23. mars 2010

Dánir og drykkfelldir pabbar

Eins og Guðrún Lára minntist á fyrir löngu þá er allt vaðandi í dauðum pöbbum í sænskum bókmenntum þessi misserin. Af þeim pabbabókum sem ég hef lesið eiga pabbarnir það helst sameiginlegt að vera góðhjartaðir, ölkærir og klaufskir á tilfinningasviðinu, svona eins og margt fólk. Ef flokka á bókina hans Michaels Nyqvists sem pabbabók er annar pabbinn þar þó undantekning, líffræðilegur pabbi Michaels er fíngerður bindindismaður sem borðar ekki rautt kjöt, en hann er náttúrlega exótískur Ítali sem hittir ekki strákinn sinn fyrr en sá síðarnefndi er fullorðinn, sænski pabbi hans er hins vegar náskyldur sænsku pabbabókapöbbunum.*

Bók Åsu Linderborg, Mig äger ingen, las ég í fyrra og er mjög hrifin af henni eins og ritdómarar og lesendur voru almennt. Bókin er fallega skrifuð, höfundurinn er snjall sagnfræðingur og blaðamaður sem vandar sig. Åsa Linderborg (eða söguhetjan, menn eru ekki á einu máli um hvað er skáldað í verkinu) á mömmu sem fór þegar dóttirin var fjögurra ára, hún hafði náð sér í annan mann og skildi stelpuna eftir hjá pabba sínum. Pabbinn, Leif, var stálverksmiðjustarfsmaður, sannur sósíalisti og virkur alkohólisti, sem elskaði dótturina takmarkalaust þó að hann drykki út alla peningana og þau þyrftu að sníkja mat. Þau notuðu engin sængurföt, stelpan var klædd eins og henni sýndist, mataræðið var ekki beint eftir ráðleggingum Lýðheilsustofnunar og það var voða lítið verið að þrífa sig. En pabbinn er góður og skemmtilegur svo langt sem það nær þó að dóttirin sæki sífellt meira til mömmu sinnar þegar hún kemst á unglingsár og sambandið við hann slitni. Þegar hún eignast sjálf barn tekur hún upp þráðinn að einhverju leyti en samt á hún erfitt með að umgangast Leif, hann passar ekki inn í líf hennar. Ég er sem fyrr segir hrifin af bók Åsu Linderborg, hún er skemmtileg, opin í marga enda, býður upp á allskonar vangaveltur um svik og samskipti (henni finnst hún svíkja pabba sinn), sænskt velferðarkerfi, stéttaskiptingu og stöðu kynjanna.

Einhversstaðar las ég að titillinn, Mig äger ingen, sé tilvitnun í ljóð eftir Ekelöf (ekki ætla ég að þykjast þekkja það) en titill bókarinnar sem ég las í gær, Skynda att älska eftir Alex Schulman, er tilvitnun í fallega og sorglega Haustvísu Tove Jansson. Þar er komin önnur pabbabók en um allt öðruvísi fólk en í þeirri fyrrnefndu. Alex Schulman skrifar um pabba af finnlandssænskum aðalsættum sem var einn fyrsti frægi sjónvarpsþáttagerðarmaður Svía. Alex Schulman, sem er þekktur í heimalandinu fyrir að hafa á tímabili skrifað mest lesna blogg landsins, verið blaðamaður á slúðurpressunni og sjónvarpsstjarna, er fæddur 1976 en pabbi hans var að nálgast sextugt þegar hann fæddist. Pabbinn, Allan Schulman, átti sem fyrr segir langt líf að baki og uppkomin börn þegar Alex og bræður hans tveir fæddust, mamman var þrjátíu árum yngri. Bókin lýsir því hvernig er að eiga gamalmenni að föður. Þegar Alex er enn kornungur fer hann á elliheimilið í heimsókn en pabbinn deyr hátt á níræðisaldri þegar sonurinn er tuttugu og sjö. Nokkrum árum síðar (gott ef hann er ekki sjálfur að fara að eignast barn) fer sonurinn í þerapíu og þarf bæði að vinna sig út úr sorginni og því að hafa alltaf séð pabba sinn í gullnum bjarma þrátt fyrir að karlinn hafi greinilega verið óttalegt ólíkindatól sem fékk geðillskuköst og át pillur í baukavís og drakk viskí í kassavís.

Ég held að mörgum Svíum þyki ekki síst gaman að lesa þetta vegna þess að feðgarnir eru/voru frægir og auk þess er mikill nostalgíutónn í öllu saman. Þarna er lýst sænskum sumrum þar sem menn dvelja í gömlum sumarhúsum, svamla í vötnum og veiða geddur og aborra eins og múmínfjölskyldan og vinir þeirra á góðum degi. Þó að bók Schulmans sé svosem þokkaleg þá höfðaði hún ekki eins mikið til mín og bók Michaels Nyqvists, svo ég ekki tali um bók Åsu Linderborg, sem ber af.

Þórdís

* Nú dettur mér skyndilega í hug hvort bækurnar um Einar Áskel séu ekki eins konar forveri eða áhrifavaldur pabbabókategundarinnar – hvernig er pabbi Einars Áskels?

15 ummæli:

HarpaJ sagði...

Ætli enginn hafi skrifað svona ,,fanfiction" bók um pabba Einars Áskels?

Þórdís sagði...

Johan Harstad gerði það eiginlega. Bókin hans, Hässelby, fjallar um Einar þegar hann er orðinn stór og á í samskiptaörðugleikum við þunglyndan föður sinn.

hildigunnur sagði...

Mér datt einmitt Einar Áskell í hug þegar ég las upphafið á þessum pistli.

hildigunnur sagði...

já og þýðir äger agar?

Þórdís sagði...

Nei Hildigunnur, heldur betur ekki.

Gunnar Hrafn sagði...

Pabbi hans Einars Áskels er alla vega drykkfeldur eftir sænskum stöðlum (hann drekkur öl upp úr hádegi á laugardegi) og hann reykir pípu við morgunverðarborðið. Svo finnast mér uppeldisaðferðir hans heldur furðulegar (þið verðið bara að lesa milli línanna, ég nenni ekki að telja upp allt sem fer í taugarnar á mér).

Þórdís sagði...

Ertu búinn að lesa eitthvað af þessum pabbabókum Gunnar Hrafn eða læturðu Lizu Marklund og Läckberg-týpuna duga?

Gunnar Hrafn sagði...

Já, ég les ekki annað en Läckberg, sko. Hún er svo æði! Annars er ég bara svo upptekinn að gera betur við börnin mín en faðir minn gerði við mig að ég hef ekki tíma til að lesa annað en Einar Áskel og Báru og Benna.

Nei, annars. Að öllu gríni slepptu þá hef ég átt bókina Åsu Linderborgar lengi og ætla endanlega að láta verða að því að lesa hana í páskafríinu. Schulman fer svo í taugarnar á mér að mér dettur ekki í hug að snerta þá bók. Svínalengjuna las ég fyrir löngu. Hún passar ágætlega í þennan naflaskoðunarsjangra.

Þórdís sagði...

Já, Svínalengjurnar er einmitt einn anginn. Og Schulman sýnist mér alveg geta verið óttalegt viðrini, ég er eiginlega fegin að hafa alveg misst af honum nema í bókarformi :)

GK sagði...

Hvað þýðir: Skynda att älska, Þórdís?

Þórdís sagði...

Flýttu (þér) að elska.

Skellur sagði...

Läckberg, my ass. Einn ofmetnasti höfundur síðustu alda. Yrði skárri ef hún sleppti smákökubakstrinum og öðru svipuðu dúlleríi. Má eg biðja um meiri aksjón, plís.

Þórdís sagði...

Blessunin hún Camilla hefur fengið slæma útreið hér: http://bokvit.midjan.is/2009/03/31/camilla-lackberg/

Gunnar Hrafn sagði...

Skellur, ég mæli með því að þú sjáir sjónvarpsmyndirnar sem hafa verið gerðar eftir bókum Läckberg. Þær eru sko fullar af aksjón!

Guðrún Lára sagði...

Fyrir utan að fólk hefur áhuga á bók Alex vegna frægðar þeirra feðga held ég að vinsældir hennar megi líka rekja til þess að hún er eins konar fönixupprisa grimmasta bloggara landsins. Maðurinn sem áður grætti fjölda manns á hverjum degi með ilkvittnislegum athugasemdum ætlar nú að koma tárunum út á fólki í gegnum hugljúfar endurminningar. Og fólk kaupir bókina í brettavís til að sjá með eigin augum hvort þetta sé virkilega satt, að hann hafi svo bara verið svona rosalega góður inn við beinið eftir allt saman. Þetta kalla ég almennilega sjálfssköpun og magnað sölutrix og bíð spennt eftir að sjá frekari sviðsetningar mannsins á sjálfum sér!

Í eldgamla pistlinum mínum velti ég upp spurningunni um hvers vegna það væru svona fáar mömmubækur. Ég rakst á grein um daginn sem var eins og svar við þeirri spurningu, skrifuð af Calle Schulman sem er einmitt bróðir umrædds Alex. Sjá hér: http://www.expressen.se/debatt/1.1725437/debatt-darfor-hyllar-vi-bara-vara-pappor. Dáldið gott.