6. desember 2010

Þetta vill lifa. Þetta veit ekki betur.



Ég hef viðurkennt það á öðrum vettvangi að ég var full þegar ég byrjaði að skrifa þennan bókadóm, ef dóm skyldi kalla. Það kom til af góðu. Ég hafði bókina með mér á bar, las hana meðan drykkjufélagi minn fór á klósettið og lét hann lesa hana meðan ég fór á klósettið, og svo þegar annað okkar kom af klósettinu las hitt valdar línur úr bókinni og við ýmist hlógum tryllingslega eða hölluðum spekingslega undir flatt.

Ég er mjög hrifin af því að taka ljóðabækur með á barinn – þær eru yfirleitt knappar í forminu og henta sem skemmtilestur yfir bjór eða sem afþreying þegar viðmælandinn hverfur á klósettið eða út í sígó. Það verður hins vegar að viðurkennast að það mark sem ölvun setur á skrif um bækur er mun asnalegra og því leyfi ég mér að endurskoða þessi skrif lauslega. Ég skal samt ekki svindla og ritskoða allt hégóma mínum til þægðar, ég skal alveg segja ykkur að ég byrjaði á því að skrifa „Já sæll“, taldi upp fjögur props (gjafakort frá Victoria´s Secret, vodkastaup, Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson og Stuck inside a mobile with the Memphis blues again – sérkennileg blanda) og á einum stað stóð VÚHÚ.

Þessi bók var meðal þeirra sem ég var spenntust fyrir að lesa þetta haustið og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég var svolítið skeptísk á titilinn áður en ég byrjaði, Ljóð af ættarmóti, fannst hann einhvern veginn ekki alveg nógu afgerandi, en svo sættist ég við hann þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er nefnilega ættarmót – mætti kalla þetta konseptverk? – hér stökkva fram Íslendingar á ættarmóti með sínar samræður og einræður og þetta er á einhvern hátt afar íslenskt:

„Lykla-Pétur leiddi hann inn í dýrðina.

Maðurinn litaðist um og spurði: Hvar er mitt fólk?

Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur.
Þitt fólk er allt farið suður.“ (15)

Þetta er allt fólkið sem er á ættarmótinu og það er misvel mælandi eins og gengur, sumt er það hikandi og stirt, aðrir kunna þetta, eru jafnvel fyndnir, tungutakið oft kunnuglegt. Þvílíkan sjálfsaga hlýtur það að hafa kostað af hálfu hins skáldmælta höfundar að leyfa þeim ekki að hlaupa út undan sér í háfleygum líkingum og lýrík, einfaldleikinn blífur:

„Ekki amast við geitungnum.
Hann er fulltrúi lífsins.
Hér á þessum stað.

Þetta vill lifa.
Þetta veit ekki betur.
Vill koma sér upp afkomendum.“ (19)

(Ég fékk hreinlega samviskubit þegar ég las þetta ljóð, hér eftir mun ég sitja pollróleg og láta geitungana kjamsa á mér, sannfærð um að þeir séu slíkir fulltrúar lífsins.)

Það er ekki svo oft sem maður sér í íslenskri ljóðabók lagt upp með svona ákveðna gegnumgangandi hugmynd um stíl, mér finnst það virka vel og heildarmyndin verða flott og metnaðarfull, mínímalisminn verður ekki eintóna. Blaðsíðurnar eru að sjálfsögðu misjafnar – ljóðin eru ótitluð, þetta er flæði, samræðuflæði – en heildin virkar nógu sterkt til að það skipti minna máli. Sjálfsagt hefði mátt þétta bókina, hún er frekar löng af ljóðabók að vera, en það eru nú smásyndir í mínum kokkabókum þegar restin er góð.

Efnið er í senn hversdagslegt og smátt, jafnvel lítilmótlegt, og mikilvægt og stórt, jafnvel tilvistarlegt. Ég hef gríðarlegt ofnæmi fyrir öllu sem kallað er íslenska þjóðin en í þessu ættarmótsformi lifnar samt við einhvers konar þjóð, samfélag með ákveðna drætti og rætur, hversdagslega sönn og fyrst og fremst mannleg. Það er geitungurinn sem vill lifa og dagarnir sem eru svo gráir að þeir eru eins og endurtekningar á sjálfum sér en samt betra að þeir komi en ekki og svo er að missa af skónum á útsölunni og hugsa til þeirra æ síðan, að langa í eitthvað í ísskápnum en vita ekki hvað, og helvítis frændinn sem platar mann til að hjálpa sér að flytja og gefur manni engan bjór. Ég ætla að hætta áður en ég þyl upp alla bókina, hér er smá brot í viðbót:

„Nú er hann aftur látinn
elsti Íslendingurinn.

Dáinn horfinn
harmafregn.

En varla á heimsvísu
elsti jarðarbúinn kvað vera dáinn líka.

Samt eru bara nokkar víkur
síðan hann dó síðast.“ (88)

Hún er nefnilega líka mjög skemmtileg, þessi bók, og það eykur enn á skemmtunina að hlusta meðfram á upplestur skáldsins sjálfs, enda tilþrifamikill upplesari: http://www.anton.is/?page_id=176

Kristín Svava

11 ummæli:

Þórdís sagði...

Ég er ekki búin að lesa bókina en hins vegar hef ég fjórum sinnum heyrt Anton Helga lesa úr henni og finnst þetta suddalega fínt hjá honum.

Þórdís sagði...

Já og svo vil ég að það komi fram að ég mun fara með Kristjáns Jóhanssonar-bókina á einhverja alræmda byttukrá þegar rétt stund rennur upp.

Gunnþórunn sagði...

Megir þú skrifa sem flesta dóma á barnum

Halla Sverrisdóttir sagði...

ég er að vonast eftir þessari bók í jólagjöf. Það sem ég hef heyrt lesið úr henni er nefnilega ansi gott. Hugsa líka að hún geri sig alveg á barnum.

Kristín Svava sagði...

Mér finnst reyndar oftast best að skrifa á barnum, hvort sem það eru bókadómar eða ritgerðir, þá hefur maður alltaf nóg að segja, þótt maður formúleri það ekki öðruvísi en VÚHÚ. Svo fer maður bara heim og strokar út Dylan-droppið.

Ég held að þú og Kristján væruð megafínir drykkjufélagar, Þórdís, mig langar með!

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Mig rámar nú í að hafa verið á bar með þér og ljóðabók einu sinni. Þú varst ekki alveg svona jákvæð þá. En þá varstu líka ennþá ung og reið.

Ég skrifaði annars (bláedrú) um þessa bók í Spássíuna sem kemur í vikunni. Ekki að það sjáist að ég hafi verið edrú (eiginlega því síður grunar mig). En altso, þá fann ég bara að þessu eina, einsog þú: blessuðum titlinum.

Þórdís sagði...

Langar þig ekki geðveikt að skrifa gestapistil Eiríkur Örn? Ég er hérna með tvær ljóðabækur sem þrá umfjöllun, Blóðhófni Gerðar Kristnýjar og Enginn heldur utanum ljósið eftir Véstein Lúðvíksson. Ég get sent þær með hraðpósti til þín í fyrramálið :)

Þórdís sagði...

Broskallinn þarna fyrir ofan átti að vera gríðarlega lokkandi og hressilegur, en hann er frekar geðveikur á svipinn finnst mér.

Kristín Svava sagði...

Neinei, ég var ekki svona jákvæð þá, enda komst sú ljóðabók ekki í hálfkvisti við þessa. Þær verða ekkert átómatískt góðar af því að fara á barinn, frekar en við mannfólkið.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ef ég man rétt þá fjallaði sú bók meðal annars um það, að maður yrði ekki góður af að fara á barinn.

Ég treysti mér ekki í Gerði - en ég skal gjarnan segja eitthvað um Véstein ef þið viljið.

EÖN
Tiedonkaari 6a 2
90570 Oulu
Finland

Þórdís sagði...

Hann kemur ...