12. desember 2013

Karlar lesa ekki kerlingar

Mál málanna á Facebook undanfarna daga hefur verið að telja upp tíu bækur sem hafa haft áhrif á líf viðkomandi. Ég hef séð lista frá ýmsum vinum mínum og líka vinum þeirra. Eitt helsta einkenni þessara lista kemur svo sem ekki á óvart: karlar lesa helst ekki bækur eftir konur, alla vega ekki þannig að þeir telji bækur þeirra hafa haft áhrif á sig. Nú veit ég að það er ekki alltaf að marka yfirsýn sem verður til við að renna yfir hlutina, þannig er hægt að upplifa kynjaslagsíðu án þess að hún sé til staðar rétt eins og mögulegt er að einhverjir taki ekki eftir slagsíðu sem er til staðar. Ég ákvað því að safna saman upplýsingum í snyrtilegt Excelskjal og greina tölurnar. Ég tíndi til 20 konur og 20 karla, sem ýmist eru vinir mínir á Facebook eða vinir vina minna, og kyngreindi listana þeirra. Val mitt var svo sem ekki hávísindalegt, þetta var það sem ég fann á veggjum vina minna eða vina þeirra og ég hætti þegar ég var komin með 20 af hvoru kyni.

Alls voru tilnefningar 417 (nokkrir nefndu aðeins fleiri en tíu bækur og örfáir færri). Ég tala um tilnefningar því margir nefndu auðvitað sömu bækurnar. Tilnefningar eftir karlkyns höfunda voru 309, eða 74%, og eftir kvenkyns höfunda 108, eða 26%. Hjá körlum voru tilnefningar 192 eftir karla og 21 eftir konur, þ.e. 90% og 10%. Hjá konum voru tilnefningar 117 og 86, eða 58% og 42%.

Tíu af körlunum tuttugu nefndu enga bók eftir konu. Tveir nefndu fimm af hvoru kyni. Gaman er að segja frá því að þessir tveir voru báðir með mér í BA-námi í heimspeki fyrir nokkuð löngu og þeir eru báðir að norðan. Þeir átta karlar sem eftir standa nefna ýmist eina eða tvær bækur eftir konur. Bækur norrænu barnabókahöfundanna Astrid Lindgren og Tove Jansson eru greinilega körlum hugstæðastar af bókum eftir konur þar sem um er að ræða bækur eftir þær í ellefu tilfellum af tuttugu og einu. Þessi blinda á bókmenntir kvenna kemur svo sem ekki á óvart. Ég man eftir strákum sem voru með mér í menntaskóla sem töldu sig vel lesna og sem tóku það sérstaklega fram að þeir læsu aldrei bækur eftir konur.

Engin af konunum nefndi aðeins bækur eftir karla en ein nefndi eingöngu bækur eftir konur. Þrjár í viðbót nefndu fleiri bækur eftir konur en karla og sex kvennanna skiptu tilnefningum jafnt milli kynja. Hinar tíu konurnar nefndu allar fleiri bækur eftir karla en konur. Konan sem nefndi aðeins bækur eftir konur fékk eftirfarandi athugasemd við listann (frá karlmanni): „Bara konur - sama og flestar aðrar konur hér á FB“. Einmitt, þvílík ósvífni að nefna bara bækur eftir konur!

Meðal karlanna sem nefndu engar eða sárafáar bækur eftir konur eru þjóðþekktir rithöfundar, menn í störfum við bókaútgáfu og bókaumfjöllun og menn sem eru yfirlýstir femínistar eða stuðningsmenn kvennabaráttu. Mér finnst það ekki í lagi. Vissulega eru svona listar ekki settir fram af einhverri stórkostlegri alvöru en ég fellst samt ekki á að það skipti ekki máli hvernig þeir eru samansettir. Það skiptir máli hverju maður hampar sem merkilegu og mikilvægu, jafnvel þótt það sé hluti af leik. Val okkar á hinum ýmsu hlutum hefur áhrif á aðra í kringum okkur, það hvernig þeir upplifa heiminn og það smitar út frá sér. Þetta gildir ekki síst ef viðkomandi er stöðu sinnar vegna talinn meira marktækur en meðaljóninn um viðkomandi efni.




3 ummæli:

Einar Steingrimsson sagði...

Af hverju er það "ekki í lagi" að fólk segi frá því hvaða bækur það telji hafa haft mest áhrif á sig, án þess að setja fyrst kynjakvóta á listann?

Og hvert væri "eðlilegt" hlutfall á svona lista, þegar nokkuð víst er að hlutföll milli karl- og kvenrithöfunda hafi ekki verið fjarri þessu lagi (75-25), sérstaklega á því tímabili sem líklegt er að fólkið í umrædu úrtaki hafi lesið margar bækur sem höfðu mikil áhrif á það?

Bjartur Thorlacius sagði...

Þú nefndir að karlar hefðu nefnt norrænar barnabækur eftir konur. Náðu aðrar tegundir bóka á lista? Og hvort lásu karlar þær bækur frekar eftir karlhöfunda en barnabækur, eða voru fjölbreyttari í vali sínu á á kvenhöfundum?

Svo er spurning hvers vegna karlar nefna svo rosalega fáar bækur eftir kvenhöfunda. Kannski gagnast að vita hvaða tegundir bóka karlar nefna ekki eða lesa ekki eftir kvenkyns rithöfunda.


---
Lang því frá allir rithöfundar eru í rithöfundasambandi Íslands*. En 58% meðlima þess eru karlar. Nú kom ekki hvorki fram hversu gamlir þátttakendur í könnuninni voru, né hversu gamlar bækur þeir nefndu, en núlifandi íslenzkir rithöfundar virðast vera jafn margir af hvoru kyni.

$ wc -l karlar konur
246 karlar
173 konur
419 alls

* http://rsi.is/felagatal/

Helgi Jóhann sagði...

Ég finn það ekki hjá mér að kyn bókahöfundar hafi nokkur minnstu áhrif á bókaval mitt. Í æsku hafði Astrid Lingren án vafa mest áhrif á mig og svo las ég allar bækur Enid Blyton á íslenksu — hvorttveggja konur án þess að ég minnist þess að hafa spáð í það.
Fyrir mér hafði það merkingu hvort höfundur var þekktur af t.d. góðum spennusögum eða hvort hann skrifað rómantík. Þ.e. ef ég leita að spennusögu þá vel ég ekki rómantíska ástarsögu.
Seinni ár eru það þó ævisögur og fræðsluefni hverskonar sem ég les mest og þá er það fyrst og fremst viðfangsefnið en ekki kyn höfundar sem ræður vali.