18. október 2011

Börnin í svínastíunni

Susanna Alakoski


Tilkynnt var á dögunum að kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 falli í skaut Pernillu August fyrir myndina Svínastíuna (s. Svinalängorna). Ég taldi því ekki seinna vænna að skella í umfjöllun um bók Susönnu Alakoski, sem myndin er byggð á og ég hef einmitt nýlokið við. Myndin verður sýnd áfram í Bíó Paradís í Reykjavík, að minnsta kosti út þessa viku.
Svínastían eða Svinalängorna er fyrsta skáldsaga Alakoski og kom út árið 2006. Alakoski er Svíþjóðarfinni – þ.e.a.s. ekki Finnlandssvíi, sem er sænskumælandi Finni – heldur er hún finnskumælandi Svíi. Hún er þó tvítyngd og skrifar á sænsku.

Sögusvið Svínastíunnar er skánski smábærinn Ystad á 7. og 8. áratugum 20. aldar. Sagan er frásögn Leenu, miðjubarns Moilanen-fjölskyldunnar, sem flust hefur þangað búferlum frá Finnlandi og býr í félagsblokk sem í daglegu tali er nefnd Svínastían. (Ég hef hvergi séð það nefnt að Alakoski byggi bókina á eigin barnæsku, en í það minnsta ólst hún sjálf upp í Ystad og er greinilegt að hún þekkir bæinn og samfélagið vel.) Eins og skáldsagnasögumenn á barnsaldri eiga til er Leena með eindæmum athugul og vakandi fyrir umhverfi sínu og fólki í kringum sig. Vægi þess í frásögninni er mismikið – bræðurnir tveir verða aldrei meira en aukapersónur og af börnum bókarinnar eru vinir Leenu mun fyrirferðarmeiri – en það eru foreldrarnir sem athygli hennar beinist lengst af að. Þau eru áfengissjúkt túrafólk, ástandið á heimilinu versnar jafnt og þétt og veldur Leenu gríðarmiklu hugarangri sem aldrei er langt undan, hvort sem þau eru þurr þá stundina eða ekki.

Annað þema bókarinnar, þó fyrirferðarminna sé, er staða innflytjandans. Það er staðreynd að á þessum tíma þótti síst fínt að vera finnskur í Svíþjóð. [Amma mín, sem er á aldur við foreldrana í bókinni, hefur sagt mér að þegar hún eitt sinn heimsótti íslenska vinkonu til Svíþjóðar bannaði vinkonan henni í fyllstu alvöru að tala íslensku við sig á almannafæri, því nærstaddir gætu tekið þær fyrir Finna og þar af leiðandi litið niður á þær!] Í rauninni vottar tæpast fyrir fordómum af því tagi í sögunni, en það er ljóst að foreldrarnir eru meðvituð um möguleikann og þjást jafnvel af minnimáttarkennd – finnst embættisfólk velferðarkerfisins stöðugt gera lítið úr sér undir yfirskini hjálpsemi og umhyggju. Auðvitað ber nafngiftin „svínastían“ vitni um fyrirlitningu gagnvart íbúunum, en það er þá frekar félagslegt snobb en beinlínis þjóðernislegt.

Persónur foreldranna eru vel gerðar og mannlegar. Allir átta sig jú fyrr eða síðar á því að foreldrar eru engar ofurhetjur, heldur fólk sem reynir að lifa lífi sínu á einn veg eða annan, en börn alkóhólista læra slíkt líklega fyrr og með harkalegri hætti en mörg önnur. Leena lendir snemma í því hlutverki að gæta foreldra sinna, meira en þau eru fær um að gæta hennar.

Foreldrarnir sakna Finnlands, þótt þau bölvi því inn á milli og séu meðvituð um ýmsa kosti sænsks þjóðfélags. Bestu vinir þeirra, hjónin Helmi og Veikko, eru líka finnsk og dóttir þeirra Riitta er besta vinkona Leenu. Mæðurnar tala stundum finnsku saman og tala oft um Finnland. Þegar pabbarnir hittast tala þeir minna en drekka þeim mun meira. Pabbi Leenu losnar aldrei alveg við finnska hreiminn af sænskunni, sem í bókinni er sýndur gegnum stafsetningu – „skrattar bäst som skrattar sist“ eða sá hlær best sem síðast hlær verður þannig „krattar päst som krattar sist!“. Hann röflar um afrek finnskra íþróttamanna, syngur finnska söngva og stundar sánuna af kappi. Það er ömurlega mótsagnakennt að finna til stolts af uppruna sínum en skammast sín jafnframt vegna fordóma annarra gagnvart honum, og það reynist foreldrunum greinilega erfitt. Karlarnir eiga jafnvel erfiðara, sökum þess að tala ekki um eigin líðan. Konurnar tala tímunum saman, bæði í símann og yfir kaffi, en Veikko segir varla orð yfirleitt nema vera í glasi. Helmi drekkur alls ekki og Leena öfundar Riittu af því – sem bendir þá á að pabbi Leenu sé þó að minnsta kosti ekki alltaf fullur, eins og pabbi hennar. Mamma Leenu réttlætir eigin drykkju með því að hún verði að drekka með pabba hennar, til þess einfaldlega að geta þolað hann.

Það eru þó ekki bara Finnarnir og aðrir innflytjendur Svínastíunnar sem drekka eins og svín, heldur Svíarnir líka - t.d. mamma vinkonu Leenu úr næstu íbúð og kærasti hennar. En þó er skýr félagslegur munur á aðstæðum þeirra, sem birtist m.a. í atvinnumöguleikum og fjárráðum – kærastinn er yfirmaður pabba Leenu í verksmiðjunni – og auðvitað verður ofdrykkja stærra vandamál innan fjölskyldu sem hefur alls ekki efni á henni, eins og fjölskyldur Leenu og Riittu.

Ég á eftir að sjá myndina og hef svosem ekki haft fyrir því að lesa mér til um hana sérstaklega, en það verður forvitnilegt að bera hana saman við bókina – hvort henni takist jafn vel að draga upp raunalega mynd af hrelldri barnssál, en halda samt jarðtengingunni. Eftir verðlaunaveitingar og annað lof tel ég víst að myndin sé góð, en eiginlega er ég viss um að hún hljóti að einhverju leyti að fegra frásögnina aðeins. Þó ekki sé nema í yfirborðslegum hlutum, eins og að mamman sé grennri og pabbinn froðufelli minna. En ég mæli hiklaust með bókinni, sem er til á sænsku á bókasöfnum Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Garðabæjar og Norræna hússins.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff, bókin má vera svakaleg ef myndin fegrar eitthvað. Ég sá hana í gær og varð nóg um. En ég tek strax eftir því að eldri bróðirinn hverfur. Í myndinni á Leena bara yngri bróður.

JYJ

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ég hef ekki séð myndina - en lesið bæði bókina og séð leikgerð.

Ég átta mig samt ekki á því hvað þú átt við með að fordómarnir hafi verið „félagslegir“ frekar en „þjóðernislegir“ - Svíar höfðu einfaldlega mjög mikla þjóðernisfordóma í garð Finna, sem lýsti sér meðal annars í því að margir Finnar fóru í grafgötur með þjóðerni sitt í Svíþjóð, skiptu um nöfn og hættu að tala finnsku og ég veit ekki hvað og hvað. Sem er til dæmis ástæðan fyrir því að Alakoski talar víst sjálf mjög lélega finnsku.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Trúi því líka alveg. Það er auðvitað meginpunktur sögunnar, þetta hrikalega ástand. Ég átti helst við að ég býst við þessari snurfusuðu áferð sem persónur kvikmynda hafa, sama hvort um er að ræða útigangsfólk eða langt leidda alkóhólista - það er kannski "stating the obvious"...

En myndir sem ekki koma frá Hollívúdd eru reyndar oft aðeins eðlilegri með svona langað.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Já, það er alveg rétt hjá þér, Eiríkur. Ég átti við að nafngiftin Svínastían vísaði fremur í félagslega stöðu, því þar bjuggu ekki bara Finnar eða bara innflytjendur, heldur fólk sem átti lága félagslega stöðu sameiginlega, einnig Svíar.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Bókin er miklu betri finnst mér. Ég er ekki eins hrifin af myndinni og margir. Í bókinni er húmor sem er ekki í myndinni. Tímabilið þar sem þau eru eldri í myndinni, mamman á spítala etc. er allt skáldað upp, bókin lýsir bara æsku Leenu og systkina hennar.
Þegar ég sá myndina datt mér í hug Djöflaeyjan. Fólkið í bókinni er sorglegt og kómískt en fólkið í myndinni eiginlega bara sorglegt.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég sá einhversstaðar í viðtali að Alakoski byggi að einhverju leyti á eigin barnæsku, en því miður finn ég ekki viðtalið (ég las það örugglega fyrir nokkrum árum).

Kristín Svava sagði...

Ég hef ekki séð né lesið Svínastíuna, en ég hef einmitt stundum séð það gerast sem þú nefnir, Þórdís, að myndir byggðar á bókum sem fjalla um erfiðar aðstæður verða svo átakanlega realískar að kímnin í frásögninni dettur alveg út og maður leggst í þunglyndi á eftir.

Mér detta í hug Djöflaeyjan og Angela´s Ashes. Ég sá myndirnar báðar þegar ég var krakki og sór og sárt við lagði að ég skyldi aldrei lesa þessar hræðilegu bækur. Svo gerði ég það, sennilega í skólanum, og þær voru miklu auðveldari aflestrar.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Já, bókin er nefnilega mjög húmorísk, það hefði mátt koma betur fram hjá mér!

En þetta er góður punktur, með bækur og bíómyndir af þessari sort. Eins og stundum sé ekki hægt, eða að minnsta kosti miklu erfiðara, að koma mannlegu núönsunum (eða jarðtengingunni) úr frásögninni almennilega til skila í mynd. Verður oft allt að því yfirdrifin hörmung.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það er einmitt málið. Það er hægt að lýsa fólki kómískt í öllum hryllingnum en þegar það er komið á mynd þá verður það of ...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Angelas' Ashes finnst mér æðisleg bók (og framhaldsbækurnar líka) en ég meikaði ekki að horfa á myndina til enda. Ég var orðin svo miður mín yfir öllu volæðinu að ég hætti í miðju kafi.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst bókin mjög góð, og húmorisk miðað við hvað sagan um fjölskylduna er eins og saga um áfengissýki er, sifellt versnandi og vonlaus. Hafði einkum gaman að tungumálinu í byrjuninni, með öllum finnskuskotum.
En það finnst mér ömurlegt hvað Finnar hafa alltaf svona sögu að segja. Satt má þó vera að margir þeirra sem fluttu til Svíþjóðar á sinum tíma voru sveitafólk og gengu í gegnum margfaldan menningarsjókk, flytja i annað land, byrja að vinna í verksmiðju og búa í blokk. Þó að ekki fóru þeir allir í hundana. Þeir sem vinna sina vinnu eru ekki frásögum færandi, en það er alltaf Litáui sem stelur og Finni sem er fullur.
Og mig grunar að svona hálfrasistiskt viðhorf eða hugarfar er ennþá viðloðandi hjá Svíum og Finnar sem hafa aðlagast hafa tileinkað sér það: Finninn á bara að vinna og steinhalda kjafti. Hvernig er hægt annars að útskýra að margir eru með finnskan bakgrunn í Svíþjóð, en örfáir hafa eitthvað skrifað (til dæmis) og það á sænsku. Finnsk alþýðuskáld í Svíþjóð... ég veit um ekkert dæmi. Ef maður ber það saman með Finnlandssænskar bókmenntir, miðað við höfðatölu, eru þær ekki á sömu plánetu.

gott að þú tókst þessa bók í umfjöllun, Erla!

kv.
Tapio