7. apríl 2010

Vigdís

vigdis Undir lok jólabókavertíðarinnar í desember síðastliðnum setti ég upp bókmenntafræðingshattinn og mætti í huggulegan sjónvarpsþátt til að tjá áhorfendum hvað ég teldi áhugaverðustu bækur flóðsins. Vigdís – Kona verður forseti var einn þeirra þriggja bóka. Það er því til helberrar skammar að ég hafi ekki tekið mér tak og skrifað eitthvað um þá ágætu bók á síðuna fyrr en nú – en umsagnir um hinar tvær Karlsvagninn og Enn er morgunn hafa þegar verið skráðar í annála þessarar síðu. Þessi slóðaháttur minn segir ekkert um bókina sjálfa eða álit mitt á henni. Það tók mig reyndar langan tíma að lesa mig í gegnum hana, og ég hefði alveg áhuga á að lesa hana aftur og mun sjálfsagt gera það með tíð og tíma. Fyrst maður er byrjaður á játningum er best að halda þeim bara áfram. Það er kannski nauðsynlegt að láta koma fram hér að mér hefur alltaf frá því ég fyrst heyrði af henni, þ.e. í kosningabaráttunni 1980, fundist Vigdís stórfengleg kona. Aðdáun mín á henni minnkaði síst þegar ég vann um nokkurt skeið sem verkefnastjóri hjá stofnun sem við hana er kennd og komst að því að hún er ekki bara falleg og gáfuð heldur líka góð og afskaplega skemmtileg kona. Þessir eiginleikar Vigdísar finnast mér allir koma vel í gegn í ævisögunni. Sagan er trúverðug og skemmtileg aflestrar þó auðvitað hefði  maður á stöku stað kannski viljað fá aðeins  meira að heyra. Bókin er einstaklega vel skrifuð og textinn flæðir vel. Maður fær aldrei á tilfinninguna að verið sé að teygja lopann eða að frásögnin detti niður. Mér fundust sérstaklega skemmtilegar lýsingar á fjölskyldu Vigdísar, systrunum úr Sauðlauksdal og öllu því áhugaverða fólki sem að henni stendur. Viðurkennist hér með að ég hágrét yfir köflunum um örlög Þorvaldar bróður hennar og varð iðulega upprifin af pirringi yfir því sem gekk á í kosningabaráttunni 1980.  Frásagnir af forsetatíð hennar fundust mér áhugaverðar og þá einkum af seinni hluta tímabilsins sem ég sjálf missti mikið til af vegna búsetu erlendis.

Til að setja nú út á eitthvað þá verð ég að viðurkenna að mér finnst kápumyndin alls ekki nægilega góð – raunar bara kolómöguleg. Finnst þetta óþarfi því það eru til svo margar fallegar myndir af Vigdísi.

Sigfríður

3 ummæli:

Halla Sverrisdóttir sagði...

Já, þetta er að mörgu leyti prýðileg bók. Þó kom fyrir að það hvarflaði að mér að höfundur hefði ekki alveg verið viss um hvernig bók hann ætlaði að skrifa - samtíðarlýsingu með Vigdísi sem spegil eða portrett af manneskju? Mér finnst fara óþarflega mikill pappír í ítarlega úttekt á forfeðrum viðfangsefnisins, en lýsingarnar á Reykjavík á æskuárum Vigdísar eru lifandi og skemmtilegar og foreldrar hennar dregin fallegum dráttum, sérstaklega móðirin og hennar störf og hugsjónir.
Það sem mér fannst merkilegast við myndina af Vigdísi sjálfri er sívarandi vanmetakennd hennar og óttinn við að mistakast; það er mikið umhugsunarefni hvað það er sem veldur slíkum tilfinningum hjá jafn hæfri og greindri manneskju sem henni og mér hefði jafnvel fundist höfundur mega kafa dýpra í það mál, þar sem þessu bregður fyrir í gegnum alla bókina. Þarna hefði hugsanlega mátt setja vanmetakennd og metnað og efasemdir um eigin getu í eitthvað stærra samhengi, bæði samfélagslega og persónulega.
Það er augljóst að höfundur og viðfangsefni hafa verið sammála um að fara ekki sérlega djúpt inn í einkalíf Vigdísar og ég sakna þess í sjálfu sér ekkert, en kannski hefði það þurft að vera skýrari "ætlun" í gegnum bókina alla - að þetta væri ekki persónuleg ævisaga heldur saga konu og samfélags í gagnvirku samhengi og við þessar einstöku aðstæður sem Vigdís jú á endanum hafnar í sem einhvers konar "niðurstöðu". Mér finnst gallinn eiginlega vera sá að bókin er svolítið hvorki né. En framan af er hún býsna skemmtileg - en hefði mátt edítera, þó ekki nema til þess að það væri auðveldara að lofta henni uppi í rúmi á milli jóla og nýjárs!

Sigfríður sagði...

Þakka þér athugasemdina Halla, einstaklega glöggt og skynsamlegt hjá þér. Mér fannst sjálfri ákaflega gaman að lesa um forfeðurna og sá svosem ekkert eftir pappírnum í þau öll sömul - en er sammála greiningunni þinni á því að kannski hefði mátt vera skýrara hvort bókin ætti að vera portrett af manneskju eða Vigdís sem samtíðarspegill. Finnst hún raunar meira persónuportrett framanaf og færa sig svo yfir í aldarspegilsfarið.

Palli sagði...

Það er kannski ekki við hæfi að ég blandi mér í umræðuna, en stenst samt ekki freistinguna enda fá höfundar alltof sjaldan tækifæri til þess að ræða verk sín af einhverju viti. En höfundur var algjörlega með á hreinu hvers konar bók hann ætlaði að skrifa og sú liggur fyrir. Hún er ævisaga, saga tiltekinnar persónu, sem um leið speglar sögu lands og þjóðfélags, í báðar áttir. Þannig eru allar góðar ævisögur, þær verða að vera hvorttveggja til þess að lukkast, þótt ég sé ekki rétti maðurinn til þess að dæma um hvort þetta hefur tekist. Það gengur nefnilega hvorki að horfa bara á persónusöguna einangraða né heldur bara á "konu og samfélag í gagnvirku samhengi". Ef til vill verður þetta til þess að fólki finnist sagan "hvorki né" en markmiðið var sem sagt "bæði og". Í þeim tilgangi var td þessi ítarlegi þáttur um forfeður og ættarsögu, sem sumum finnst of langur en öðrum skemmtilegur, en mér fannst þetta algerlega nauðsynleg baksaga sem skiptir miklu máli í heildarmyndinni. Og ég er ekki sammála því að ekki sé farið "djúpt" í einkalífið - þvert á móti. Þar er heilmikið sagt, stundum á milli lína, en hins vegar er ekki verið að velta sér upp úr hlutum.
Auðvitað hefði mátt fylgja sumum þáttum betur eftir, en ekki hefði bókin orðið styttri fyrir vikið né meðfærilegri í rúmi!
En þakka annars hlý orð og góða gagnrýni.