú að bréfin í seinni bókinni snúast meira um undarlegar viðskiptahugmyndir en beinar hótanir um að mæta á svæðið eins og í þeirri fyrri. Og þegar kemur að undarlegum viðskiptahugmyndum, ja þá er því miður alltaf til fólk sem er tilbúið að notfæra sér ruglaða og einmana einstaklinga (nú eða dverga í þrælahaldi) í von um skjótfenginn gróða.

En nú virðist ég búin gleyma að pistillinn átti að fjalla um fyndnustu bók í heimi en ekki um einangrun, vonsku heimsins eða annan hrylling (þakkið bara fyrir að ég strokaði efnisgreinina sem fjallaði um norska hryðjuverkamanninn út fyrir birtingu!). Staðreyndin er hins vegar sú að besta grínið er auðvitað það sem hefur alvarlegan undirtón og um leið að grín getur verið besta leiðin til að koma mikilvægum málum til skila. Þess vegna held ég að ég sendi fljótlega út mýgrút af bréfum, meðal annars til ýmissa opinberra stofnana og einkafyrirtækja sem byrja svona:

Þann 13. september mæti ég til ykkar til þess að lesa upp úr fyndinni bók ...

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Komdu fagnandi, Guðrún Lára. En hvað er með norska hryðjuverkamanninn?

Guðrún Lára sagði...

Ja það var eitthvað svona með að kannski bæri okkur að taka einangraða menn sem lýstu yfir undarlegum skoðunum alvarlega og mæta þeim í samræðu í staðinn fyrir að segja "ég verð ekki við". Það eru alveg bréf þarna inn á milli sem hafa hættulegan tón, lýsa öfgafullum skoðunum og hóta að taka til vopna (að vísu til verndar fílum!) sem er bara mætt með útilokun.
En þetta var sem sagt of illa ígrundað og leiðinlegt að vera með!