Ár hérans eftir Arto Paasilinna kom út árið 1975, en var gefin út í íslenskri þýðingu árið 1999. Ég fékk bókina að láni frá nágrannakonu minni fyrir löngu síðan og var loksins að koma mér að því að lesa hana.
Blaðamaðurinn Vatanen er í vinnuferð þegar hann keyrir á héraunga. Hann fer þá inn í skóg sem liggur utan vegarins til að finna hérann og huga að líðan hans. Þegar Vatanen stendur inni í skóginum með fótbrotinn hérann í höndunum finnur hann að hann vill ekki snúa til baka að bílnum og til síns fyrra lífs. Hann tekur ákvörðun um að láta sig hverfa með héranum. Í kjölfarið ferðast hann vítt og breitt um Finnland, kynnist fólki og dýrum, kennir gömlum róna að synda, kemur þjófóttum hrafni fyrir kattanef og aðstoðar við að slökkva skógareld, en endar á landafylleríi með ókunnugu fórnarlambi eldsins. Frelsið er algert og lífið ekki alltaf auðvelt, en það er mun áhugaverðara en áður.
Ár hérans minnti mig á tvær bækur sem ég las í vetur, Miss Wyoming eftir Douglas Coupland og Leviathan eftir Paul Auster. Báðar bækurnar fjalla um fólk sem lætur sig hverfa, sem tekur meðvitaða ákvörðun um að snúa baki við fyrra lífi, ýmist í leit að einhvers konar tilgangi, eða til að láta tilviljun ráða för. Ár hérans sýnir ákvörðunina um að hverfa í jákvæðara ljósi en hinar tvær bækurnar, Vatanen verður hamingjusamari og nær tökum á tilveru sinni á flakkinu. Í Leviathan, sem kom út árið 1992 er aðalpersónu að sama skapi nauðsynlegt að láta sig hverfa, en það hefur mun neikvæðari afleiðingar í för með sér. Aðalpersóna finnur tilgang með lífinu, en endar á því að tortíma sér. Þegar komið er að bók Couplands, Miss Wyoming, sem kom út árið 2000, er tilgangsleit óhugsandi. Líkt og í Leviathan og Ári hérans láta sögupersónur sig hverfa algerlega af tilviljun, bara vegna þess að þeim dettur það í hug. Annars vegar lifir útbrunnin leikkona ein af flugslys og ákveður að flýja vettvang slyssins og fara eitthvert, hins vegar tekur subbulegur Hollywoodleikstjóri ákvörðun um að gefa allar eigur sínar og gerast útigangsmaður. Báðar persónurnar úr Miss Wyoming snúa aftur án þess að reynslan hafi breytt þeim, þau leituðu að tilgangi en fundu bara ruslið á vegum Kaliforníu.
Ég hafði afskaplega gaman af þessari eftirlætisbók nágrannans. Bækur um fólk sem lætur sig hverfa eru yfirleitt skemmtilegar, hvort sem hvarfið hefur í för með sér tortímingu eða kósýkvöld með héra. Ég mæli með öllum þremur bókunum.
Guðrún Elsa
2 ummæli:
Ár hérans þykir mér best þeirra þriggja bóka sem þýddar hafa verið eftir Paasilinna, en allar eru þær frábærar. Það er vegna þess að Paasilinna er snillingur. Þegar ég verð stór ætla ég að skrifa bók undir gríðarmiklum og afar sterkum áhrifum frá Paasilinna. Það verður gaman trúi ég.
Miðað við lýsingarnar hjá þér er þessi "must read". Las Leviathan fyrir mörgum árum og fannst hún frábær.
Skrifa ummæli